Vegáætlun 1993--1996

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 14:20:51 (8192)

     Frsm. meiri hluta samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Samgn. hefur nú lokið athugun sinni á tillögu þessari til þingsályktunar um vegáætlun fyrir árin 1993--1996 og eigi orðið sammála um afgreiðslu hennar. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hluta nefndarinnar sem leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru tillögur um á þskj. 1142. Minni hlutinn, fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í samgn., hefur á hinn bóginn kosið að skila séráliti.
    Skylt er að taka fram að í starfi nefndarinnar var gott samkomulag um vinnutilhögun og ýmsar þær ákvarðanir sem birtast í brtt. meiri hluta nefndarinnar á þskj. 1142. Varð oft eigi greint að ágreiningur væri um afgreiðslu mála innan nefndarinnar þótt minni hlutinn hafi nú tekið þá afstöðu að sitja hjá við einstaka liði þessarar áætlunar.
    Nefndin hefur í störfum sínum notið margvíslegrar aðstoðar æðstu starfsmanna Vegagerðar ríkisins, þeirra Helga Hallgrímssonar vegamálastjóra, Jóns Birgis Jónssonar aðstoðarvegamálastjóra og Jóns Rögnvaldssonar forstöðumanns tæknisviðs Vegagerðar ríkisins. Þeir lögðu nefndinni til ýmis gögn, veittu upplýsingar og svöruðu fyrirspurnum nefndarmanna eftir því sem óskað var. Eru þeim hér með færðar þakkir fyrir.
    Starfshættir samgn. við afgreiðslu þessarar tillögu voru með hefðbundnum hætti. Eftir að nefndin hafði tekið nokkrar grundvallarákvarðanir í starfi sínu, t.d. að því er varðar tekjuhlið áætlunarinnar, skiptingu á vegafé til rekstrarliða og til einstakra framkvæmdaflokka, enn fremur um skiptitölur milli kjördæma og um fé sem samkvæmt tillögunni gengur til ferja og flóabáta unnu þingmannahópar kjördæmanna að gerð tillagana um skiptingu framkvæmdafjár til almennra verkefna við stofnbrautir, þjóðbrautir og brúargerð, þ.e. til brúa 10 m og lengri.
Sömuleiðis fjölluðu þingmannahópar kjördæmanna um allar tillögur er varðar breytingu á flokkun vega í hverju kjördæmi fyrir sig. Allar tillögur þingmannahópa kjördæmanna eru fluttar óbreyttar að meiri hluta samgn.
    Um allar brtt. er varða stórverkefni, sérverkefni og hið sérstaka framkvæmdaátak vegna atvinnumála var fjallað á vettvangi nefndarinnar.
    Brtt. meiri hluta nefndarinnar við tekjuhlið áætlunarinnar eru einkum af þrenns konar toga:
    Í fyrsta lagi er fé til framkvæmdaátaks vegna atvinnumála á árinu 1993 lækkað úr 1.800 millj. kr. í 1.550 millj. kr. Er það í samræmi við ákvarðanir ríkisstjórnar og Alþingis við afgreiðslu fjárlaga.
    Í öðru lagi er verðlagsforsendum tillögunnar breytt þannig að byggt er á því að verðlag hækki um 3% á milli áranna 1993 og 1994. Er sú tillaga að verðlagshækkun einvörðungu á milli þeirra tveggja ára og eru því markaðir tekjustofnar af bensíngjaldi og þungaskatti 3% hærri á árunum 1994 til og með 1996 en gert var ráð fyrir í tillögunni eins og hún var lögð fram.
    Gerðar eru tillögur um sömu verðlagshækkanir gjaldamegin á áætlunartímabilinu.
    Í þriðja lagi eru gerðar tillögur um að lækka það fjármagn sem þáltill. gerir ráð fyrir að færa í ríkissjóð af sérmerktum tekjustofnum Vegagerðar ríkisins á árunum 1994, 1995 og 1996. Er þetta í samræmi við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar að vega á þennan máta upp á móti því að nú er áætlað að Vegagerð ríkisins þurfi að verja meira fé en tillagan greinir til ferjumála á þessum þremur árum en gert var ráð fyrir. Er þannig til þess ætlast að Vegagerð ríkisins standi jafnfætis og áður þó svo fari að hækkun verði á nauðsynlegu fé til ferjumála.
    Auk þessa eru gerðar tillögur um smávægilegar tilfærslur á milli tekjuliða á árinu 1993 samkvæmt nákvæmari áætlun. Engar breytingar eru gerðar á áætlun um magn bensínnotkunar eða notkun dísilbifreiða sem greiða þungaskatt frá því er tillagan var lögð fram, en þar er gert ráð fyrir að bensínnotkun aukist um 2% á milli ára yfir áætlunartímabilið en notkun dísilbifreiða sem skila þungaskatti aukist um tæplega 2% á milli sömu ára.
