Framleiðsla og sala á búvörum

174. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 11:11:39 (8158)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með formanni landbn. í hans máli áðan. Þar sem það er ljóst að við erum að vinna hér undir tímapressu og ekki liggur ljóst fyrir hvort öll mál á dagskrá hljóti afgreiðslu þá hlýt ég að taka undir það með hv. formanni landbn. að 504. mál verði tekið fyrir svona með fyrra fallinu í dag. Ekki síst vegna þess að það hafa verið gefnar digrar yfirlýsingar um þetta mál í fjölmiðlum af hæstv. utanrrh. ( Umhvrh.: Ekki um þetta mál.) Um 504. mál? Víst hefur það verið gert um framleiðslu og sölu á búvörum. Nú er svo komið að hæstv. ráðherrar Alþfl. kunna ekki skil á hvaða mál er verið að ræða og hvað er á dagskránni. En 504. mál fjallar um þær breytingar á búvörulögunum sem mjög hafa verið hér í fréttum síðustu daga. Ég tel einnig að þetta sé mikilvægt, virðulegur forseti, vegna þess að hæstv. utanrrh. sagði í útvarpsviðtali í morgun að þetta mál væri byggt á misskilningi af hálfu hv. landbn. Þetta er afar sérstök yfirlýsing þar sem hv. nefnd vann þetta mál mjög vel að mínu mati og byggði brtt. sínar á greinargerð frá þeim lögfræðingi hérlendum sem þekkir búvörulögin og það völundarhús sem í kringum þau er best allra löglærðra manna. Þannig að ég tel það afar mikilvægt að landbn. fái snemma á þessum degi að kynna þetta mál hér þannig að hið sanna um vinnubrögð nefndarinnar komi fram og þessar órökstuddu fullyrðingar hæstv. untarrh. í fjölmiðlum í morgun verði þar með hraktar.