Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 21:09:34 (8086)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég vil aðeins þakka hv. menntmn. fyrir afgreiðslu þessa máls og fagna þeirri einingu sem tókst um málið. Jafnframt vil ég segja það að þær brtt. sem hv. menntmn. flytur eru mjög vel ásættanlegar og ég felst á þær allar.
    Hv. þm. Svavar Gestsson gerði hér grein fyrir hvers vegna hann hefði skrifað undir nál. með fyrirvara. Ég skil ræðu hans þannig að hann styðji frv. verði því breytt eins og tillögur liggja fyrir um frá hv. menntmn. Hv. þm. nefndi að sú ákvörðun mín að flytja prófagerðina til Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála hefði leitt til gagnrýni en ég held að ég megi segja að þeir árekstrar sem kunna að hafa orðið voru ekki alvarlegir og ég held að það hafi allt saman verið jafnað. Hv. þm. taldi að þarna væri blandað saman mati og framkvæmd. Þetta er gagnrýni sem ég hef svo sem heyrt en ég held að segja megi að það sé grundvallarmisskilningur á öllu vísindastarfi að halda að framkvæmd og mat fari ekki saman, auðvitað gerir það það. Ég get tekið sem dæmi að Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála hefur nýlega framkvæmt viðamestu rannsókn sem gerð hefur verið á högum mörg þúsund ungmenna um land allt og að sjálfsögðu fer þar saman framkvæmd rannsóknar og mat á gögnum eða niðurstöðum. Það sama má segja með framkvæmd prófa og mat á niðurstöðum þeirra. Kennarar, ásamt prófasérfræðingum, munu semja prófin og leggja hlutlægt mat á niðurstöður þeirra.
    Það má líka segja að það hafi í raun hindrað eðlilegt mat á því hvernig túlka beri niðurstöður samræmdra prófa hingað til, að ekki hefur verið hugað nægilega að próffræðilegri gerði prófanna í upphafi. Það hefur því ekki alltaf legið ljóst fyrir hvað það var sem prófin ættu að mæla.
    Herra forseti. Ég þarf ekki að fara fleiri orðum um þetta. Ég ítreka þakkir mínar til nefndarinnar fyrir afgreiðslu þessa máls og er sannfærður um að hér er verið að stíga rétt skref til þess að efla þessa stofnun og gera hana sjálfstæðari.