Menningarsjóður

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 21:39:49 (8094)

     Frsm. meiri hluta menntmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Vestf. umhyggju hans fyrir mér og velferð minni hér. Ég held að ekki muni skaða mig mjög að standa að þessu frv. þó að minnt sé á skuggamyndasýningar og þótt sagt yrði frá því í fréttum sjónvarpsins. Ég vona að sjónvarpið lendi ekki í þeim vandræðum vegna þessa máls að það verði bannað að minnast á orðið ,,skuggamyndasýningar`` eins og orðið ,,Háskólabíó`` virðist bannað í sjónvarpinu þegar rætt er um svona viðkvæm mál. Að mínu áliti væri því í lagi að segja frá þessu í fréttum sjónvarpsins. Ég tel að sjóður sem ber þetta virðulega heiti sem hér hefur verið nefnt, Menningarsjóður, þurfi auðvitað tekjustofna sem hæfi og það hefur komið fram að það er ekki litið á hann sem frambúðarlausn heldur sem tillögu núna þegar siglt er af stað og síðan verði unnið að því að tryggja sjóðnum öflugri tekjustofna.