Vandi sjávarútvegsins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 18:50:38 (8244)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar lögðu mikla áherslu á að þessi umræða gæti farið hér fram sem út af fyrir sig er ekkert óeðlilegt, en ég átti þá von á því, fyrst áherslan væri jafnrík og raun bar vitni um þá kröfu að hér færi fram umræða um sjávarútvegsmál og stöðu íslenska sjávarútvegsins, að þar kæmu fram hugmyndir þessara flokka hvernig þeir teldu að ætti að bregðast við í þeirri stöðu sem nú er uppi. Og það er alveg hárrétt hjá hv. þm. sem hér talaði áðan að það komu engar slíkar upplýsingar fram, a.m.k. engar nýjar upplýsingar. Það voru taldir upp vissir hlutir sem menn hafa verið að vinna að lengi og margt er reyndar komið vel á veg. En engar heildarlausnir voru boðaðar, a.m.k. engar samstæðar lausnir af hálfu stjórnarandstöðunnar. Hún hefur ekki komið sér saman um neinar heildarlausnir.
    Hv. þm. Össur Skarphéðinsson ræddi mjög um ræðu hv. 4. þm. Norðurl. v. og komst reyndar að þeirri niðurstöðu að hv. þm. væri einn helsti blóraböggull í íslensku þjóðlífi. Ég er nú ekki þeirrar skoðunar. En ég verð þó að segja að mér fannst ræða hans dálítið sérkennilegt. Það var engu líkara en hv. þm. hefði misst af því að flytja ræðu 1. maí og væri kominn með þá ræðu hingað og þrumaði hana yfir þingheimi. Það komu engar nýjar upplýsingar frá hv. þm. varðandi stöðu sjávarútvegsins eða hvernig bregðast ætti við stöðu hans og hv. þm. sem réðist mjög á ríkisstjórnina nefndi ekki að á síðasta fjárlagaári þeirrar ríkisstjórnar, sem hann studdi síðast, fóru tæplega 500 fyrirtæki á höfuðið, urðu gjaldþrota og var að Íslandsmet. Það var uppgjörið og það var árangurinn af stjórnarstefnu sem Framsfl. réði mestu um. Þetta hefði hv. þm. átti að hafa í huga. Það gerði hann ekki, svo mikið lá honum á að koma höggi á ríkisstjórnina sem út af fyrir sig er ágætt að hv. stjórnarandstæðingar geri.

    Varðandi hins vegar hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, þá lagði hann megináhersluna á að það bæri að lækka gengið. Hann söng hér barytonröddu í gengisfellingarkórnum og gerði það mjög fast og ákveðið og það kom mér mjög á óvart að hv. þm. skyldi tala með þeim hætti. Það var ekki nefnt aukateknu orði af hálfu talsmanns Alþb. að þá gengisfellingu ætti að bæta launþegum. Hv. þm. hafði ekki hugann við launþega á þessu stigi málsins. Hann bara krafðist gengisfellingar og virtist ekki átta sig á því að gengisfelling í núverandi stöðu hefur ekki endilega eintóma góða kosti í för með sér fyrir sjávarútveginn og færa má rök fyrir því að gengisfelling getur verið það versta sem fyrir sjávarútveginn komi um þessar mundir. Og auðvitað er það rangt hjá honum að menn felli gengið, eins og hann sagði á aðalfundi SH. Hvers konar ofdýrkun er þetta hjá þingmanninum á samtökum þessara atvinnurekenda? Að þessir aðilar felli gengið á aðalfundi sínum? Var það virkilega svona stefna sem sú ríkisstjórn, sem hann sat í, hafði, að það þyrfti ekki annað en ræðu hjá atvinnurekanda úti í bæ, þá var gengið fallið? Ég vænti þess að hann hafi ekki hagað sér með þeim hætti og haft þessi viðhorf þegar hann sat í ríkisstjórn. En hann sagði: Gengið var fellt, gengið var fellt í gær, ( SJS: Verður gengið fellt?) gengið var fellt á fundi í gær og gengið verður ekki fellt, fyrst spurt er. Og það var ekki fellt þar. Þar er ekki staðan til að fella það og það verður ekki fellt og það er mjög áríðandi að þingmaðurinn átti sig á því.
