Fríverslunarsamningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Ísraels

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 20:18:52 (8253)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður vék að því að þetta væri að ýmsu leyti sambærilegt, viðskipti við Ísrael og Suður-Afríku, og ég skil hv. ræðumann þannig að hann sé í sjálfu sér ekki andvígur því að við gerum slíkan samning við Ísraela. Hann vill að slíkur samningur sé gerður en að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, eins og hann vildi að viðskiptabanninu við Suður-Afríku yrði aflétt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
    Í fréttunum fyrr í kvöld var sagt að það hefði orðið samkomulag í Suður-Afríku um að kosningar færu þar fram í síðasta lagi í apríl á næsta ári eins og margoft kom fram í ræðu minni og umræðum hér um Suður-Afríkumálið. Þá hefði væntanlega það skilyrði sem hv. ræðumaður setti fyrir því að við afléttum banninu á viðskipti við Suður-Afríku verið komið í framkvæmd núna miðað við þessar kvöldfréttir sem við hlustuðum á.
    Ég vil aðeins spyrja hv. ræðumann hvaða skilyrði það eru sem Ísraelar þurfa að fullnægja svo að unnt sé að mati hv. ræðumanns að gera slíkan samning við Ísrael. Að vísu hefur verið nefnt að í samningnum sé öryggisákvæði en ég skil ræðu hv. þm. þannig að það séu ekki þau í sjálfu sér heldur ástandið og staða Ísraela sem valdi því að hann telur ekki unnt að gera þennan samning núna. Ég vildi aðeins fá að glöggva mig á því hvaða skilyrði það eru sem Ísraelar þurfa að uppfylla svo að hv. ræðumaður geti staðið að slíkum samningi?