Fríverslunarsamningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Ísraels

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 20:22:30 (8255)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil þakka hv. ræðumanni fyrir hreinskilin svör. Það er alveg ljóst að ræðumaðurinn er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að gera þennan samning og hann er á móti því almennt að gera slíka samninga við Ísraelsríki yfirleitt og þá er það í sjálfu sér afstaða. Ég er á öndverðum meiði. Ég tel að það sé forsvaranlegt og réttlætanlegt að gera slíka samninga við Ísraelsríki. Þess vegna erum við ósammála um það og mér finnst þá annað aukaatriði sem hv. ræðumaður sagði varðandi einhver skilyrði en ég skil það þá þannig að ræðumaðurinn hv. sé alfarið á móti því að slíkur samningur sé gerður við Ísraelsríki.