Framleiðsla og sala á búvörum

174. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 11:06:39 (8157)

     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. og brtt. landbn. um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sem eins og menn vita eru í daglegu tali gjarnan nefnd búvörulög.
    Þetta frv. eins og hv. þm. er væntanlega kunnugt um er eitt þeirra frv. sem tengjast EES-samningnum og felur sérstaklega í sér samræmingar á íslenskri löggjöf með tilliti til þess. ( Forseti: Forseti vill aðeins trufla hv. þm. og spyrja hvort það geti verið að hv. þm. sé að mæla fyrir öðru máli en því sem nú var tekið fyrir á dagskránni? Það eru ekki brtt. við þetta mál.) Það eru tvö mál. ( Forseti: Forseti boðaði að tekið væri fyrir framleiðsla og sala á búvörum, stjfrv., 541 mál, þskj. 899 og nál. á þskj. 1174, 2. umr.) Frú forseti. Þetta kemur mér afskaplega á óvart. Ég tók nú reyndar ekki eftir þessu, virðulegi forseti. Þannig var á dagskránni sem lá hér fyrir í gær að þá var þetta mál, 504. mál, næsta mál við frv. um Áburðarverksmiðjuna. ( Forseti: Það er ekki nærri komi að Áburðarverksmiðjunni.) Ég veitti því athygli, virðulegi forseti, að þar hafði nú teygst á milli og ég lagði á það áherslu að 504. mál kæmi þá í þann sess sem Áburðarverksmiðjan hafði áður. Þetta mál, sem hér er til umræðu, kom hins vegar miklu síðar á dagskrána. ( Gripið fram í: Þetta er ný dagskrá.) Ég var að tala um dagskrána í gær. Ég óska þess eindregið að það verði ekki farið að gera breytingar á þessari röð málefna landbn. og ég fái hér, virðulegur forseti, að halda ræðu minni áfram um 504. málið. ( Forseti: Það gengur ekki, hv. þm. Það er 26. dagskrármálið sem er nú til umræðu.) Já, þá óska ég eftir því þar sem þessi mál eru nátengd að þessu máli verði frestað. Ég held fast við það að af þeim málefnum landbn. sem hér liggja fyrir, og ég tel mig eiga þinglegan rétt á því, þá verði 504. málið látið ganga fyrir. Ég mun ekki, virðulegur forseti, fella mig við aðra málsmeðferð heldur en þá.