Vegáætlun 1993--1996

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 15:22:44 (8199)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Vegna þess að hv. 1. þm. Vesturl. hafði orð á að ég hefði látið koma fram efasemdir um þessa nýju skilgreiningu Stórverkefnasjóðsins sem kemur fram í vegáætlun þá vil ég að það komi skýrt fram að ég hef ekki lagst gegn þeirri skilgreiningu. Ég hef hins vegar sagt að menn þurfi að hafa það til endurskoðunar áfram hvernig svona skilgreiningar eigi að vera. Það verður auðvitað að viðurkennast að þegar menn fara í það farið sem þarna hefur verið lagt til, þ.e. að ákveðinn vegarspotti frá einum punkti til annars verði að stórverkefni, þá verður býsna erfitt að verjast hugmyndum um stórverkefni af því tagi annars staðar. Ég held að menn verði að gera sér grein fyrir þessu. Hins vegar hef ég talið að verkefni eins og t.d. Búlandshöfði væru af þeirri stærðargráðu að þau væru ofviða viðkomandi kjördæmi og því ætti að fjármagna þau með sérstökum hætti. Ég hef reyndar verið á þeirri skoðun að Þjóðveg 1 og þá vegi sem þarf til að tengja byggðirnar við Þjóðveg 1, hefði átt að fjármagna sérstaklega af sameiginlegum sjóðum. En það er kannski of seint að tala um þá hluti í dag. Ég vil að þetta komist til skila. Ég vil líka segja til viðbótar að ég hef út af fyrir sig ekki verið að gagnrýna það verkefnamagn sem verið er að leggja til í þessari áætlun eða undirbúning hennar faglega séð. Ég gagnrýni fyrst og fremst hvernig ríkisstjórnin hefur staðið að þessu með alveg ótrúlegum hundakúnstum, til að geta komið puttunum í það hvaða verkefni eigi að ganga fyrir í kjördæmunum.