    Tillögur um fé til stórverkefna byggjast á nýrri skilgreiningu fyrir þann vegaflokk. Sú skilgreining var samþykkt af meiri hluta samgn. en þó raunar af nefndinni í heild með fyrirvara einstakra nefndarmanna minni hlutans.
    Samkvæmt gildandi skilgreiningu fyrir stórverkefni, samanber drög um langtímaáætlun 1991, taka þau til jarðganga, auk stórbrúa og vega um þvera firði. Lágmarkskostnaður við þessar framkvæmdir er samkvæmt eldri skilgreiningu um 130 millj. kr. á verðlagi ársins 1993.
    Til jarðganga er greitt af óskiptu vegafé 80% kostnaðar en 20% kostnaðar er greitt af því fé sem hlutaðeigandi kjördæmi fær til skipta. Til framkvæmda við stórbrýr og vegi um þvera firði eru þessar skiptitölur þannig að af óskiptu vegafé greiðist 62,5% kostnaðar en af vegafé hlutaðeigandi kjördæmis 37,5%. Til viðbótar við þessa skilgreiningu byggjast brtt. meiri hluta nefndarinnar á því að til viðbótar geti talist til stórverkefna kostnaðarsamar endurbætur á hringveginum þar sem hann liggur á milli kjördæma, enda sé áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdir meiri en 800 millj. kr. Enn fremur einstakir áfangar í tengingu þéttbýlisstaða þannig að úr verði eitt atvinnu- og þjónustusvæði, enda kosti áfanginn meira en 400 millj. kr. samkvæmt áætlun miðað við verðlag þessa árs. Til þessara framkvæmda er miðað við að 70% af kostnaði greiðist af óskiptu fé en um 30% af kvóta viðkomandi kjördæmis. Þegar er fyrir séð að tveir vegarkaflar falla undir þessa nýju skilgreiningu. Annars vegar er það kaflinn á hringveginum á Norðausturlandi sem nær frá Kísiliðju við Mývatn til Skjöldólfsstaða á Jökuldal, en sá vegarkafli fær á áætlunartímabilinu verulegar byrjunarfjárveitingar af stórverkefnalið samkvæmt tillögum meiri hluta nefndarinnar eða 154 millj. kr. Hins vegar er það vegurinn fyrir Búlandshöfða á Snæfellsnesi sem ekki eru gerðar tillögur um að fái fjárveitingu af liðnum Stórverkefni á þessu áætlunartímabili. Undirbúningur framkvæmda þar hefst þó á tímabilinu með fjárveitingum af hinu almenna vegafé Vesturlandskjördæmis.
    Í tillögum meiri hluta samgn. er lagt til að liðurinn Sérstök verkefni falli niður frá og með árinu 1995. Telja verður að hann hafi eigi lengur raunhæft gildi, enda greiðast þau verkefni sem tilheyrt hafa þessum framkvæmdaflokki algerlega af framkvæmdafé hvers kjördæmis fyrir sig og því eðlilegt að þau tilheyri því sem kallað er almenn verkefni í vegáætlun.
    Í samræmi við ákvarðanir ríkisstjórnar og Alþingis eru gerðar tillögur um að á fyrstu þremur árum þessarar vegáætlunar verði varið samtals 2.940 millj. kr. til sérstaks framkvæmdaátaks vegna atvinnumála. Hér er um lánsfé að ræða sem gert er ráð fyrir að verði endurgreitt af sérmerktum tekjustofnum til vegamála eftir að lokið er greiðslu á skuldum vegna vegaframkvæmda í Reykjavík, en stefnt er að því að þær skuldir verði að fullu greiddar á árinu 1998. Meiri hluti nefndarinnar telur það ekki hafa hagnýta þýðingu að kveða nánar á um við afgreiðslu þessarar vegáætlunar hvernig endurgreiðslu verður háttað, enda verður ný tillaga til vegáætlunar samin og tekin til afgreiðslu á Alþingi væntanlega á þinginu 1996--1997 eða áður en að þessum endurgreiðslum kemur.
    Því fé sem lagt er fram til atvinnumála er í tillögum meiri hluta nefndarinnar skipt til einstakra verka, svo sem öðru framkvæmdafé til vegamála, og er þar farið að í samræmi við tillögur hæstv. samgrh. um ráðstöfun á því fjármagni. Meiri hluti nefndarinnar vill láta koma fram við þessa umræðu að hér er um mjög þýðingarmiklar ákvarðanir að ræða sem ástæða er til að flytja hæstv. ríkisstjórn þakkir fyrir.
