Vandi sjávarútvegsins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 19:49:45 (8249)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég mun nota þann stutta tíma sem ég hef hér til þess að draga fram örfáar staðreyndir við hæstv. forsrh. Það hefur verið margsinnis vitnað í ummæli Jóns Ingvarssonar á aðalfundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna í gær. Ég mun ekki ítreka það hér.
    Ég vil hins vegar vitna í margítrekuð ummæli í útvarpi og í blöðum mæts manns í sjávarútvegi sem ég veit að bæði ég og hæstv. sjútvrh. berum bæði traust til og mikla virðingu fyrir og það er Einar Oddur Kristjánsson, fyrrverandi formaður Vinnuveitendasambandsins, sem hefur ítrekað bent á að í okkar efnahagslífi er 30--40 milljarða steinbarn í formi skulda sem atvinnuvegirnir og sérstaklega sjávarútvegurinn mun ekki ráða við á næstu mánuðum og missirum. Ef ekkert verður að gert, þá fer miklu fleira, þá fer þjónustukerfið, þá fara þjónustufyrirtækin og þá fellur bankakerfið um koll. Þessir menn hafa báðir bent á það, Jón Ingvarsson og Einar Oddur Kristjánsson og báðir Sjálfstfl. vel kunnir, að verði ekki horfið frá núverandi stjórnarstefnu, þá horfum við fram á þetta á næstu mánuðum og ég veit að þessar staðreyndir eru hæstv. sjútvrh. vel og að fullu kunnar. Hann er hins vegar í því ömurlega hlutskipti að hafa látið hæstv. forsrh., eins og hann sagði við þann sem hér stendur áður, svo að ég noti sömu orðin, segja að hann virðist ekki hafa hundsvit á stöðu sjávarútvegsins og hvert við erum að sigla þar. Þetta sagði hæstv. forsrh. við þann sem hér stendur, þegar ég kallaði fram í hjá honum. Þetta er því miður, hæstv. forsrh., sú staða sem við erum í í dag og ég hlýt að spyrja: Ætlar hæstv. sjútvrh. að halda því áfram að taka þessu þegjandi og

hljóðalaust?
    Ég sat áðan með blað og penna og beið þess að skrifa niður tillögur hæstv. forsrh. um aðgerðir í sjávarútvegsmálum á næstunni. Það blað er á borðinu mínu og það er autt. Síðan kemur hæstv. forsrh. og segir það eina sem hæstv. sjútvrh. sagði, það yrði gripið til aðgerða bráðlega. Síðan sagði hæstv. forsrh.: ,,Við gerum ekki neitt en við ætlum að meta stöðuna í haust.``
    Virðulegi forseti. Út af fyrir sig þarf ég ekki að halda hér lengri ræðu. Þetta er að mínu mati og að mati þeirra manna innan Sjálfstfl. sem hafa reynslu og þekkingu í atvinnurekstri og sjávarútveginum, sú staða sem nú blasir við. Þetta er sú staða sem hæstv. sjútvrh. virðist ætla að sitja undir þegjandi, hafandi ekki neinar tillögur um það hvernig á að bregðast við.