Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 21:01:17 (8085)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég skrifa undir álit menntmn. um þetta mál með fyrirvara og fyrirvari minn lýtur að því að á síðasta ári ákvað menntmrn. að flytja prófagerðina í grunnskólum inn í rannsóknastofnun

uppeldismála. Það var ákveðið án sérstakrar lagaheimildar en þó má auðvitað segja að menntmrh. hafi haft fulla heimild til þess að gera það. Þegar farið var að vinna í þessum prófum og prófagerð við Rannsóknastofnun uppeldismála kom í ljós að vinnubrögðin leiddu til töluverðrar gagnrýni frá kennarasamtökunum. Það var talið að staðið væri að málum með þeim hætti að ekki væri leitað faglegrar ráðgjafa kennara eins og skylt er að gera þegar verið er að undirbúa próf heldur yrðu þeir sem sömdu prófin að sæta í raun og veru ákvörðunum eins manns sem hefði úrslitaáhrif við prófagerðina.
    Síðan var gengið í það, ekki síst fyrir tilstuðlan kennaranna, að reyna að bæta samskiptin innan þessarar stofnunar, milli hennar og annarra aðila. Út af fyrir sig má segja að það hafi að mörgu leyti tekist allvel þó svo að skiptar skoðanir séu hins vegar um samræmdu prófin eins og þau voru lögð fyrir í vor í fyrsta sinn samkvæmt þessum nýju aðferðum.
    Nú er það hins vegar svo að hæstv. menntmrh. hefur tekið ákvörðun um að flytja samræmdu prófin til Rannsóknastofnunar uppeldismála. Þó að það geti verið umdeilanleg ákvörðun þá tel ég að miðað við þann pólitíska vilja ráðherrans sé í raun og veru ekkert annað að gera en að reyna að búa sem best um það í lögum eða eins vel og kostur er. Það er þess vegna sem ég fyrir mitt leyti stend að því að samþykkja þetta frv., en fyrirvari minn lýtur að því að þarna er að sumu leyti verið að blanda saman óskyldum verkefnum í þessari mikilvægu stofnun.
    Rannsóknastofnun uppeldismála á að vera vísindaleg rannsóknastofnun, það er hennar hlutverk númer eitt og það er dálítið sérkennilegt að rannsóknastofnun annist líka tiltekinn framkvæmdaþátt, þ.e. prófin sem slík. Rannsóknastofnunin semur prófin eftir þessum hugmyndum og hún leggur líka mat á þau. Auðvitað væri hugsanlegt að slíta þetta í sundur þannig að einhver einn aðilinn semdi prófin og annar annaðist matið, þ.e. rannsóknastofnunin, því það er auðvitað skylt rannsóknaþætti málsins. Menn hafa ekki viljað fallast á það og með hliðsjón af þeim vilja, sem ég tel út af fyrir sig ástæðu til að gagnrýna með vissum hætti, þá tel ég að það sé ekkert annað að gera en að fallast á að setja ný lög um stofnunina þar sem gengið er frá fyrirkomulagi þessara mála í einstökum atriðum.
    Varðandi einstakar breytingar sem hv. menntmn. hefur gert á frv. sem eru á þskj. 1988 þá tel ég þær allar vera til verulegra bóta. Ég tel t.d. að sú breyting sem gerð er við 7. gr. varðandi skipun ráðgjafarnefndarinnar sé mjög til bóta. Ég tel einnig að það sé til mikilla bóta í þessu frv., eins og það kom frá menntrmh., að gert er ráð fyrir að þetta sé ráðgjafarnefnd Rannsóknastofnunar uppeldismála en ekki stjórn eins og hefur verið. Ég tel að það hafi verið óskynsamlegt fyrirkomulag að vera með stjórn þessarar stofnunar með fulltrúum þeirra aðila sem stofnunin átti svo að rannsaka. Ég tel að það sé miklu faglegra að hlutunum staðið að þetta sé ráðgjafarnefnd eins og hér er gert ráð fyrir.