    Menn velta fyrir sér: Hvað er það sem skapar þá stöðu í sjávarútveginum eins og nú stendur? Við vitum það öll, hver meginstaðan er og hver meginástæðan er. Það eru ekki ástæður sem leita má lausna við með því að breyta skráningu gengisins við núverandi stöðu. Við vitum nákvæmlega hvað það er sem hrjáir íslenskan sjávarútveg um þessar mundir. Við vitum hver undrirrótin er. ( Gripið fram í: Ríkisstjórnin.) Já, já, auðvitað geta menn talað með þessum hætti. Hvaða gagn er af frammíkalli af þessu tagi? Það sýnir bara að hv. þm. hefur ekki hundsvit á því sem hann er að tala um, ef hann talar með þessum hætti. Menn vita að það er minnkun á afla sem hefur orðið til þess að við búum við erfiða stöðu í sjávarútvegi. Það gat gengið og var léttara meðan aflinn dróst saman meðan verðið var afskaplega hátt, með því hæsta sem verið hefur í sögulegu samhengi. Það hefur hins vegar gerst núna að verðið hefur lækkað. Verðið hefur þó ekki lækkað svo mjög að það sé með því lægsta sem við þekkjum. Það er hins vegar með því lægsta sem verið hefur á 5--6 ára tímabili. Það gerir auðvitað heilmikla erfiðleika fyrir okkur þegar aflinn dregst jafnmikið saman og hann hefur gert að undanförnu.
    Menn segja að aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem gripið var til í nóvember og bættu stöðu sjávarútvegsins um tæp 5%, séu uppurnar. Og það má segja að sú fullyrðing sé rétt. Ef menn reikna stöðu sjávarútvegsins út frá núverandi stöðu fram í heilt ár, þá er staðan þannig að sjávarútvegurinn stendur lakar en hann stóð eftir að þær breytingar voru gerðar en þá eru menn líka að framreikna stöðuna í heilt ár. Aðgerðirnar sem gripið var til í nóvember, það eiga menn að hafa í huga, eru varanlegar aðgerðir þannig að þegar verðið hækkar á nýjan leik, sem búist er við að gerist á næstu missirum, þá munu þessar aðgerðir standa og auðvitað koma þessari atvinnugrein afskaplega vel. Þetta vita þeir sem í atvinnugreininni standa sjálfir.
    Við megum búast við því, því miður, samkvæmt áliti þeirra sem best til þekkja að verð kunni enn að lækka á næstu vikum. Við getum ekki fullyrt það og haldið því fram hér að verð sé komið í botn. En það er líka mat flestra að þrátt fyrir að verð kunni að lækka enn nokkuð á næstu vikum, þá megi búast við því að það megi hækka á næstu missirum. Öll reynslan í þessum efnum stendur til þess að verð muni hækka á næstu missirum.
    Menn spyrja: Því eru ekki tilbúnar núna ráðstafanir ríkisstjórnarinnar þannig að það sé hægt að kynna þær miðað við þá stöðu, þá framreiknuðu stöðu sem sjávarútvegurinn er í? Ég vek athygli á því að þegar kjarasamningar voru í undirbúningi fyrir örfáum vikum síðan, þá lá fyrir yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnar og þá lá fyrir samningsgrundvöllur af hálfu aðila þar sem búið var að leggja megingrundvöllinn þó ekki yrðu samningar á því stigi máls. Þar var Vinnuveitendasambandið og auðvitað með sjávarútveginn innanborðs í Vinnuveitendasambandinu, tilbúið til þess að ganga til samninga sem gerðu ráð fyrir því að menn vildu endurmeta stöðu sjávarútvegsins miðað við tiltekin skilyrði á haustdögum þannig að menn væru ekki að framreikna stöðuna með núverandi stöðu og það var ekki gerð til þess krafa af hálfu Vinnuveitendasambandsins að sú staða yrði gerð upp á þessu stigi máls, heldur á haustdögum. Og það voru sett inn tiltekin skilyrði með hvaða hætti ætti að vinna að þessari endurskoðun og hvaða forsendur ætti að leggja þar til grundvallar og ég held að þetta sé skynsamlegt.
