Fríverslunarsamningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Ísraels

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 20:35:54 (8258)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hefði skilið þessa ræðu ef málið væri þannig að við værum að gera fríverslunarsamning við Palestínumenn en tónninn allur í ræðu þingmannsins og hvernig hann lagði út af þessu hljómaði eins og þessi samningur snerist um fríverslunarsamning við Palestínumenn. Þetta er fríverslunarsamningur við Ísrael og það eru ísraelsk stjórnvöld sem hafa náttúrlega öll ráð í hendi sinni með þetta mál.
    Þingmaðurinn sagði að það væri ekki nýr blettur á okkar sæmd þó við gerðum svona samning. Við hefðum hingað til stundað viðskipti við ýmsar þjóðir sem hafa fótumtroðið mannréttindi og var væntanlega vísað þá til Austur-Evrópu og Sovétríkjanna fyrrum reikna ég með. Það kann vel að vera að það væri ekki nýr blettur á okkar sæmd en það er náttúrlega himinn og haf sem skilur að fríverslunarsamning og svo viðskiptabann. Það er himinn og haf sem skilur þar á milli. Að gera fríverslunarsamning hefur mikla pólitíska þýðingu fyrir þann sem fær samninginn og Ísraelsmenn hafa auðvitað notað samninginn sem þeir hafa haft við Bandaríkjamenn um langt árabil. Það er ekki nýtt að Bandaríkjamenn hafi haft fríverslunarsamning við Ísrael.
    Þingmaðurinn spurði: Hvað er í okkar valdi? Í okkar valdi er að eiga viðskipti, hafa áhrif með því að stofna til viðskipta.
    Ísraelsmenn hafa ekki verið í neinni einangrun, við höfum verið í miklum samskiptum við allar vestrænar þjóðir, við höfum verið í miklum samskiptum við Ísraelsmenn. Ég hef ekki séð að þeir hafi tekið upp neitt betri hætti við það. Hvernig á slíkur samningur að gera það að verkum að þeir taki þá upp betri hætti? Ég vil gjarnan fá einhverja útlistun á því.
    Þá sagði þingmaðurinn að við ættum ekki að troða lífsháttum upp á þjóðir annarra heimsálfa. Mannréttindi eru ekki afstæð. Þau eru ekki bara spurning um lífshætti, þau eru ekki afstæð mannréttindin. Þjóðir heimsins verða að koma sér saman um ákveðin grundvallarmannréttindi sem við gerum kröfu til að allar þjóðir standi við, eigi þess þær nokkurn kost. Það er ekki hægt að bjóða upp á einhverja afstæðishyggju í þeim málum, þá veit ég ekki hvað menn eru að gera í stofnunum eins og í Evrópuráðinu og annars staðar ef það á að vera boðlegt.