Menningarsjóður

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 21:23:29 (8092)

     Frsm. minni hluta menntmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Herra forseti. Hér er komið til 2. umr. mál sem mikið var rætt þegar það kom fram, enda saga þess með afar sérkennilegum hætti. Við 1. umr. þessa máls reifaði ég þá skoðun mína að nauðsynlegt væri að fara vel ofan í forsöguna, en það varð nú ekki. Það var ekki gert í nefndinni og ég þrýsti nú ekki mikið á það. Vissulega hefði verið full ástæða til þess að kanna vel hvernig að þessum málum var staðið frá því að nýtt menntamálaráð var kjörið 1991 og fram til þess tíma er þetta frv. kom fram. Í starfi nefndarinnar voru gerðar nokkrar breytingar á frv. og eru þær allar fremur til bóta en það breytir því ekki að við í minni hlutanum getum ekki fallist á þetta frv. eins og fram kemur í nál. minni hlutans en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Menntamálanefnd hefur haft til meðferðar frv. til laga um Menningarsjóð en sjóðnum er ætlað að leysa af hólmi menntamálaráð og hinn gamla menningarsjóð sem stofnaður var með lögum árið 1928.
    Forsaga þessa máls er vægast sagt furðuleg og áhöld um að aðgerðir menntmrh. og fulltrúa hans við að leggja niður menntamálaráð, Menningarsjóð og Bókaútgáfu Menningarsjóðs standist lög. Gengið var fram af mikilli óbilgirni, tilsjónarmanni beitt og ákveðið fyrir fram að leggja starfsemina niður án þess að lagaheimilda væri aflað til þess. Alþingi stendur því frammi fyrir gerðum hlut. Bókaútgáfan hefur verið lögð niður, útgáfuréttur seldur, búið uppgert og gamla landshöfðingjahúsinu ráðstafað. Það er því ljóst að kaflaskil eru orðin í afskiptum ríkisins af menningarmálum án þess að Alþingi Íslendinga hafi gefist kostur á að svo mikið sem að ræða þá stefnubreytingu fyrir fram sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir. Það væri ástæða til að gera ítarlega grein fyrir sögu og aðdraganda þessa máls en hér verður látið nægja að vísa til