    Það er einn annar þáttur sem þarna kemur mjög inn í myndina. Ég nefndi það að aflasamdrátturinn sé meginorsök þess, og kemur enn blóðugar fram nú þegar verð lækkar, að staðan er sú í sjávarútvegi sem þar er um að ræða. Við þurfum að horfa í hvaða afla við megum búast við að sjávarútvegurinn geti á land dregið og unnið eftir að tillögur fiskifræðinga liggja fyrir, væntanlega í lok þessa mánaðar, og síðan ákvörðun sjútvrh. í framhaldi af því. Við vitum að það var ákveðið hér á síðasta ári af hálfu sjútvrh. að veiða tiltekið magn og það var miðað við þriggja ára ramma sem Hafrannsóknastofnun setti upp. Hún setti upp fjóra mismunandi þriggja ára ramma og það var einn valinn. Á þessu stigi máls höfum við enga aðra stöðu en horfa til þess að við séum í þeim þriggja ára ramma fasa en auðvitað getur það gerst að aðrar upplýsingar komi fram sem leiða til þess að niðurstaðan kunni að verða önnur. Auðvitað getur það líka gerst að menn reikni þá þann afla sem menn hafa á land dregið og beri saman við það sem menn ætluðu sér og ákvörðun sjútvrh. kunni að taka eitthvert mið af slíku. Við vitum það líka að ef aflinn dregst

saman enn meira heldur en við höfum þegar orðið að draga hann saman, þá er vandinn miklu, miklu meiri en við höfum þó verið við að glíma. Ég tel að meginverkefnið hjá okkur núna sé það að halda umhverfinu í eins góðri stöðu og verða má.
    Menn tala um gengið og hv. þm. Steingrímur Hermannsson, málshefjandi hér í dag, talaði mjög um gengið og rétt eins og það . . .   ( FI: Hann er ekki hér í dag. Þú saknar hans bara.) Nei, þeir eru rauðbirknir báðir en hinn hárprúður, það er rétt, en sá Steingrímur sem hóf mál sitt hér áðan og talaði mjög um gengið virtist leggja höfuðáherslu á það að breyting á því mundi leysa allan vanda. ( SJS: Þetta er rangt. Ég sagði þetta aldrei.) Þetta er gömul klisja sem menn þekkja. Og þannig var þetta jafnan gert eins og hv. þm. veit. Þannig var þetta jafnan gert hér áður fyrr þegar verðlag hér innan lands hafði farið úr böndum og var ekki í samræmi við þær tekjur sem menn höfðu af atvinnugreininni. Þessi staða er ekki uppi núna. Og það eru heldur engin önnur tákn uppi um það að röng gengisskráning sé að hafa áhrif í okkar efnahagslífi sem jafnan fylgir ef gengið er rangt skráð. Það er engin slík staða uppi. Raungengi íslensku krónunnar er nú með því lægsta sem við höfum haft, með því allra lægsta sem við höfum haft. Það var á svipuðum nótum 1984--1986, en undanfarin 10 ár hefur raungengið vart verið lægra. Þetta verða menn að hafa í huga þegar menn tala um gengið og menn verða líka að hafa það í huga að það hefur gengið eftir og mun ganga eftir sú staða að verði verðlag og verðlagsþróun hér innan lands með þeim hætti sem flest bendir til, þá mun gengið með þeim hætti, þeim heilbrigða hætti verða sjávarútveginum hagstæðara heldur en það hefur áður verið. Þetta er að vísu langtímaaðgerð en kannski drýgsta aðgerðin vegna þess að stöðugleikinn og gengislækkun með þessum hætti gefur sjávarútvegsfyrirtækjunum sjálfum langbest skilyrði til þess að taka á sínum málum og hagræða þeim. Við höfum séð mjög mörg góð og álitleg dæmi á allra síðustu dögum og vikum þar sem hagræðing í fyrirtækjunum er að skila mjög miklum árangri.
    Hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson virtist telja að það ætti að skattleggja þau fyrirtæki og ekki vera að gefa þeim eftir skatt eins og Granda sem hún nefndi sérstaklega. Nú er það vitað að fyrirtæki í sjávarútvegi, langflest þeirra, hafa um langa hríð verið rekin með halla og ekki líkur á að þau borgi tekjuskatt í háa herrans tíð, fram í tímann horft, vegna þess að þau eiga uppsafnað skattatap.
    Ég er þeirrar skoðunar að stöðugleikinn, gengisfesta við núverandi aðstæður þar sem gengið er ekki rangt skráð og lánalengingar hjá fyrirtækjunum sé mikilvægur þáttur í að halda þeim stöðugleika sem við búum við. Ég tel líka nauðsynlegt að þegar liggja fyrir ákvarðanir um afla og þegar gengur fram á haust og menn sjá hvernig verðlagsþróunin verður, þá verði málefni sjávarútvegsins tekin til sérstakrar skoðunar. Ég tel það ekki brýnt í augnablikinu þótt sú staða sem framreiknuð er núna sé vissulega afskaplega erfið.