Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

174. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 10:51:35 (8154)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. félmn. fyrir afgreiðsluna á þessari tillögu. Hún var flutt snemma í haust og send til umsagnar af hv. félmn. Nefndinni munu hafa borist mjög margar umsagnir eins og fram kom í máli hv. 5. þm. Vesturl. og voru þær yfirleitt jákvæðar. Ég tel mikilvægt að nefndin hefur sameinast um nýja tillögu. Það er mikilvægt að nefna í nál. þá vinnu sem unnin hefur verið á vegum félmrn. að sérstakri könnun á högum atvinnulausra undir forustu Stefáns Ólafssonar prófessors. Það er athyglisverð könnun og sjálfsagt að nefna hana.
    Ég bendi á að auk þeirra mála sem nefnd eru í nál. þá hafa stjórnarandstöðuþingmenn á þessu þingi flutt fjölmörg önnur mál sem snerta hagi atvinnulausra. Ég bendi þar sérstaklega á frv. til laga um réttindi þeirra sem ekki hafa vinnu og felur í sér endurskoðun á lögum um atvinnuleysistryggingar, lögum um vinnumiðlun og lögum um vinnumálaskrifstofu félmrn. Það er því óhætt að halda því fram að þinginu hafi í sjálfu sér verið haldið við efnið í þessum efnum hvað varðar málefni atvinnulausra, þó ekki sé ástæða til þess í sjálfu sér að tala um að uppskeran hafi verið stórfelld. En þessi samþykkt sem hér er gerð tillaga um er engu síður mjög jákvæð og ég þakka fyrir það sem fyrri flm. tillögunnar og bendi á að gert er ráð fyrir því að greinargerð verði skilað í haust um þessi mál þannig að það þá verður hægt að halda þessum umræðum áfram.