Fríverslunarsamningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Ísraels

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 20:23:14 (8256)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég verð nú að lýsa yfir undrun minni á því að formaður utanrmn. skuli telja þetta aukaatriði sem talin voru upp hér. Ef hann vill standa að þessum samningi, ef það er hans skoðun að það eigi að gera slíkan samning og hann vill standa að honum með sómasamlegum hætti og nota slíkan viðskiptasamning til þess að ná fram betra ástandi í slíkum löndum, eins og menn hafa sagt hérna bæði um fríverslunarsamninginn við Tyrkland og þennan, að þetta sé tæki til þess að koma á umbótum í þessum ríkjum, þá ættu þetta ekki að vera nein aukaatriði fyrir honum sem hér voru upp talin. Þetta eru grundvallaratriðin, virðulegur þm.