Framleiðsla og sala á búvörum

174. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 11:19:05 (8163)

     Páll Pétursson (um þingsköp) :
    Frú forseti. Ég er ekki sammála því að það sé þörf á að fara að fresta fundi því ég tel að menn megi nú ekki fara að búa sér til ágreining ef ekki þarf að láta hann verða. Í gærkvöldi var gert samkomulag um að þau mál sem hér eru prentuð á dagskránni, 52 mál, kæmu til afgreiðslu á þessum fundi hér í dag og ég sé því ekkert til fyrirstöðu. Forseta er að sjálfsögðu heimilt að færa mál til á dagskránni því það er í valdi forseta að ráða röð mála á dagskránni. Það liggur hér fyrir prentuð dagskrá 174. fundar og ég geng út frá því og tel það brot á samkomulagi því sem gert var í gærkvöldi ef þessi mál hljóta ekki afgreiðslu. Ég er ekki samþykkur öllum þessum málum og mun greiða atkvæði gegn sumum þeirra. En allt um það, meiri hluti þingsins verður að fá að koma fram og ég verð að sætta mig við það þótt ég verði undir í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu.
    Menn hafa verið að tala um einhverjar yfirlýsingar frá hæstv. utanrrh. Ég er af reynslunni hættur að taka allt bókstaflega sem hæstv. utanrrh. segir og ég held að menn eigi ekki að búast við því að hér verði stjórnarslit út af einu eða neinu. Ég legg til, frú forseti, að haldið verði áfram fundinum og næst byggjum við minnisvarða yfir störf hæstv. iðnrh. og tökum fyrir frv. um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum.