Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 21:53:28 (8101)

     Frsm. félmn. (Guðjón Guðmundsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. félmn. um till. til þál. um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Nál. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Elsu Þorkelsdóttur, framkvæmdastjóra Jafnréttisráðs, og Valgerði H. Bjarnadóttur, jafnréttisfulltrúa á Akureyri. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Búnaðarfélagi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands, Stéttarsambandi bænda, Jafnréttisráði, Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Kvennaráðgjöfinni, Vinnueftirliti ríkisins, Kvenréttindafélagi Íslands, Samtökum um kvennaathvarf, Rannsóknastofu í kvennafræðum, Tryggingastofnun ríkisins, Byggðastofnun, UNIFEM á Íslandi, Kennarasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Alþýðusambandi Íslands og Þróunarsamvinnustofnun Íslands.
    Fyrsta framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar var lögð fyrir Alþingi í desember 1986 í framhaldi af setningu nýrra jafnréttislaga árið 1985. Sú áætlun var sett upp með nokkuð öðrum hætti en nú er gert. Félagsmálaráðherra kynnti á Alþingi í mars 1991, í skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála, hvernig tekist hefði að ná fram markmiðum þeirrar áætlunar. Framkvæmdaáætlunin, sem hér er til umfjöllunar, er, eins og sú fyrri, gerð til fjögurra ára en er nú lögð fram í formi þingsályktunartillögu í samræmi við 17. gr. núgildandi jafnréttislaga, nr. 28/1991. Rétt þykir að taka fram að fyrri kafli áætlunarinnar, er fjallar um starfsmannamál ríkisins, er að mestu leyti byggður á ákvæðum laganna.
    Meginmarkmið áætlunarinnar er að jafna stöðu kynjanna hér á landi með sérstökum aðgerðum af hálfu stjórnvalda. Þannig hlýtur að verða að leggja sérstaka áherslu á að efla sjálfsvitund beggja kynja og að jafna möguleika þeirra til að nýta sér það lagalega jafnrétti sem er til staðar. Einnig er það markmið í

sjálfu sér að flétta jafnréttismálin þannig inn í starfsemi opinberra stofnana að áætlun sem þessi verði að lokum óþörf.
    Í umræðum um þingsályktunartillöguna á Alþingi komu fram nokkrar athugasemdir um gildi slíkra áætlana. Nefndin bendir á að fyrirmynd framkvæmdaáætlunarinnar er sótt til nágrannaríkja okkar á Norðurlöndum, en þar hafa slíkar áætlanir gefist vel. Mikilvægt er að áætlunin verði almennt vel kynnt og að grannt verði fylgst með framgangi hinna ýmsu verkefna. Auk þess verði hún kynnt þeim aðilum, félögum og stofnunum sem eðli málsins samkvæmt geta og eiga að koma að hinum ýmsu verkefnum.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Í umsögnum, er nefndinni hafa borist, koma fram margar mikilvægar ábendingar varðandi efni og framkvæmd áætlunarinnar. Nefndin álítur að sum þessara atriða séu þess eðlis að rétt sé að flytja sérstakar breytingartillögur þar um. Nefndin vill árétta mikilvægi þess að hugað verði að ýmsum öðrum atriðum við endurskoðun framkvæmdaáætlunarinnar að tveimur árum liðnum frá gildistöku hennar.
    Breytingar þær, er nefndin leggur til að gerðar verði, felast í eftirfarandi atriðum:
    1. Lögð er til breyting á ártölum í upphafsorðum áætlunarinnar þannig að gildisími hennar verði fjögur ár frá væntanlegri gildistöku. Er það í samræmi við 17. gr. laga nr. 28/1991. Framkvæmdaáætlun þessi er endurskoðuð áætlun ríkisstjórnarinnar frá febrúar 1991 og er það ástæðan fyrir þeim ártölum sem hér er lagt til að verði breytt.