    Kostnaður við flóabáta er nú tekinn inn í vegáætlun í fyrsta sinn. Í brtt. meiri hluta samgn. er tekin upp skilgreining á því á hvaða leiðum flóabátar verði reknir og hvert sé meginmarkmið með rekstrinum, þ.e. hvort rekin skuli bílferja eða einungis fluttir farþegar og fragt. Í þessum tillögum er lagt til að þær ferjuleiðir sem notið hafa styrks af opinberri hálfu undanfarin ár verði áfram viðurkenndar og þeim sinnt með sambærilegum hætti og verið hefur. Ég tel rétt að nefna sérstaklega í þessu sambandi ferju í Ísafjarðardjúpi. Þar siglir Fagranesið sem keypt var árið 1990 og er bílferja. Þjónusta við eyjarnar á Ísafjarðardjúpi og byggð á Snæfjallaströnd gerir ekki kröfur um bílferju og raunar er þar engin hafnaraðstaða fyrir hendi til að nýta þá möguleika skipsins.
    Við afgreiðslu fjárlaga í vetur voru veittar 20 millj. kr. til ferjubryggju í Djúpi og er talið að það geti verið um helmingur kostnaðar við þá framkvæmd. Á þessu stigi telur meiri hluti samgn. ekki tímabært að taka afstöðu til þess hvort reka eigi bílferju í Ísafjarðardjúpi. Áður en slík ákvörðun er tekin er nauðsynlegt, að mati meiri hluta nefndarinnar, að skoða málið í heild, gera markaðskönnun fyrir bílferju og áætlanir um stofnkostnað og rekstur og bera saman við aðra þætti í ferðaþjónustu við þær byggðir sem háðar eru samgöngum á sjó og athuga samhengi vetrarþjónustu á Djúpvegi við ferjurekstur. Meiri hluti nefndarinnar leggur til að slík úttekt fari fram á þessu ári og málið verði tekið til athugunar og ákvörðunar að þeirri úttekt lokinni.
    Framlag til flóabáta 1993 er óbreytt frá tillögunni eins og hún var lögð fram eða 330 millj. kr. Nokkur óvissa ríkir um ýmsa kostnaðarliði en gera verður ráð fyrir að heildarkostnaður verði eitthvað meiri en þessi fjárhæð. Hæstv. samgrh. gat þess í framsöguræðu sinni við fyrri umr. um þetta mál að samkomulag væri um það að nauðsynleg hækkun framlags umfram 330 millj. kr. yrði tekin inn á fjáraukalög 1993. Í brtt. meiri hluta nefndarinnar er miðað við að þetta samkomulag standi og er talan því óbreytt. Framlög áranna 1994--1996 eru á hinn bóginn endurskoðuð til hækkunar frá upphaflegri tillögu. Til þess að mæta þeim hækkunum eru millifærslur í ríkissjóð lækkaðar, eins og áður er að vikið, og hafa hækkanir á þessum árum til ferjumála því ekki áhrif á aðra útgjaldaliði vegáætlunar.
    Meiri hluti samgn. telur ekki viturlegt að skipta fjármagni til ferjumála niður á einstakar ferjuleiðir á þessu vegáætlunartímabili. Vegagerð ríkisins fær væntanlega, með breyttum vegalögum nú fyrir þinglok, auknar heimildir til þess að leita nýrra leiða til sparnaðar og aukinnar hagkvæmni í rekstri skipanna á þessum ferjuleiðum. Hafa þegar farið fram viðræður við ýmsa þá aðila sem hlut eiga að máli til þess að sameiginlega megi leita leiða til aukinnar hagkvæmni og sparnaðar. Á þessu er full þörf vegna þess að á undanförnum árum hafa hinu opinbera og þeim fyrirtækjum sem standa í ferjurekstri verið bundnir gríðarlegir skuldabaggar sem verður að rísa undir og greiða niður á allra næstu árum, um leið er markmiðið að sjálfsögðu að halda þjónustunni uppi. Þrátt fyrir að vonast sé til að aukinni hagkvæmni verði náð á þessu áætlunartímabili, eða á þessum fjórum árum, er reiknað með að verja nálega 2 milljörðum kr. af fé til vegamála til að standa að þessum rekstri.
