Ummæli utanríkisráðherra um landbúnaðarmál

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 17:12:00 (8234)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegur forseti. Örstutt leiðrétting. Í ræðu minni hér áðan ræddi ég ekki um landbúnaðarmál. Ég var að ræða um rökvísina í málflutningi þeirra sem hófu umræðuna um iðnaðarmál sem sögðu einfaldlega að ef hlutdeild einnar atvinnugreinar í þjóðarframleiðslu eða störfum í þeirri atvinnugrein fer hlutfallslega fækkandi þá beri að álykta að það sé slæmt, það sé pólitískt á ábyrgð ráðherra og það beri að fordæma og kenna viðkomandi flokki. Ef beita á sömu rökvísi þá hljóta menn að álykta sem svo að þeim sem stjórnað hafa landbúnaði eða talið sig mesta talsmenn byggðastefnu hafi mistekist mjög í sínu stjórnmálastarfi á þessari öld vegna þess að hlutur landbúnaðar hefur minnkað og fólki starfandi í landbúnaði hefur fækkað og fólki á landsbyggðinni hefur fækkað. Það mætti halda áfram þessari sömu rökvísi og segja: Sú var tíð að hlutur iðnaðar í iðnríkjunum, í Bretlandi, Bandaríkjunum o.s.frv., var mjög hár en hann hefur nú lækkað, hlutur þjónustu og annarra starfsgreina hefur hækkað og samkvæmt þessari sömu rökvísi þá eiga menn að álykta sem svo að þetta sé allt saman á hnignunarleið. Þetta eru röng rök. Þetta er rökvísi sem stenst ekki. Og ef það gengur ekki að beita rökum á framsóknarmenn þá er ekki við mig að sakast.