    2. Lagt er til að töluliður 1.2.1 falli brott, en þar er lagt til að löggjöf verði bætt varðandi kynferðisafbrot. Ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um kynferðisafbrot, hefur þegar verið breytt með lögum nr. 40/1992. Þannig var bætt við ákvæðum um að kynferðisafbrot skuli vera ókynbundin, refsimörk ákvæða kaflans yfirleitt hert og refsivernd aukin. Markmið þau, er fram koma í töluliðnum, hafa þannig þegar verið lögbundin.
    3. Lögð er til breyting á tölulið 1.2.2. Með nýjum lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, er miðað að því að draga úr skaðlegum áhrifum brots og málsmeðferðar á brotaþola og tryggja þeim bætur fyrir fjártjón og miska. Þrátt fyrir þá lagasetningu þarf enn að huga að því markmiði að dregið verði úr skaðlegum áhrifum kynferðisbrota og málsmeðferð í slíkum málum. Árétta verður mikilvægi þess að stöðugt verði miðað að því að styrkja refsivörslukerfið í baráttunni við refsiverð brot. Þá bendir nefndin einnig á mikilvægi þess að ákvæðum áætlunarinnar, er þegar hafa verið tekin upp í lög, verði fylgt eftir þannig að eftirlit verði haft með beitingu þeirra og virkni.
    4. Breytingin við tölulið 1.2.3 felur í sér að í aukinni fræðslu lögreglumanna í grunnnámi um kynferðisafbrot felist einnig aukin fræðsla varðandi heimilisofbeldi og verði slík kennsla hluti af endurmenntunarnámskeiðum þeirra. Nefndin lítur svo á, án þess að gera beina breytingartillögu þar um, að æskilegt væri einnig að kennara- og fóstrunemar og starfsfólk allra skólastiga eigi kost á námskeiðum og námsefni um þessi efni.
    5. Lögð er til efnisbreyting á tölulið 2.1 sem heyrir undir verkefni félagsmálaráðuneytisins og varðar stöðu karla í breyttu samfélagi. Þannig er lagt til að skipuð verði ráðgjafarnefnd til tveggja ára og verði hlutverk hennar að virkja karla í jafnréttisumræðunni auk þess sem nefndin skal tryggja að sjónarmið karla komist til skila ekki síður en sjónarmið kvenna. Þá verði starfsmanni skrifstofu jafnréttismála falið að fylgja ákvörðunum nefndarinnar eftir þannig að þær hafi virk áhrif úti í þjóðfélaginu.
    6. Breytingin á tölulið 2.2 felur í sér að kveðið verði nánar á um hlutverk jafnréttisráðgjafa. Þannig er lagt til að jafnréttisráðgjafi sinni jafnréttisstarfi á sviði menntamála, fjölskyldu-, félags- og heilbrigðismála í samvinnu við ýmsa aðila. Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að jafnréttisráðgjafi verði ráðinn sem fyrst. Tryggja þarf samvinnu jafnréttisráðgjafa með samráðsfundum og samvinnu þeirra við atvinnuráðgjafa um atvinnumál kvenna. Þá verði tryggt með virku samráði að sú reynsla nýtist sem fengist hefur á liðnum árum af starfi að jafnréttismálum um allt land. Á það við um starf Jafnréttisráðs, Brjótum múrana, jafnréttisnefnda, jafnréttisfulltrúa Akureyrar, kvennaráðgjafa við atvinnuþróunarfélög auk átaksverkefna sveitarfélaganna o.fl.