    Þá er í 6. gr. frv. mjög mikilvægt nýmæli. Þar er gert ráð fyrir því að kennurum verði, eins og öðrum sérfræðingum og háskólakennurum, heimilt að inna vinnuskyldu sína, eða hluta af henni, af hendi með störfum innan stofnunarinnar að fengnu samþykki forstöðumanns. Ég tel að mikilvægt sé að opna stofnunina fyrir almennum kennurum, ekki síður en öðrum sérfræðingum og háskólakennurum.
    Í gildandi lögum um Rannsóknastofnun uppeldismála er kveðið á um að forstöðumaður stofnunarinnar hafi fjárhagslega ábyrgð og geri tillögu að því er varðar fjárlög stofnunarinnar. Það ákvæði er ekki í þessu frv. Ég er þeirrar skoðunar að það sé þarflaust vegna þess að það segir sig sjálft að forstöðumaðurinn hljóti að hafa þessa fjárhagslegu ábyrgð. Ég taldi því ekki ástæðu til að gera brtt. við það atriði þó mér hafi flogið það í hug við meðferð málsins í nefndinni.
    Í upphaflegu frv. ráðherrans var gert ráð fyrir því að það giltu mjög sérkennileg ákvæði um forstöðumann þessarar stofnunar. Gert var ráð fyrir því að hann yrði ráðinn til fimm ára í senn samkvæmt samningi við menntmrh. Það er auðvitað mjög sérkennilegt að hafa hlutina þannig að hann sé ekki bara ráðinn heldur var þarna gert ráð fyrir sérstökum samningi við forstöðumann stofnunarinnar. Hv. menntmn. féllst á þá athugasemd að þetta ákvæði yrði fellt niður. Mikilvægara er þó það að í frv. sjálfu stóð: ,,Forstöðumaður ræður aðra starfsmenn með samþykki menntmrh.`` Nefndin ákvað að fella niður orðin ,,með samþykki menntmrh.`` Ég tel að það sé mjög mikilvægt til að undirstrika sjálfstæði þessarar stofnunar að forstöðumaðurinn ráði einn hverjir starfa þar þann tíma sem hann er ráðinn en hann er ráðinn til fimm ára í senn.
    Nú er það auðvitað svo að andspænis Rannsóknastofnun uppeldismála eru mjög blendnar tilfinningar meðal starfsmanna skólanna í landinu, að ekki sé meira sagt. Maður verður var við verulegan ótta hjá starfsmönnum skólanna við þessa stofnun, að hér sé að verða til bákn sem skólarnir eigi í raun og veru mjög erfitt með að starfa með. Þó kennarar hafi margir hverjir gagnrýnt menntmrn. á undanförnum árum, ekki aðeins í þessari tíð sem nú stendur heldur líka áður, þá vilja þeir margir frekar eiga þangað með erindi sín að sækja heldur en til stofnana eins og Rannsóknastofnunar uppeldismála. Einhver vildi orða þetta þannig að þangað sæki klárinn sem hann er kvaldastur. En það er ekki alveg sanngjarnt að afgreiða kennara með þeim hætti. Staðreyndin er sú að það er full ástæða til þess að vera á varðbergi gagnvart því að svona stofnun þróist upp í allt of valdamikinn aðila sem geti valdið erfiðleikum í skólastarfi og flækt skólastarf fyrir skólum og menntmrn. líka. Þess vegna er mikilvægt, að mínu mati, að stofnunin sé sjálfstæð og mikilvægt að hún hafi skýran lagagrundvöll fyrir þau verk sem hún á að vinna þannig að það sé á hreinu að hún sé ekki að vasast í öðrum verkum en þeim sem tiltekin eru í lögunum. Hér er gert ráð fyrir því stofnuninni verði skipt í tvær álíka myndugar deildir, annars vegar rannsókna- og þróunardeild og hins vegar prófa- og matsdeild, og tel ég það eftir atvikum skynsamlegt fyrirkomulag. En þrátt fyrir þetta treysti ég mér ekki til að skrifa upp á nál. fyrirvaralaust og skrifaði undir það með fyrirvara en ég hef nú gert grein fyrir honum, hæstv. forseti.