Afgreiðsla frumvarps um framleiðslu og sölu á búvörum

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 13:42:50 (8186)

     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja það að ég kannast ekki við neitt samkomulag. Þó að ég hafi heyrt það svona í vindinum að samkomulag hafi verið gert þá hefur það ekki verið borið undir mig og ég kannast ekki við að vera aðili að neinu slíku samkomulagi.
    Ég kom hins vegar hér upp til þess að leiðrétta þann misskilning sem ég varð var við í orðum þingflokksformanns míns flokks þar sem hann sagði að á dagskrá fundarins í dag væru öll þau mál sem hefðu verið afgreidd út úr nefndum og skilað hafði verið nefndarálitum fyrir. Þetta er ekki rétt því að virðuleg allshn. hefur afgreitt frá sér frv. um kaup á björgunarþyrlu og þar hefur verið skilað nefndarálitum bæði frá minni hluta og meiri hluta en það er alveg sama hvernig ég leita, ég get ómögulega fundið þetta mál á dagskránni.
    Ég vil jafnframt geta þess í leiðinni að ég talaði við forseta þingsins á mánudaginn var og óskaði eftir því að þetta mál yrði á dagskrá á miðvikudaginn en við því var ekki orðið og hefur ekki orðið enn. Það sérstaka mál mun ég hins vegar ræða seinna í dag.