Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 23:20:05 (8112)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hér var nú í rauninni allt undir í ræðu þess hv. þm. sem síðast talaði og ég get ekki svarað því út af fyrir sig öllu, enda ætla ég ekki að standa hér í svari fyrir þessa jafnréttisáætlun. Ég ætla hins vegar að mótmæla því harðlega sem þingmaðurinn sagði hér um jafnréttisbaráttuna. Þingmaðurinn spurði: Hverju hefur jafnréttisbaráttan skilað? Við getum líka kallað þetta kvennabaráttu, ég kann betur við það hugtak. Hvern hefur hún gert hamingjusaman? spurði þingmaðurinn. Ekki konur. Ekki karla. Ekki börn. Og hún talaði um þjóðfélagið, það hefði kallað konur til vinnu og gleymt að koma til móts við umönnun barna og sjúkra og fjölskyldur væru allt of litlar o.s.frv. Allt þetta er rétt en þetta er ekki jafnréttisbaráttunni að kenna. Jafnréttisbaráttan er engin orsök í þessu. Jafnréttisbaráttan er afleiðing. Hún er viðbrögð við tiltekinni þjóðfélagsþróun sem á sér stað. Og þar sem konur eru með einhverjum hætti að reyna að mæta þeim erfiðu aðstæðum sem samfélagið býr þeim og þróun sem samfélagið hefur kallað á. Er það verkalýðsbaráttunni að kenna hvernig þróunin varð? Hvern gerði verkalýðsbaráttan hamingjusaman? Getum við ekki eins spurt þeirrar spurningar? Var það verkalýðsbaráttan sem þrýsti iðnverkamönnum inn í verksmiðjurnar o.s.frv.? Þessi barátta, jafnréttisbaráttan eða kvennabaráttan rétt eins og verkalýðsbaráttan er viðbrögð við tiltekinni þjóðfélagsþróun, viðbrögð við tilteknu ástandi og ég er satt að segja orðin dálítið þreytt á því þegar konur eru sífellt, sumar hverjar, að jagast út í jafnréttisbaráttuna og aðrar konur, það er yfirleitt flest þá konum að kenna. Annaðhvort höfum við konur gert það sem við áttum ekki að gera eða látið eitthvað ógert og það er voðlega erfitt að mega hvorki vera klæddur né nakinn, mega ekki gera og heldur ekki láta ógert. Þannig finnst mér nú stundum umræðan vera um þessa jafnréttisbaráttu en hún er ekki orsök í þessu efni, hún er afleiðing.