þeirra umræðna sem urðu um frv. til laga um Menningarsjóð í mars sl.
    Frv. um nýjan Menningarsjóð er meingallað að mati minni hlutans þótt þær breytingar, sem meiri hlutinn leggur til, séu heldur til bóta.
    Í fyrsta lagi ber að nefna að sjóðurinn ber áfram nafnið Menningarsjóður þótt honum sé einkum ætlað að styðja bókaútgáfu og hafi ekki lengur því víðtæka menningarhlutverki að gegna sem fólst í lögum um menntamálaráð.
    Í öðru lagi er lagt til að stjórn sjóðsins verði kosin af Alþingi. Minni hlutinn er þeirrar skoðunar að í stjórninni eigi fyrst og fremst að vera fulltrúar rithöfunda og fræðimanna, þ.e. þeir sem þekkingu hafa á þeim bókum sem meiningin er að styrkja til útgáfu. Minni hlutinn er að sjálfsögðu fylgjandi því að bókaútgáfa, ekki síst á sviði fræða og menningarsögu, sé styrkt myndarlega, enda oft um rit að ræða sem seljast hægt en hafa ómetanlegt gildi. Ekki verður sagt að hinn nýi Menningarsjóður fái veglega vöggugjöf eða að honum verði tryggðar miklar tekjur. Hann fær á milli 15 og 20 millj. kr. í arf frá hinum gamla Menningarsjóði og á síðan að fá í sinn hlut gjald af kvikmyndasýningum og skuggamyndasýningum eins og hinn eldri sjóður samkvæmt lögum um skemmtanaskatt, nr. 58/1970. Reynslan sýnir að þessi tekjustofn hefur verið skertur ár eftir ár og ótrúlegt að þar verði breyting á nú. Að dómi minni hlutans hefði átt að fara betur ofan í tekjuöflun sjóðsins sem er vægast sagt gamaldags og úrelt.
    Í ljósi forsögu þessa frv. og þess hvernig að málum hefur verið staðið og í ljósi þess hversu gallað frv. er leggur minni hlutinn til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar.`` Undir þetta nál. skrifa auk mín Valgerður Sverrisdóttir og Svavar Gestsson.
    Fyrr í vetur beindi ég fyrirspurn til hæstv. menntmrh. varðandi bókaútgáfu á vegum ríkisins, ekki síst vegna þessa frv. Það kom í ljós, sem mig hafi nú reyndar ekki grunað, að bókaútgáfa á vegum ríkisins er feykilega mikil, ótrúlega mikil. Þar eiga námsbækur ekki síst hlut að máli, bæði fyrir grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla, ef allar þær stofnanir eru taldar með sem gefa út bækur. Þetta segir mér að það þurfi að standa að bókaútgáfu á vegum ríkisins á skipulegan hátt.
    Ég lagði til við 1. umr. um þetta mál, og hef gert það áður í utandagskrárumræðum um Menningarsjóð og menntamálaráð, að ríkið standi fyrir því að stofna háskólaútgáfu eða beiti sér fyrir því í samvinnu við háskólana í landinu að hér verði stofnuð háskólabókaútgáfa sem gæti þá tekið að sér ýmsa aðra útgáfustarfsemi á vegum ríkisins. Ég held að það sé alveg augljóst að eftir að Bókaútgáfa Menningarsjóðs var lögð niður þá myndast ákveðin eyða í útgáfu fræðirita. Það er allt annað mál að styrkja einstakar bækur með því litla fjármagni sem mér sýnist að þessi sjóður muni hafa til umráða eða hvort starfandi er bókaútgáfa sem beinlínis hefur það hlutverk að gefa út bækur á vegum ríkisins og ríkisstofnana, jafnframt því að styðja og styrkja ýmiss konar menningarstarfsemi.
    Það kemur fram í nál. hverja við teljum vera megingallana á þessu frv. en ég get ekki annað en vakið sérstaka athygli á þeim tekjustofni sem þessi sjóður á fyrst og fremst að byggja á, þar sem um er að ræða gjald af aðgöngumiðum af kvikmynda- og skuggamyndasýningum. Hv. 2. þm. Vestf. vakti sérstaka athygli á þessum skuggamyndasýningum og vildi fá það upplýst hversu miklum tekjum þær skiluðu. Þar sem um það er að ræða að gjald er lagt á kvikmyndir, þá vaknar auðvitað sú spurning hvort íslenskar kvikmyndir eigi að njóta þess að fólk kemur í kvikmyndahúsin til að sjá íslenskar og erlendar myndir. Væri ekki nær að þetta gjald rynni til íslenskra kvikmynda? Þarna er einfaldlega um gamla og úrelta lagasetningu að ræða sem þarf auðvitað að breyta. Þegar verið er að breyta lögum á svona gagngeran hátt eins og hér er gert þá hefði auðvitað verið nær að láta málið bíða, vinna það betur og skoða þessa tekjustofna betur. Það hefði mátt hugsa sér ýmsar aðrar leiðir eins og t.d. þá, að þó að við stjórnarandstæðingar séum ekki hrifnir af þeim bókaskatti sem hér var samþykktur á þessu þingi að þá mætti þó hugsa sér að hluti hans rynni til þessa sjóðs í stað þess að vera að skattleggja kvikmyndasýningar og veita þeim peningum til að styrkja bókaútgáfu. Þetta er nú allt saman heldur langsótt og sérkennilegt.
    Þeir sem sendu umsagnir til nefndarinnar bentu á ýmislegt sem okkur í minni hlutanum fannst nú réttlátt eins og það að nota áfram þetta heiti, Menningarsjóður, þó að hlutverk sjóðsins væri jafntakmarkað og raun ber vitni. Þá komu fram margar athugasemdir varðandi skipan stjórnarinnar og meiri hlutinn tók að hluta tillit til þess, þ.e. í stað þess að það fráleita stjórnarfyrirkomulag væri viðhaft sem lagt var til í frv. þá er lagt til að Alþingi kjósi stjórnina og það er strax til bóta. Í mörgum umsögnum er bent á hversu rétt og eðlilegt það væri að fulltrúar þeirra sem rita bækur og/eða hafa sérþekkingu á fræðilegum bókum komi þarna að málum, til þess að tryggt sé að verið sé að styrkja rit sem skipta verulegu máli fyrir vísindin og menningarsöguna. Þetta kemur fram í umsögnum allnokkurra þeirra aðila sem sendu okkur umsagnir þannig að við þetta hafa verið gerðar miklar athugasemdir.
    Það væri auðvitað freistandi að rifja upp alla forsöguna sem ég gerði að umtalsefni við 1. umr. þessa máls. Ég held að ég sleppi því vegna hins nauma tíma sem við höfum hér á Alþingi og vegna þeirra mörgu mála sem eru fram undan á dagskránni og þörf er á að ræða. En ég ítreka þá skoðun mína að þar hafi verið fráleitlega að málum staðið og þar hafi verið gengið fram með þeim hætti að einsdæmi verður að teljast í stjórnarháttum og tengist svo sem ýmsu sem gerst hefur í menntmrn. síðan þá. Ég tel í raun og veru alveg forkastanlegt hvernig Alþingi er aftur og aftur stillt upp andspænis gerðum hlut. Við vorum einmitt að greiða atkvæði um eitt slíkt mál í gær í húsnæðismálunum þar sem búið er að selja eigur tæknideildarinnar og síðan er komið til Alþingis á eftir til að leita eftir heimildum og það sama gildir hér. Það

er búið að ráðstafa öllum eigum Menningarsjóðs en hér er verið að leita eftir lagaheimildum til þess eða í rauninni verið að fella úr gildi þau lög sem áður giltu um menntamálaráð og Menningarsjóð. Hér er sem sagt um þvílíkt mál og þvílíka málsmeðferð að ræða að ekki er nokkur leið að styðja þetta, enda leggjum við til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.