Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 22:31:11 (8107)

     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hjó einmitt eftir því hjá hv. síðasta ræðumanni að hann talaði um að þetta mál hefði fengið ítarlega umfjöllun í félmn. Ég vil ekki meina að það hafi fengið ítarlega umföllun í félmn. þrátt fyrir að við höfum rætt um það eina kvöldstund. Hann ræddi sérstaklega um að þetta hefði verið tekið á undan sveitarstjórnarlögum en eins og allir vita eru þau sveitarstjórnarlög sem við erum hér með til umfjöllunar náttúrlega algjörlega gelt mál. Vegna þess að það er búið að þynna það svo út að það er nú bara eins og þunnur grautur. Þess vegna eru allir sammála um það. Þetta er bara svona eins og almennt mál um skoðanakönnun þannig að það er eðlilegt að þetta mál fengi svona aðeins meiri umfjöllun heldur en það því það er nú mál sem er svo sem ekki orðið neitt neitt.
    Það sem ég hjó sérstaklega eftir var það sem hv. þm. var að tala um í sambandi við umsögn sjútvrn. um gæðaátak í sjávarútvegi. Þá er það nú þannig að í mörg hundruð ár hafa konur unnið við sjávarútveg á Íslandi og einmitt við fullvinnslu sjávarafurða á hverjum tíma eins og kröfur hafa verið uppi um. Það er ekkert nýtt við það. Ég tel að sú gæðastjórnun sem konur hafa stýrt í sjávarútvegi sé ekkert nýtt mál. Það er auðvitað gaman að það skuli sérstaklega vera tekið fram í þessari áætlun um þetta málefni en það hefði gjarnan mátt vera miklu miklu ítarlegar um það fjallað vegan þess að það eru fyrst og fremst konur sem eru með púlsinn á vinnslu sjávarafurða. Það er undir þeim komið að það sé fullkomin vara sem frá sjávarútveginum kemur. Þetta er ekkert nýtt, alls ekki nýtt, þetta er mörg hundruð ára gamalt mál og tími til kominn að um það sé fjallað.