Vandi sjávarútvegsins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 18:07:16 (8241)

     Stefán Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Sú umræða sem hér fer fram er um vanda sjávarútvegsins sem svo sannarlega er mikill. Ég vil þó með örfáum orðum á annars mjög naumum tíma minna á annan vanda sem nauðsynlega hefði þurft að ræða og veldur mér ekki síður áhyggjum og er nátengdur vanda atvinnulífsins. Þar á ég við breytta tekjuskiptingu í landinu og fjárhagslega erfiðleika launafólks og heimila. Skuldir heimilanna hafa sífellt aukist og eru nú fjórum sinnum hærri en fyrir áratug og einstaklingar og heimili eru að sligast undan drápsklyfjum þessarar ríkisstjórnar.
    Hækkun á sköttum einstaklinga verður á þessu ári trúlega um 11 milljarðar þrátt fyrir að fyrsta setningin í landsfundarsamþykkt Sjálfstfl. frá árinu 1991 um skattamál væri: Sjálfstfl. vill lækka skatta. Landsfundur Sjálfstfl. samþykkti einnig að lækka skatthlutfall einstaklinga úr 39,85% í 35%. Þetta hefði þýtt lækkun tekjuskatts um á bilinu 8--9 milljarða kr. Þessi fyrirheit voru einnig svikin því skatthlutfallið var ekki lækkað heldur hækkað í 41,35% sem er skattahækkun á einstaklinga upp á 2,5--3 milljarða. Hér er mismunur á loforðum og efndum hvorki meiri né minni en um 11--12 milljarðar kr. sem boðberar íhaldsins og kratanna báru á borð fyrir kjósendur sína fyrir síðustu alþingiskosningar.
    Fyrir síðustu kosningar fóru þeir einnig saman félagarnir, fulltrúar Alþfl. og Sjálfstfl., á vinnustaði og tilkynntu launafólki að skattleysismörkin yrðu að hækka í 70--80 þús. kr. Þessir aðilar fengu umboð þessa fólks til að standa við loforðið. En gerðu þeir það? Nei, því miður. Þeir hækkuðu skattleysismörkin. Að ógleymdu má einnig geta þess að ríkisstjórnin hefur einnig (Gripið fram í.), fyrirgefðu, þakka ykkur fyrir, þeir gerðu einmitt þveröfugt. Auðvitað mátti ég vita að þeir gerðu þveröfugt. Auðvitað lækkuðu þeir skattleysismörkin. Og þeir hafa lagt hvorki meira né minna eða flutt af fyrirtækjum um 6,2 milljarða yfir á launafólkið í landinu. Þannig gæti ég haldið áfram að minna á svik núv. stjórnarflokka gagnvart þegnum þessa lands. En ég held að sá tími sem eftir lifir þessa þinghalds muni ekki duga til að rifja upp öll þessi svik.
    Það stjórnarfar sem nú ríkir er að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari. Sú aðför og umbylting sem gerð hefur verið á því velferðarþjóðfélagi sem hér hefur verið byggt upp veldur áhyggjum og það hversu einstaklingar og heimili eru illa stödd vegna fjárhagslegra þrenginga m.a. af þessum ástæðum. Allt verður að gera til að komast hjá þeim harmleikjum sem blasa við allt of mörgum í dag. Allt annað er Alþingi og þingmönnum ekki sæmandi. Ríkisvaldið ögrar og hótar hinum almenna launamanni við að ná fram rétti sínum til mannsæmandi launa með uppsögnum og atvinnuleysi. Launþegar þurfa nú að fórna kjarabótum sér til handa til að verja velferðarkerfið fyrir krötunum. Alþingismenn geta ekki látið sem ekkert hafi gerst. Hlutur Alþfl. í þessu máli er allra aumastur og þeim til skammar.
    Krafa almennings í dag um skilning á auknu réttlæti bergmálar um þjóðlífið allt. En ráðherrar heyra ekki neitt. Það mætti halda að þeir byggju í hömrunum eins og tröllin. Ríkisstjórnin verður að láta af þeim óheillaáformum sem hún hefur uppi. Sá hornsteinn sem heimilin eru þola ekki álögurnar og eru að sundrast og þau sár sem af því hljótast munu seint og illa gróa.
    Það ástand, sem hefur verið að skapst með viðvarandi atvinnuleysi, er uggvænlegt. Ekki mun fjarri lagi að milli 9--10 þúsund manns séu nú án atvinnu. Það er alvarlegt að núv. ríkisstjórn sé svo villt á vegi frjálshyggjunnar að hún beiti atvinnuleysinu sem stjórntæki við úrlausn í efnahagsmálum. Ætlum við Íslendingar að kalla yfir okkur það þjóðfélagsböl sem þekkt er erlendis að stór hópur fólks fái nokkuð víst aldrei í lífinu ærlega atvinnu?
