Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 22:22:39 (8104)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegur forseti. Hér er að sjálfsögðu á ferðinni hið merkasta mál, till. til þál. um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Það er rétt sem hv. 2. þm. Vesturl. sagði að það út af fyrir sig hefði verið hægt að fara um þessa áætlun býsna mörgum orðum. Þó hlýt ég að vekja athygli á því að hún var til nokkuð ítarlegrar umfjöllunar í nefndinni. Ég minni t.d. á að nefndin kom saman til sérstaks kvöldfundar til að ræða þessi mál umfram öll önnur og þó að á dagskrá nefndarinnar hafi verið ýmis önnur mjög merkileg og stór mál eins og sveitarstjórnarlög og ýmislegt annað þeim tengt þá fór það nú svo að í þessari nefnd, sem ég hygg að sé að meiri hluta skipuð körlum og er það nú nokkurt umhugsunarefni, að ekkert einstakt mál hlaut janfmikla umfjöllun í nefndinni og þar vakti að sjálfsögðu mikla athygli sýnilegur áhugi og þátttaka karlpeningsins í nefdinni í þessum störfum og það auðvitað er ánægjuleg tilbreyting.
    Ég held að það fari ekkert á milli mála að þessi till. til þál. hefur mikla þýðingu eins og fram hefur komið í þessari umræðu. Meginmarkmið hennar er eins og fram kemur í athugasemdum við þáltill. að bæta stöðu kvenna innan ráðuneyta og undirstofnana þeirra og jafnframt því að hafa jákvæð áhrif á stöðu kvenna almennt á vinnumarkaðnum.
    Ef við förum yfir ýmis efnisatriði hér í tillögunni og brtt., þá kemur það að sjálfsögðu á daginn líka að það er ýmislegt áhugavert af þeim málum. Ég vek t.d. athygli á því sem ég hafði nú t.d. ekki gert mér grein fyrir fyrr en ég fór að kynna mér þetta mál alveg sérstaklega að í sambandi við gæðaátak í sjávarútvegi þá hefur verið ákveðið af hálfu sjávarútvegsins að sérstaklega verði skoðað á hvern hátt megi nýta reynslu og þekkingu fiskvinnslukvenna. Ég verð að segja að þetta finnst mér vera mjög athyglisvert. Mér finnst rétt að draga þetta fram vegna þess að mér finnst þetta vera hlutur sem ekki hefur komið fram t.d. í þeim umræðum sem fram hafa farið um gæðaátak í sjávarútvegi.
    Ég get mjög tekið undir það og það hafði ég nú hugsað mér að væri kannski fyrst og fremst erindi mitt hér að þessu sinni vegna þess að ég átti þess ekki kost að taka til máls við fyrri umræðu málsins að vekja athygli á því að veikleiki þáltill. sem þessarar, þó ég hafi skrifað undir hana án fyrirvara, er sá að skilgreining þessa verkefnis kann að verða mjög erfið. Við erum hér með dálítið af almennt orðuðum hugsunum sem út af fyrir sig eru alveg réttar og ég geri engar athugasemdir við en vandinn er sá, sem kom á daginn t.d. í nefndinni og menn bentu á umræðum í nefndinni, að skilin á milli þess sem við köllum jafnréttismál í merkingunni jafnrétti kynjanna og eitthvað annað eru ekki allt af ýkja skýr. Ég óttast það dálítið --- þó ég efist ekki um góðan vilja stjórnvalda, alveg sérstaklega núverandi stjórnvalda, og okkar sem stöndum hér að þessari þáltill. --- að þegar til kastanna kemur þá kunni að verða erfitt að fylgja markmiðunum eftir einmitt vegna þessa. Við erum í dálitlum vanda við að skilgreina okkar verkefni, það eru svo óljós skilin. Þess vegna bind ég býsna miklar vonir við það sem fram kemur hér raunar í nál., að félmrh. hafi nú óskað eftir því að starfsmenn á skrifstofu Jafnréttisráðs geri úttekt á því hvort áætlanir sem þessar skili árangri og niðurstaða þessarar úttektar verði væntanleg með haustinu. Síðan er hugsunin að Jafnréttisráð fylgi framkvæmdaáætluninni eftir og fylgist með framgangi hennar. Þetta tel ég ástæðu til að undirstrika. Ég held að það sé rétt að þegar það liggur fyrir að þetta mál sé tekið aftur til athugunar vegna þessara annmarka sem ég hef verið að benda á.
    Að lokum vil ég benda á að á vegum félmrn. hefur verið að störfum hin merkasta nefnd, svonefnd karlanefnd, sem hefur sérstaklega verið að skoða hlutverk karla í breyttu samfélagi. Ég hef alltaf bundið miklar vonir við störf þessarar nefndar enda er hún skipuð úrvalsfólki. Hún er að skila áliti um þessar mundir og ég held að það sé ástæða til að skoða þau mál í samhengi við þessa jafnréttisáætlun þegar því verki lýkur. Ég vek athygli á því að meðal þeirra brtt. sem hér liggja fyrir er m.a. gert ráð fyrir því að skipuð sé sérstök ráðgjafanefnd til tveggja ára sem hafi það hlutverk að virkja karla í jafnréttisumræðunni þannig að þeirra sjónarmið komi til skila og síðan verði einum starfsmanni Jafnréttisráðs falið að fylgja ákvörðun nefndarinnar eftir. Þetta fannst mér ástæða til að kæmi fram og til skila í þessari umræðu. Ekki vegna þess að ég sé að mæla með einhverri nýmóðins karlrembu, öðru nær. Ég held einfaldlega að það sé rétt sem þarna segir í tillögugreininni að það skipti mjög miklu máli fyrir jafnréttisumræðuna að sjónarmið karla í henni komist líka til skila ekki síður en kvenna.