Vandi sjávarútvegsins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 17:40:23 (8239)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil í fyrsta lagi þakka fyrir að greitt hefur verið fyrir því að þessi umræða mætti koma hér á dagskrá. Við því hefur verið orðið þrátt fyrir annir þingsins. Það var samdóma álit okkar í stjórnarandstöðunni að eftir að til ákveðinna tíðinda dró, sérstaklega í sjávarútvegsnefnd á fundum þeirrar nefndar snemma í þessari viku, þá yrði ekki svo við unað að ekki gæfist hér tækifæri til að ræða stöðu og málefni sjávarútvegsins áður en þinglausnir yrðu. Ég hef óskað eftir því að bæði hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. verði viðstaddir umræðuna og mér er kunnugt um að hæstv. forsrh. er rétt ókominn í hús ef ég hef fengið réttar upplýsingar. Það væri nú gott, hæstv. forseti, ef hér stæði í aðalatriðum einn fundur í salnum í einu.
    Ég ætlaði að hefja mál mitt á því að fara nokkrum orðum um afkomu í íslenskum sjávarútvegi um þessar mundir. Rekstrargrundvöllur sjávarútvegsins er hruninn til grunna. Þetta eru reyndar ekki orð ræðumanns. Þetta er ekki upphrópun stjórnarandstæðings. Þetta er ekki niðurrifsstarfsemi skæruliðahóps hér á þingi eins og hæstv. utanrrh. mundi kannski kalla það. Nei, þetta eru orðrétt ummæli forustumanna Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna við upphaf aðalfundar þeirra samtaka í gær. ,,Rekstrargrundvöllur sjávarútvegsins er hruninn til grunna`` var sagt þar.
    Á árinu 1992, sem nú er búið að gera upp, var staðan þannig að tap á botnfiskveiðum og vinnslu var 6,4% en með greiðslum úr Verðjöfnunarsjóði 2%. Útgreiðslur Verðjöfnunarsjóðs voru 2,6 milljarðar kr. á árinu, sjóðurinn var tæmdur. Það nam 4,5% í afkomu en samt sem áður var 2% tap á greininni. Miðað við afkomutölur út frá aðstöðu sjávarútvegsins í marsmánuði sl. er staðan sú nú að mati Þjóðhagsstofnunar að tap botnfiskveiða og vinnslu er 8,3% og hefur þó verið breytt tryggingamati fiskiskipa þannig að taptalan lækkar um 1,8% miðað við það sem áður var. Ef eldri viðmiðun væri notuð er tapið tæpir 10% um þessar mundir og er þá ekki reiknað með greiðslum fyrir veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs á næsta fiskveiðiári. Sem sagt sjávarútvegurinn íslenski mun tapa 6--7 milljörðum króna á árinu. Saltfiskvinnslan er rekin með 14--15% tapi enda er hún að leggjast af í hverju fyrirtækinu á fætur öðru. Samt er það svo að ríkisstjórn Íslands áformar að selja veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs á næstunni, það sem eftir er af þeim, 8 þús. tonn, og hafnar þeirri ósk og kröfu stjórnarandstöðunnar að afgreiða lagaheimildir til að úthluta þeim ókeypis til útgerðarinnar við þessar aðstæður. Samt er það svo að loforð hæstv. forsrh. frá því í ágústmánuði sl. sem er bráðum 9 mánaða gamalt hefur enn ekki verið efnt. Í þriðja lagi er það svo að hæstv. ráðherrar eru þegar komnir í hár saman um ákvörðun leyfilegs hámarksafla bolfisks á næsta fiskveiðiári.
    Hæstv. forsrh. segir að ekki sé nokkur leið að skera aflann meira niður en gert hafi verið á sl. ári. Hæstv. sjútvrh. boðar frekari niðurskurð. Ríkisstjórnin greip til þess í nóvembermánuði sl. að fella gengið. Sú ráðstöfun bætti afkomu greinarinnar um 4,4% að mati Þjóðhagsstofnunar en sama stofnun segir nú: Sá bati er meira en búinn. Afkoman er orðin verri í sjávarútveginum í dag en hún var fyrir gengisfellinguna í nóvember.
