Vandi sjávarútvegsins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 19:53:37 (8250)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Þessar umræður hafa verið um margt athygliverðar, þó kannski fyrst og fremst fyrir það að menn hafa notað þennan tíma að stærstum hluta til í þeim tilgangi að hafa hér í frammi hefðbundnar pólitískar skylmingar milli stjórnar og stjórnarandstöðu, en eytt í sjálfu sér allt of litlum tíma í að ræða þá alvarlegu stöðu sem við stöndum frammi fyrir að því er sjávarútveginn varðar. Enginn dregur það í efa hversu alvarleg hún er. Það þjónar hins vegar afar litlum tilgangi og er ekki til þess fallið að stuðla að samstöðu um nauðsynlegar aðgerðir þegar hv. þm. stjórnarandstöðunnar, sumir hverjir a.m.k., koma hér og eru að gera því skóna að það eigi að skrifast á reikning ríkisstjórnarinnar að við höfum þurft að draga saman í afla og að við fáum ekki sama verð á erlendum mörkuðum og við fengum fyrir nokkrum missirum síðan. Það er óskaplega auðvelt að standa hér upp og berja sér á brjóst og segja að ríkisstjórnin hafi komið sjávarútveginum á kné vitandi það að það eru þessar tvær ástæður sem fyrst og fremst valda því hverjir erfiðleikar eru nú í sjávarútvegi. Vitaskuld er það svo rétt að við slíkum aðstæðum þarf að bregðast og það hefur verið gert með ýmsu móti á síðustu mánuðum og síðasta ráðstöfunin sem gerð var í nóvember með því að fella niður aðstöðugjaldið og lækka gengi krónunnar skilaði verulegum árangri. Og það er rétt að undirstrika það að sú gengisbreyting sem þá var gerð jók tekjur sjávarútvegsins, hún bætti rekstrarafkomu hans og hún leiddi ekki af sér neina verðbólguholskeflu. Þetta er mikilvægt að hafa í huga. Síðan hefur sigið á ógæfuhliðina fyrst og fremst vegna þess að verð hefur farið lækkandi á erlendum mörkuðum. Það er að vísu ekki svo ýkja mikill samdráttur í veiðum á þessu ári frá fyrra ári, en eigi að síður þó nokkur og hefur áhrif á afkomuna.
    Það er líka athyglivert af því að sumir hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa haft hér stór orð um það að ríkisstjórnin hafi ekki fundið hina einföldu lausn. Þeir hafa ekki sjálfir komið með neinar lausnir nema hv. 4. þm. Norðurl. e. sem sagði að lausnin væri fólgin í því að hvetja og styrkja. Og vissulega er það mikilvægt að hvetja menn í sjávarútveginum til framfara og það kann að vera nauðsynlegt að styrkja sjávarútveginn í einhverjum efnum, en það er þó hann sem er að skapa verðmæti í þjóðfélaginu og er undirstaða þess að við getum búið hér í velferðarríki. Þess er ekki að vænta að aðrar atvinnugreinar skapi þau verðmæti að við getum styrkt sjávarútveginn þannig að ekki fólust nú miklar lausnir í þessum boðskap að hvetja og styrkja. Og sannarlega er það nú svo að stjórnendur og starfsfólk í sjávarútveginum hafa sýnt með störfum sínum að þar hefur verið tekið myndarlega á viðfangsefnum eins og tölur um framleiðniaukningu sýna. Auðvitað þurfum við að hafa það í huga að það er ekki aðeins um hagsmuni atvinnugreinar að tefla hér. Við þurfum líka að hafa það í huga að sjávarútvegurinn er að stærstum hluta úti á landsbyggðinni og við erum að tala hér um það jafnvægi sem verður að ríkja í þróun atvinnulífs og byggðar í þessu landi. Ég er ekki þeirrar skoðunar að sjávarútvegurinn eigi að bera bagga byggðastefnunnar, en það er auðvitað höfuðatriði að sjávarútvegurinn búi við þau rekstrarskilyrði þegar vel árar að geta skilað góðum hagnaði og á þann veg einan getum við þróað byggð í landinu með eðlilegum hætti og tryggt afkomu fólksins á landsbyggðinni.
    En við búum við mjög sérstakar aðstæður í dag. Við búum við þær aðstæður að afli hefur minnkað og verð hefur fallið. Við stöndum frammi fyrir þeirri kreppu sem af því hlýst og lausnirnar eru ekkert einfaldar. Jafnvel forustumenn atvinnugreinarinnar sjálfrar hafa ekki barið sér á brjóst og talið sig hafa einfaldar lausnir. En að þessum málum hefur verið unnið og það hefur verið rakið skilmerkilega hér og sæmir ekki hv. þm. stjórnarandstöðunnar sem hér tala að gera lítið úr því sem gert hefur verið á undanförnum mánuðum til að bæta rekstrarstöðuna. Ég hygg a.m.k. að þeir auki ekki hróður sinn innan sjávarútvegsins, hvorki hjá stjórnendum né starfsfólki, að gera lítið úr því sem gert hefur verið. En það dregur ekki úr mikilvægi þess að við þurfum að mæta þessum aðstæðum og við skulum heldur ekki gleyma því sem gert er í þessum efnum við aðstæður eins og við búum við í dag. Það felur í sér tilfærslu. Það felur í sér að við erum að færa til fjármuni í þjóðfélaginu. Við erum að leggja byrðar á alla einstaklinga í þjóðfélaginu til þess að bæta stöðu sjávarútvegsins. Þess vegna kemur það launafólkinu í landinu líka við hvað gert er og það er skinhelgi ein saman að halda hér ræður um að það sé hægt að gera hvort tveggja í senn að bæta kjör fólksins í landinu og bæta afkomu atvinnuveganna. Það er skinhelgi og þeir sem þannig tala eru ekki trúverðugir og það er lítils að vænta af þeim sem þannig flytja mál sitt þegar alvarleg umræðuefni eru á dagskrá eins og það sem við erum að fjalla hér um í dag.