Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 21:16:12 (8088)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni fyrir stuðning hans við þetta mál. Það er vissulega rétt sem hv. þm. sagði að það þarf að gæta þess að þessi stofnun fái þá fjármuni sem hún þarf til þess að geta sinnt því mikilvæga hlutverki sem henni er svo sannarlega ætlað. Þegar hafa verið flutt stöðugildi frá menntmrn. og til stofnunarinnar vegna þeirra viðfangsefna sem henni voru fengin á þessu ári og þar með fjármunir. Ég er alveg sammála hv. þm. að með eflingu þessarar stofnunar aukast líkurnar á því að markvisst starf verði unnið á sviði skólamála og það getur svo sannarlega einmitt orðið til þess að auka hagræði í skólakerfinu og þar með sparnað. Um þetta er ég hv. þm. algjörlega sammála.