    Í því ljósi eru ummæli hæstv. forsrh. frá því í eldhúsdagsumræðunum hér um daginn harla athyglisverð. En hæstv. forsrh. sagði, með leyfi forseta: ,,Við`` --- og á þá væntanlega við ríkisstjórnina --- ,,höfum vaxandi áhyggjur af stöðu sjávarútvegsins. Þegar starfsumhverfi sjávarútvegsins er skoðað kemur í ljós að vanda hans virðist ekki að leita í rangri skráningu gengis. Raungengi er óvenjulega lágt um þessar mundir og hefur vart lægra verið í ár.`` Samt var það þannig að á aðalfundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna var gengið í raun og veru fellt í gær vegna þess að talsmennirnir þar sögðu: Það er ekkert annað eftir. Ríkisstjórnin hefur ekkert gert. Vextirnir hafa ekki lækkað og það er ekkert eftir nema gengið, neyðarúrræðið gamla.
    Það er vonlaust að hafa þetta svona. Skuldastaða sjávarútvegsins er, eins og allir þekkja, hrikaleg. Brúttóskuldir greinarinnar eru á milli 105 og 110 milljarðar kr. en heildarverðmæti eigna í geininni um 130 milljarðar. Tekjur 70 milljarðar, lánstími 7 ár. Það sjá allir af þessum tölum einum að dæmið er víðs fjarri að ganga upp. Og við bætast svo hinar almennu aðstæður, erfiðleikar í öllu atvinnulífinu og fjármálalífinu. Fiskveiðistefnan, sjávarútvegsstefnan, hvar er hún? Hún er engin. Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut af því sem þó stendur í hennar hvítbók og hennar stjórnarsáttmála. Með öðrum orðum, hæstv. forseti, öll málefni sjávarútvegsins eru í upplausn. Rekstrargrundvöllurinn er hruninn til grunna, ekkert samkomulag er um fiskveiðistefnuna, ekkert samkomulag er um ákvörðun aflaheimilda, ekkert samkomulag er um gengisskráningu, ekkert samkomulag er um ráðstöfun veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs. Það er ekki samkomulag um neitt. Og þó, það virðist þrátt fyrir allt vera samkomulag um eitt í hæstv. ríkisstjórn. Hvað er það? Það er að gera ekki neitt. Það er a.m.k. niðurstaðan af þessu ástandi, afleiðingin. Það sem þarf að gera er í fyrsta lagi að úthluta án tafar veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs án endurgjalds. Það verður í öðru lagi að létta af sjávarútveginum þeim álögum, þjónustugjöldum og íþyngjandi ráðstöfunum sem hæstv. ríkisstjórn hefur gripið til á starfstíma sínum. Það verður að lækka vextina og það stórlega. Við þurfum að stefna hér að sambærilegu raunvaxtastigi og í öðrum löndum þar sem hóflegum vöxtum er beitt sem stjórntæki til að örva efnahagslífið. Vaxtastigið verður að nást niður í 3--5% hér á næstu einu til tveimur árum. Það eru þeir raunvextir sem samkeppnisgreinar sjávarútvegsins erlendis búa við. Það verður í fjórða lagi að létta greiðslubyrði skulda sjávarútvegsins með lægri vöxtum, með lengri lánum og með endurfjármögnun greinarinnar og endurskipulagningu í stórum stíl. Það verður að lækka tilkostnað. Það er búið að tala og tala og tala um t.d. raforkuverð til sjávarútvegsins en það hefur ekkert gerst. Og það verður síðast en ekki síst, hæstv. forseti, að auka tekjur greinarinnar vegna sjávarútvegsins og vegna þjóðarbúsins með því að hvetja menn og ef með þarf með því að styrkja menn til að sækja á dýpri mið og í vannýttar tegundir. Með því að auka fullvinnslu og þar með verðmætasköpun og atvinnu. Úreldingarsjóðir sem fækka skipum og minnka vinnslurými eru neyðarkostir borið saman við hitt ef hægt er að styðja menn til að beina vannýttum skipum til veiða á nýjum miðum eða í vannýtta stofna og auka þannig verðmætin.
