Afgreiðsla frumvarps um framleiðslu og sölu á búvörum

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 13:34:57 (8182)

     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að það sé nokkur oftúlkun hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að túlka það samkomulag sem gert var í nótt á þann veg að það hefði verið samkomulag um að ganga til atkvæða um öll mál. Það er eins og alltaf er. Það verður að sjálfsögðu að ráðast. Hér hefur verið raðað á dagskrána þeim málum sem fyrir lágu. Ég veit ekki betur en öll mál séu tekin á dagskrá sem búið er að skila nefndarálitum í. Ég hygg hins vegar að hér séu mál sem ekki er víst hvort ganga muni til atkvæða. Það verður bara að koma í ljós. Ég tel eðlilegast að ganga bara eftir þessari dagskrá. Ég minni á tillögu hv. 1. þm. Norðurl. v. í hópi þingflokksformanna um að haga þingstörfum þannig að búið væri að afgreiða öll þingmál um fjögurleytið svo hægt væri að hefja hér utandagskrárumræðu og ég vænti þess að okkur muni auðnast að gera það. En þeim mun meiri tími sem fer í umræður um þingsköp, þeim mun erfiðara verður það að sjálfsögðu.