Ummæli utanríkisráðherra um landbúnaðarmál

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 17:10:18 (8233)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Virðulegur forseti. Á meðan hæstv. utanrrh. enn heyrir til mín hér frammi á stigaskörinni vil ég benda á að í þingsköpum stendur að það skuli ræða mál sem eru á dagskrá á hverjum tíma. Hæstv. utanrrh. hefur verið mjög hávaðasamur um það síðustu daga m.a. að hér fari menn ekki eftir þingsköpum. Nú gerðist það að hæstv. utanrrh. tók upp umræðu um landbúnaðarmál undir liðnum þar sem verið var að fjalla um iðnaðarmál. Ég vil því segja það, virðulegur forseti, að ég mun þess vegna nota tækifærið sem hér gefst síðar á þessum fundi og ræða við hæstv. utanrrh. um landbúnaðarmál þegar 35. mál kemur á dagskrá sem er 504. mál þingsins, um framleiðslu og sölu á búvörum. Þá gefst mér tækifæri til að svara órökstuddum og röngum fullyrðingum sem hæstv. ráðherra hafði hér frammi í máli sínu áðan.