    Virðulegi forseti. Um þetta ástand getur aldrei orðið sátt. Ríkisstjórnin mun fyrr eða síðar verða knúin til að láta af þessari stefnu og því fyrr, því betra. Núverandi ríkisstjórn er vitaskuld rúin öllu trausti almennings. Geta þeirra til að stjórna er engin. Það eina sem samkomulag er um hjá ríkisstjórninni og stuðningsliði hennar er að gera ekki neitt og það er út af fyrir sig stefna. Í grundvallaratvinnugreininni, sjávarútveginum, skortir forsrh. og sjútvrh. vilja til að leita sameiginlegra leiða út úr þeim vanda sem þeir hafa komið sjávarútveginum í. Hentistefnuflokkur eins og Alþfl. og frjálshyggjulið íhaldsins eru ónothæf til að bregðast við þeim allsherjarvanda sem núv. ríkisstjórn hefur komið atvinnulífinu í. Það er meiri háttar klúður þessarar ríkisstjórnar að fresta því að taka afstöðu til stjórnunar fiskveiða. Þess vegna er atvinnugreinin í meiri óvissu nú um starfsskilyrði sín en nokkru sinni fyrr. Þrátt fyrir það verða kröfur stjórnvalda til sjávarútvegsins sífellt háværari um aukna hagræðingu og skipulagsbreytingu innan greinarinnar. Ég fullyrði að í engri atvinnugrein á Íslandi hafi átt sér stað jafnumfangsmiklar skipulagsbreytingar og í sjávarútvegi og árangurinn hvergi verið meiri.
    Það er athyglisvert að útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða hefur aukist frá árinu 1983 um hvorki meira né minna en 29% og ef ég man rétt mun þetta jafngilda um 14 milljörðum kr. þrátt fyrir allan þann aflasamdrátt sem greinin hefur mátt þola. Sjávarútvegurinn þarf ekki að biðjast afsökunar á slíkum árangri og væri betur að aðrar greinar hefðu náð að skila slíku.
    Það er athyglisvert þegar þetta er skoðað að árið 1987 veiddum við um 390 þús. tonn af þorski en árið 1993 er aflaúthlutun rétt um 205 þús. tonn.
Aflasamdrátturinn á þessu tímabili er hvorki meira né minna en 185 þús. tonn af þorski. Þrátt fyrir þetta nær greinin góðum árangri eins og ég gat um áðan. Þessar tölur ættu að sýna þeim sem sífellt gera kröfur á sjávarútveginn um hagræðingu og aukna arðsemi, hvort sem það er ríkisstjórnin eða pennabræðurnir á Morgunblaðinu og Alþýðublaðinu, að útvegsmenn, sjómenn og fiskvinnsla hafa svo sannarlega náð árangri í að aðlaga sig að breyttum háttum. En það virðist ekki duga. Græðgi ríkisstjórnarinnar til eyðslu og annarra þeirra sem sækja nesti sitt í þjóðarkökuna, allt þetta lið er óseðjandi. En sjávarútveginum er ætíð boðið síðast af skiptaborði þjóðarinnar þótt hann afli um 70--80% þess sem þarf í þessa þjóðarmáltíð.
    Áratugir eru síðan sjávarútvegurinn hefur mátt þola slík starfsskilyrði sem nú. Allt tal ráðherra um vaxtalækkanir vita þeir sem í atvinnurekstrinum starfa að er marklaust hjal að óbreyttri stefnu. Meðan núverandi gjaldþrotastefna ríkir munu bankar og sjóðir enga burði hafa til þess að lækka vexti. Það sem þeir munu gera er að hækka vexti ef svo heldur fram sem horfir. Gjaldþrotin munu skapa það ástand. Þau fyrirtæki sem fram að þessu hafa staðið í skilum með lán sín og greiðslur til starfsfólks munu þurfa að borga brúsann og þannig hefst nýr ferill á þessari gjaldþrotabraut ríkisstjórnarinnar.
    Einu tillögurnar sem fram hafa komið frá ríkisstjórninni eru um auknar álögur á sjávarútveginn. Þróunarsjóðurinn er skýrasta dæmið um það, þar sem ákveðið er að taka upp auðlindaskatt í sjávarútvegi. Það er athyglisvert og ætti að vekja hvern einasta Íslending til umhugsunar að lesa forustugrein Alþýðublaðsins í síðasta mánuði en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þróunarsjóðurinn felur í sér sögulega sátt um gjaldtöku fyrir nytjarétt á auðlindinni og með honum er reitt til höggs`` --- og nú bið ég sjálfstæðismennina að hlusta --- ,,og með honum er reitt til höggs að einum stærsta vanda í íslenskum sjávarútvegi.``
    Það er með ólíkindum að þeir sem í sjávarútvegi starfa átti sig ekki á því hvert hér er verið að fara og svari slíkum hótunum. Íhaldið virðist máttvana og getulaust til að leiða sjávarútveginn úr þeim ógöngum sem þeir hafa komið honum í. ( Gripið fram í: Það stendur nú ekki í Alþýðublaðinu.) Það er sorglegt hversu núv. ríkisstjórn hefur sótt fast að sjávarútveginum og kippt gersamlega starfsgrundvelli undan þessari höfuðatvinnugrein þjóðarinnar.
    Eigið fé fyrirtækjanna er að brenna upp og eigendurnir standa á brunarústunum einum. Það er sem flokkur brennuvarga gangi laus og þeir sem eiga að sinna brunavörnunum hafa engar varnir lengur.
    Virðulegi forseti. Það er afleitur kostur ef alþingismenn ætla að fara heim áður en þeim hefur tekist að ná eldfærunum af þessum brennuvörgum og stöðva þessa bálför að íslensku atvinnulífi.