Staða iðnaðarins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 16:53:14 (8225)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ekki veit ég nú hvaða tilgangi tveggja mínútna umræður um stöðu og framtíð iðnaðar þjóna út af fyrir sig vegna þess að ekki verður komið á framfæri miklum upplýsingum. En spurningin er um þetta: Er það tilgangurinn að upplýsa eitthvað, varpa einhverju ljósi á eitthvað, koma fram með einhverjar tillögur, einhverjar ábendingar eða er þetta bara í gamla góða fordæmingarstílnum?
    Hv. þm. sem hóf hér máls, Ólafur Þ. Þórðarson, og mörgum þykir spakastur af viti þeirra framsóknarmanna sagði: ,,Hlutdeild iðnaðarins í íslenskum þjóðarbúskap hefur minnkað. Störfum hefur fækkað.`` Hann ályktaði: Þetta þýðir að við hljótum að hafa haft afskaplega vondan iðnrh. sem var reyndar sami maðurinn sem var í stjórnarsamstarfi með þeim framsóknarmönnum lengri tímann af sínum starfstíma. Látum það nú vera. Það vill svo til að Framsfl. telur sig vera helsta talsmann landbúnaðar bæði innan lands og utan og byggðastefnu a.m.k. innan lands. Nú vill svo til að fyrir allmörgum áratugum var hlutur landbúnaðar í íslenskum þjóðarbúskap miklum mun stærri heldur en hann er nú. Störf í landbúnaði voru miklu fleiri. Hlutdeild landbúnaðar í íslenskri þjóðarframleiðslu var miklu meiri. Síðan hefur það gerst að hlutur landbúnaðar hefur minnkað stöðugt. Nú er það svo að forustumenn í íslenskri pólitík og þeir sem hafa farið með stjórn landbúnaðarmálanna hafa yfirleitt verið framsóknarmenn, hvaða flokki sem þeir hafa tilheyrt, þ.e. þeir hafa verið framsóknarmenn lengst af og þetta er framsóknarkerfi. Landbúnaðurinn hefur búið við framsóknarstjórn. Stöðugt, linnulaust allan tímann undir stjórn framsóknarmanna hefur landbúnaðinum hnignað og hlutur hans í þjóðarframleiðslunni hefur minnkað, störfum fækkað, samkeppnisgeta hans minnkað, verðið til neytenda hækkað og styrkirnir vaxið. ( JGS: Þetta er rangt.) Þetta hefur verið ferillinn undir stjórn framsóknarmanna. Og ef þetta er rangt eins og hv. þm. segir (Forseti hringir.) þá má bæta því við að þessir menn eru líka helstir talsmenn byggðastefnu á Íslandi og hafa yfirleitt farið með stjórn byggðamála. Á sama tíma og þeir hafa stjórnað þeim þá hefur það reynst vera svo að fólkinu á landsbyggðinni hefur fækkað, þéttbýlið hefur vaxið. Ætla menn þó að álykta, eins og hv. þm., (Forseti hringir.) að þeir sem hafa farið með stjórn landbúnaðarmála, þeir sem hafa farið með stjórn byggðamála hafi verið hinir verstu menn? (Forseti hringir.) Er umræða af þessu tagi ákaflega upplýsandi? Nei, hún er það ekki. En hún er nákvæmlega á sömu röksemdafærslu reist og málflutningur þeirra sem hér hafa talað. Nákvæmlega. Vegna þess að þeir láta sig engu varða rök, efnislegar staðreyndir um það hver er hlutur iðnaðar (Forseti hringir.) og hver er hlutur þjónustu eða hvað er að gerast, eða hverjar skýringarnar eru. Þetta er bara ómerkileg málfundaæfing til þess ætluð að reyna að koma höggi á menn án röksemda. ( JGS: Útflutningsiðnaðurinn er í ólestri.) ( SvG: Þetta var nú ekki nein skínandi ræða.)