Framkvæmd útboða

174. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 10:14:02 (8135)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. og nál. efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um framkvæmd útboða.
    Nefndin leggur til fjórar breytingar á frv. Hún leggur til breytingu á 8. gr. þannig að síðasti málsliður orðist svo: ,,Kaupandi og allir viðstaddir bjóðendur eða fulltrúar þeirra skulu undirrita fundargerð og skal þeim afhent afrit hennar óski þeir þess.`` Það er ekki víst að allir geti verið viðstaddir opnun.
    Í öðru lagi er lagt til að 14. gr. verði breytt þannig að ekki þurfi að senda öllum bjóðendum greinargerð með rökstuðningi fyrir vali á tilboðinu.
    Í þriðja lagi er lagt til að síðari málsliður 17. gr. falli brott, en líta ber á gögn sem fylgja með tilboðseyðublaði sem hluta tilboðsins og nauðsynlegan þátt þess.
    Í fjórða lagi er lögð til breyting á 19. gr. því að samningur stofnast milli aðila við það að kaupandi tekur tilboði bjóðanda og er það því hluti samningsins.
    Það er mikið tiltektarmál að sett séu lög um framkvæmd útboða. Þetta hefur verið mjög á reiki og ýmsar deilur hafa stofnast vegna þess að ýmsir sem hafa verið að bjóða út hafa ekki farið eftir eðlilegum leikreglum. Þetta hefur verið hagsmunamál sem mörg samtök hafa stutt og hvatt til þess að væri unnið. Auk þess var samþykkt þáltill. á síðasta þingi í þessa átt. Hér er málið komið á lokastig og öll nefndin stendur að þessu áliti.