    Ef stofnaður er þróunarsjóður af einhverju tagi í sjávarútvegi nú þá á hann að sjálfsögðu ekki aðeins að úrelda hús og draga saman í greininni heldur einnig að aðstoða við að breyta húsnæði í fullvinnslu- og sérvinnsluaðstöðu þar sem möguleikar eru til slíks. Það er lífsnauðsynlegt fyrir íslenskan sjávarútveg og íslenska þjóðarbúið að það takist að auka útflutningstekjur íslenskra sjávarafurða verulega. Það er þrátt fyrir allt enn þá einu sinni þannig að það eru engir aðrir möguleikar nær okkur Íslendingum en þeir sem felast í sjávarútveginum til aukinnar verðmætasköpunar hér í landinu.
    Ég tel það fyllilega raunhæft markmið að með sameiginlegu átaki megi auka útflutningstekjur af íslenskum sjávarafurðum um 100 milljarða kr. að núvirði á næstu fimm til sjö árum. Við verðum að stefna að því. Fyrr og ekki fyrr er hlutfall tekna og skulda bæði sjávarútvegsins og þjóðarbúsins komið í viðráðanlegt horf. Ég vil svo að lokum, hæstv. forseti, leyfa mér að leggja eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. ráðherra, hæstv. sjútvrh. og hæstv. forsrh. að nokkru leyti einnig:
    1. Hvað hyggst ríkisstjórnin fyrir með veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs,
    a. veiðiheimildir þessa árs eða það sem eftir er af þeim, 8.000 tonn,
    b. veiðiheimildir næsta fiskveiðiárs 1993--1994,
    c. hvað með loforð hæstv. forsrh. um fjárstuðning til útgerðarinnar til að jafna mismunandi útkomu hennar vegna skerðingar þorskveiðiheimilda?
    2. Hvað hyggst ríkisstjórnin gera í sambandi við afkomu sjávarútvegsins? Hyggst ríkisstjórnin reyna að afstýra yfirvofandi fjölda gjaldþrota í greininni sem fjallað er um þessa dagana á aðalfundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna? Hvenær er að vænta ráðstafana frá ríkisstjórninni í þessu sambandi? Hvers er að vænta og hvenær er spurningin.
    3. Hvenær er að vænta ákvarðana í gengismálum? Það er búið að fella gengið úti í sjávarútveginum og það veit hvert mannsbarn að við þær aðstæður geta menn ekki dregið það lengi að taka ákvörðun í því sambandi.
    4. Hyggst ríkisstjórnin taka á skuldamálum útvegsfyrirtækjanna og þá hvernig?
    5. Er þess að vænta að þróunarsjóður verði aftur á dagskrá ríkisstjórnar næsta haust eða eitthvert sambærilegt fyrirbæri?
    Hvar er þróunarsjóðurinn? spyr Morgunblaðið í forundran í leiðara sínum í fyrradag. Ég tek undir þá spurningu. Hvar er þróunarsjóðurinn sem og aðrar ráðstafanir hæstv. ríkisstjórnar?
    6. Hvernig hyggst ríkisstjórnin standa að frekari vinnu að mótun fiskveiðistefnunnar? Er þess að vænta að áfram verði haldið þar á sömu braut án nokkurs samráðs við sjútvn. Alþingis og stjórnarandstöðuna?
    Að lokum til hæstv. forsrh.: Er hæstv. forsrh. tilbúinn til að beita sér fyrir því að kalla Alþingi saman á nýjan leik innan skamms til að ræða þessi mál og almennar aðstæður í efnahags- og atvinnumálum ríkisstjórnarinnar?
    Allra síðasta spurningin til hæstv. forsrh. er þessi: Nái hæstv. ríkisstjórn ekki samkomulagi á næstunni um ráðstafanir í þessu sambandi hvenær má þá vænta þess að hún biðjist lausnar?