    7. Breytingin, sem lögð er til við tölulið 2.3, um vinnuvernd, er tvíþætt. Þannig er lagt til að fyrirsögn efnismálsgreinarinnar óbreyttrar verði ,,Úttekt á hefðbundnum kvennastörfum``. Þá bætist við nýr undirliður er verði nr. 2.3.2 og beri fyrirsögnina ,,Könnun á kynferðislegri áreitni á vinnustöðum``. Lagt er til að á vegum félagsmálaráðuneytisins verði gerð könnun á kynferðislegri áreitni á vinnustöðum. Í framhaldi af niðurstöðum könnunarinnar verði markvisst unnið að því að draga úr kynferðislegri áreitni á vinnustöðum. Þá er lagt til að ákvæðum verði bætt í viðeigandi löggjöf þar sem tekið verði á kynferðislegri áreitni.
    8. Lögð er til breyting á ártölum í tölulið 2.4 og vísast um þá breytingu til breytinga á upphafsorðum ályktunarinnar. Þá er lagt til að í stað orðanna ,,verkefnisstjórn norræna launaverkefnisins`` komi ,,norræna jafnlaunaverkefnið``. Umrædd verkefnisstjórn hefur verið lögð niður og verkefni hennar felld undir Jafnréttisráð.
    9. Breytingin við tölulið 2.5, um starfsmenntun, byggist á því að sett hafa verið ný lög um starfsmenntun í atvinnulífinu, nr. 19/1992.
  10. Breytingin á tölulið 3.1 felur aðeins í sér breytingu á kaflaheitum og þarfnast ekki skýringa.
  11. Lagt er til að við 3. kafla, sem varðar verksvið fjármálaráðuneytisins, verði bætt nýjum undirkafla þar sem fjallað verði um sérstök námskeið fyrir stjórnendur hjá hinu opinbera. Lagt er til að skipulögð verði

fyrir þá sérstök námskeið þar sem lögð verði áhersla á jafnrétti og samskipti kynjanna.
  12. Lagt er til að töluliður 6.3 falli brott þar sem þegar hefur verið stofnuð neyðarmóttaka sem fellur að þeim markmiðum er talin eru upp í liðnum.
  13. Breytingin á tölulið 9.2 felur í sér að auk þess sem stefnt verði að samfelldum skóladegi í grunnskólum verði stefnt að lengingu daglegs skólatíma yngstu barnanna og árlegs kennslutíma.
  14. Lagt er til að liður 9.2, um leikskóla, falli brott en nú þegar er unnið að endurskoðun laga um leikskóla, nr. 48/1981.
  15. Lagt er til að við kafla 9, sem varðar verksvið menntamálaráðuneytisins, bætist nýr töluliður. Nefndin tekur undir sjónarmið, er fram koma í umsögn er henni barst frá Rannsóknastofu í kvennafræðum, varðandi mikilvægi þess að kennsla og rannsóknir í kvennafræðum verði efldar á háskólastigi. Einnig telur nefndin eðlilegt að kvennarannsóknir verði kynntar í sem flestum fræðigreinum.
    Félagsmálaráðherra hefur þegar óskað eftir því að starfsmenn skrifstofu Jafnréttisráðs geri úttekt á því hvort áætlanir sem þessi skili árangri og munu niðurstöður slíkrar úttektar vera væntanlegar með haustinu. Þá hefur ráðherra einnig óskað eftir því við Jafnréttisráð að það fylgi framkvæmdaáætluninni eftir og fylgist með framgangi hinna ýmsu markmiða hennar og leggur nefndin áherslu á að það gangi eftir. Þar sem áætlunin verður lögum samkvæmt endurskoðuð að tveimur árum liðnum eru ýmsar ábendingar sem nefndin álítur mikilvægt, m.a. með tilliti til umsagna er henni bárust, að hafðar verði í huga við þá endurskoðun.
    Í framkvæmdaáætlun umhverfisráðstefnunnar, sem haldin var í Rio de Janeiro á síðasta ári, var lögð áhersla á nauðsyn þess að þróunaraðstoð framtíðarinnar miði að því að gera þiggjendur sjálfbjarga. Aukin áhersla á þróunaraðstoð til kvenna er í anda þeirrar áætlunar og tekur nefndin undir þær ábendingar að rétt sé að beina þróunaraðstoð í meira mæli en nú tíðkast til kvenna. Þá skiptir máli að konur vinni að vali verkefna, undirbúningi og framkvæmd þeirra. Samkvæmt upplýsingum frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafa konur lítið sóst eftir störfum á vegum stofnunarinnar og er mikilvægt að þar verði breyting á þannig að ráðnar verði konur til að fylgja slíku starfi eftir, sbr. lið 13.2 í áætluninni.