    Ljóst er að sú till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1993--1996, sem hér er komin til afgreiðslu, boðar mesta framkvæmdaskeið síðari ára í vegamálum. Þetta er greinilega sýnt á fskj. 1, sem prentað er með nál. meiri hluta nefndarinnar. Þar kemur fram hvert heildarfjármagn til vegamála hefur verið á árunum

1983--1996 miðað við þær brtt. meiri hlutans sem liggja fyrir við áætlunartillöguna. Þetta fjármagn er enn fremur sundurgreint í smærri undirliði. Allar tölur á þessu yfirliti eru á sama verðlagi, þ.e. áætluðu verðlagi ársins 1993. Þar kemur fram að á næstsíðasta vegáætlunartímabili, frá 1985--1988, var varið til vegamála samtals rúmlega 19,9 milljörðum kr. eða tæpum 20 milljörðum. Á síðasta vegáætlunartímabili, frá 1989--1992, var varið 21 1 / 2 milljarði til vegamála. Á því tímabili sem sú áætlun nær yfir sem hér er komin til afgreiðslu, árin 1993--1996, eru gerðar tillögur um að verja til vegamála liðlega 27 milljörðum kr. Þar af er áætlað að til ferjumála, sem er nýr liður, fari tæplega 2 milljarðar kr. En þó svo að það fjármagn væri dregið frá er varið til annarra þátta vegamála, sem er þá sambærilegt við hin áætlunartímabilin, yfir 25 milljörðum kr. Þetta er stórt stökk fram á við í fjárveitingum til þessara þýðingarmiklu samgöngubóta sem vegamálin eru.
    Það vekur furðu að hv. minni hluti samgn. skuli ekki treysta sér til að mæla með því að slík tillaga sé samþykkt. Minni hlutinn hefur meira að segja boðað í sínu nál. að hann, eða þeir hv. þm. sem hann skipa, muni sitja hjá við alla liði þessarar tillögu, þar á meðal alla framkvæmdaliði tillögunnar sem þeir hafa þó tekið fullan þátt í að vinna að afgreiðslu á innan samgn. og í þingmannahópum kjördæmanna. Hér er sannarlega óvenjulega að verki staðið og einhverjum kynni að koma í hug að ekki væri sérlega hyggilega að verki staðið frá pólitísku sjónarmiði.
    Það mikla fjármagn, sem gert er ráð fyrir samkvæmt þessari vegáætlunartillögu að verja til framkvæmda í vegamálum, mun þýða að mörgu verki verður komið áfram í þessum þýðingarmikla málaflokki. Stórvirki verða unnin en þar verður líka unnið að mörgum smærri verkum sem hvert um sig hefur sína þýðingu fyrir hlutaðeigandi byggð og landsmenn alla. Þrátt fyrir þetta verður ekki komið að neinum endapunkti í vegamálum í lok tímabilsins. Enn verða mörg og kostnaðarsöm verkefni óunnin.
    Það verkefni sem tekur til sín stærsta hluta fjármagnsins á þessu vegáætlunartímabili eru jarðgöng á Vestfjörðum eða liðlega 2,4 milljarða kr. Gert er ráð fyrir að á áætlunartímabilinu verði því verki lokið. Sá málaflokkur sem tekur til sín næstmest framkvæmdafé á þessu tímabili eru framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu eða um 2,2 milljarða kr. Þar af ganga um 640 millj. kr. til greiðslu skulda sem stofnað var til fyrir fáum árum með framkvæmdum við þjóðvegi í þéttbýli án þess að lögboðið framlag ríkisins væri greitt. Reiknað er með því að þessum skuldagreiðslum ljúki, eins og fyrr er að vikið, tveimur árum eftir að þessu áætlunartímabili lýkur eða á árinu 1998.
    Á þessu og næsta ári er gert ráð fyrir að ljúka lagningu slitlags á þá kafla sem enn er ólokið við á veginum milli Reykjavíkur og Akureyrar en þeir eru í Hellistungum, Bólstaðarhlíðarbrekku og um Öxnadalsheiði. Í lok þessa árs er gert ráð fyrir að aðeins vanti um 40 km upp á að komið sé bundið slitlag á veginn frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði og í lok tímabilsins skorti einungis 10 km til að þessu verki sé lokið.
    Ástæða væri til að nefna hér fjölmörg önnur verk af þeim sem lokið verður við á því áætlunartímabili sem vegáætlunin nær yfir eða verk sem hafin verða á tímabilinu. Ég tel þó ekki ástæðu til að taka tíma í að rekja þau verkefni hér, enda liggja tölur sem varða þessi verk og fjármagn til þeirra frammi fyrir öllum hv. alþm. í brtt. meiri hluta samgn. Þrátt fyrir það að við sem stöndum að þessu meirihlutaáliti fögnum þeim miklu framkvæmdum sem vegáætlunartillagan boðar, vil ég þó taka fram að málefni þjóðbrautanna þarf að taka til athugunar við næstu endurskoðun vegáætlunar. Það verður að segjast eins og er að þau verkefni hafa legið eftir í mörg ár vegna þeirra miklu stórverkefna sem við höfum unnið að, stórverkefna sem hafa tekið til sín bróðurpartinn af fjármagninu. Að þessu þarf að gæta þegar næsta vegáætlunartillaga verður lögð fyrir Alþingi og tekin þar til afgreiðslu.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð í framsögu fyrir þessari tillögu. Ég legg til fyrir hönd meiri hluta samgn. að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem meiri hluti nefndarinnar leggur til á þskj. 1142.