Hönnunarvernd

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 16:04:07 (8210)

     Frsm. iðnn. (Össur Skarphéðinsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir áliti iðnn. um frv. til laga um hönnunarvernd.
    Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund til viðræðna um það Gunnar Guttormsson, forstjóra Einkaleyfastofunnar og lögfræðingana Ellý K.J. Guðmundsdóttur og Ástu Valdimarsdóttur sem ásamt Gunnari Guttormssyni eru höfundar þessa frv. Þá barst nefndinni einnig umsögn um frv. frá Form Ísland sem er félag áhugamanna um hönnun.
    Nefndin mælir með samþykkt frv. með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þskj. Þessar brtt., frú forseti, eru að mestu leyti orðalagsbreytingar sem miða einungis að því að gera ákvæði frv. skýrari.
    Undir nál. rita án fyrirvara Össur Skarphéðinsson, Pálmi Jónsson, Guðjón A. Kristjánsson, Vilhjálmur Egilsson, Guðjón Guðmundsson, Svavar Gestsson, Finnur Ingólfsson og Páll Pétursson en Kristín Einarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.