Afgreiðsla frumvarps um framleiðslu og sölu á búvörum

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 13:46:48 (8189)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er sjálfsagt að virða það að hér sé tímanum ekki eytt að óþörfu en hér er á ferðinni stórmál. Það þýðir ekki að ræða hlutina með þeim hætti sem hv. formaður þingflokks Sjálfstfl. reynir að gera hér. Við skulum ekki tala neina tæpitungu um þetta. Spurningin snýst um það hvort hér er verið að gefa í skyn að það standi til að reyna að komast hjá því að afgreiða 35. mál á þessari dagskrá. ( Gripið fram í: Það er augljóst.) Það er ekki bara hvert eitt ómerkilegt mál sem þar er á ferðinni, þar er á ferðinni mikilvægt stjfrv. sem formaður landbn. hefur lagt ríka áherslu á að verði afgreitt, sömuleiðis hæstv. landbrh., og það liggur í loftinu meiri hluti fyrir því hér á Alþingi að þetta frv. verði afgreitt. En það liggur meira fyrir. Það liggur fyrir að hótanir um stjórnarslit hafa tengst þessu frv. Og láta menn sér detta það í hug, lætur formaður þingflokks Sjálfstfl. sér detta það í hug að hann geti sloppið frá málinu með þeim hætti sem hann reyndi hér áðan, að hafa þetta bara hangandi í lausu lofti, kannski og ef til vill og sjáum bara til? Það gengur ekki, hæstv. forseti. Við verðum að fá það á hreint hvort staðið verður við samkomulagið að þessu leyti að þetta mikilvæga mál verði afgreitt á þessu þingi. Það dugar ekkert minna en að fá það á hreint. Ef formaður þingflokks Sjálfstfl. er að boða það hér að í stjórnarliðinu standi til að falla frá því þá verður það að koma fram. Hv. þm. Geir Haarde getur ekki ætlast til þess að við látum sem ekkert sé og tökum þessi loðnu svör sem hér voru gefin áðan góð og gild. Þetta verður að koma fram. Og það er einmitt í þágu fundarhaldanna hér eftirleiðis, hæstv. forseti, að fá þetta á hreint nú.