Vegáætlun 1993--1996

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 15:24:47 (8200)

     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að þingmaðurinn skuli draga í land en ég trúi því að þegar hann les yfir ræðu sína þegar hún birtist í þingtíðindum þá muni hann verða þess var að þar hafi gætt nokkurrar óánægju og allt að því ólundar yfir þeim verkum sem fyrirhugað er að fara í.
    Varðandi skilgreiningar á Stórverkefnasjóði þá er ég sammála því að auðvitað þarf þetta jafnan að vera til endurskoðunar. Hlutirnir breytast og ég er honum að því leyti sammála að við þurfum að endurskoða vegáætlun. Hún er til fjögurra ára, er endurskoðuð eftir tvö ár og þá gefst færi á að skoða þessi verk sem inn á Stórverkefnasjóðinn eiga að fara. Ég er hins vegar sannfærður um að það á eftir að sýna sig að þessi nýja skilgreining á Stórverkefnasjóðnum, sem gerir ráð fyrir því að tengja saman atvinnusvæði, er eitthvert merkasta innlegg sem komið hefur fram og á væntanlega eftir að skila sér í betri samgöngum, sterkari atvinnusvæðum og um leið eflingu byggðanna. Ég tel að megintilgangurinn með því að bæta vegasamgöngur sé að efla byggðirnar í landinu og styrkja þær.