Fríverslunarsamningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Ísraels

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 20:20:44 (8254)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er misskilningur hjá þeim ræðumanni sem talaði áðan að ég væri tilbúin til að standa að gerð slíks samnings að fullnægðum vissum skilyrðum. Ég tel pólitískt ekki rétt að gera þennan fríverslunarsamning við Ísrael eins og málum er háttað þar, eins og mannréttindabrotin eru þar og eins og þeir hafa gengið gegn samþykktum Sameinuðu þjóðanna trekk í trekk. Pólitískt tel ég því rangt að gera þennan samning. Hins vegar bendi ég hér á ýmis atriði, nokkra áherslupunkta varðandi viðskiptamál Palestínu sem væri a.m.k. lágmark að reynt yrði að knýja á um áður en ríkjahópar, EFTA og EB, ganga til fríverslunarsamninga við ríki eins og Ísrael. Og þetta varðar þessi atriði sem ég talaði um, að inn- og útflutningur verði gefinn frjáls án milligöngu Ísraelsmanna, að leyfð verði bygging hafnar á Gaza, að Palestínumönnum verði leyft að fjárfesta á herteknu svæðunum, að herteknu svæðin verði losuð úr herkví og að frjáls viðskipti verði leyfð milli t.d. Jerúsalem og annarra hluta Palestínu. Þetta ætti a.m.k. að vera lágmarksskilyrði hjá ríkjum sem hafa þó staðið að ýmsum samþykktum Sameinuðu þjóðanna um ástand mála í Ísrael.
    En varðandi fréttirnar sem þingmaðurinn bar hér inn frá sjónvarpinu eða fréttatímum útvarpsins um kosningar í Suður-Afríku í apríl, þá er það engin ný frétt. Það lá fyrir þegar við ræddum málið hérna að menn vildu stefna á þessar kosningar í apríl. Nú veit ég ekki hvernig orðanna hljóðan var í fréttinni en það segir mér ekkert nýtt. Spurningin er: Er þessi dagsetning komin eða ekki eða eru menn bara að tala um að stefna á apríl? Ef það er bara stefna á apríl þá er það ekkert nýtt.