Skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup

174. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 10:25:25 (8143)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1213 um frv. til laga um breyting á lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, og lögum nr. 52/1987, um opinber innkaup, með síðari breytingum. Nál. er svohljóðandi:
    ,,Frumvarp þetta er eitt fjölmargra mála sem Alþingi hefur fjallað um í vetur og tengist samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Með þeim lagabreytingum sem hér eru lagðar til er verið að samræma þær reglur sem gilda um opinber innkaup, útboð o.fl. því sem gildir innan Evrópubandalagsins.
    Nefndin fékk frumvarpið til meðferðar snemma hausts og var þá unnið nokkuð í málinu en það síðan sent aftur til fjármálaráðuneytisins til frekari skoðunar. Fjöldi umsagna barst um málið með töluverðum athugasemdum sem að dómi minni hlutans hefði þurft að athuga mun betur en gert var, enda er hér um stórt og viðamikið mál að ræða sem snertir fjölda opinberra stofnana og innlenda verktaka. Það er niðurstaða minni hlutans að þetta viðamikla mál hefði þurft ítarlegri umfjöllun í nefndinni og því er lagt til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``