    Í umsögnum, er nefndinni bárust, kom fram hvatning um að þátttaka kvenna verði aukin í nefndum á vegum ríkisins þannig að lágmarkshlutfall verði bundið við 30% af hvoru kyni. Nefndin tekur undir þessa viðmiðunartölu. Hún telur eðlilegt að miðað verði við hlutfall í hverri nefnd, svo sem gert er annars staðar á Norðurlöndunum, en ekki heildarhlutfall hjá hverju ráðuneyti. Á hinn bóginn treystir nefndin sér ekki til að mæla með öðru viðmiði en heildarhlutfalli í ráðuneytum á meðan ekki er lögbundin tilnefning beggja kynja í nefndir annars staðar á Norðurlöndum.
    Nefndinni bárust ábendingar um nauðsyn aðgerða til að draga úr atvinnuleysi kvenna. Víða í áætluninni koma fram margs konar aðgerðir til að bæta atvinnulíf kvenna. Nefndin leggur áherslu á að við endurskoðun áætlunarinnar verði horft á atvinnuleysi kvenna sem slíkt og aðgerðir sem líklegar eru til árangurs að ráða þar bót á. Þá komu víða að ábendingar um nauðsyn á endurskoðun reglna um fæðingarorlof, svo sem um lengingu þess, laun í fæðingarorlofi og bætta stöðu og aukinn rétt feðra til töku fæðingarorlofs. Einnig bárust nefndinni mikilvægar ábendingar um að við endurskoðun verði hugað að markmiðum varðandi íþróttamál kvenna og nauðsyn þess að styrkja konur og kvennafélög innan íþróttahreyfingarinnar.
    Nefndinni barst yfirlit yfir fjölda örorkuþega þar sem fram komu athyglisverðar upplýsingar varðandi skiptingu örorku frá stiginu 50--100% milli kynja. Þannig eru mun fleiri konur en karlar með varanlega örorku á þessu stigi. Mikilvægt er að þessi mál verði skoðuð nánar, m.a. með tilliti til tengsla við atvinnu kvenna og orsaka þessa mismunar. Í áætluninni er þannig, sbr. lið 2.3, gert ráð fyrir að ítarleg úttekt verði gerð á hefðbundnum kvennastörfum með það að markmiði að draga fram tengslin milli atvinnu annars vegar og streitu, álags og slitsjúkdóma hins vegar.
    Í umsögnum kom fram að þrátt fyrir að Byggðastofnun hafi lagt talsverða vinnu í að finna fjarvinnsluverkefni á vegum hins opinbera hafi árangurinn verið rýr. Nefndin tekur undir þær ábendingar að nauðsynlegt sé að finna nýjar leiðir varðandi fjarvinnslustofur og fjármagn til að fylgja þeim eftir. Æskilegt er að lagt verði mat á hvort þær leiðir, sem farnar hafa verið, hafi skilað nægum árangri og í framhaldi af því verði hugað að því hvort beita eigi nýjum aðgerðum til að styrkja fjarvinnsluverkefni og fjarvinnslustofur.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til þess að flytja breytingartillögur eða fylgja þeim er fram kunna að koma.``
    Undir nál. skrifa Rannveig Guðmundsdóttir, Guðjón Guðmundsson, Jón Kristjánsson, Eggert Haukdal, Gunnlaugur Stefánsson og Einar K. Guðfinnsson og með fyrirvara skrifa undir nál. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ingibjörg Pálmadóttir og Kristinn H. Gunnarsson.