Atvinnuleysistryggingar

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 21:23:29 (8266)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Mig langar að segja nokkur almenn orð áður en ég fer út í einstök atriði í því frv. sem hér er til umfjöllunar og brtt. minni hluta heilbr.- og trn. en ég er ein af þeim sem skila minnihlutaáliti úr heilbr.- og trn. og stend að þeim brtt. sem minni hlutinn gerir.
    Ástæðan fyrir því að þetta mál er til umfjöllunar er sú að það er komin upp alveg ný staða í atvinnumálum hér á landi eða ný staða í atvinnuleysi, getum við sagt, hér á landi. Það eru komnir nýir hópar til sögunnar sem hafa þurft að ganga í gegnum atvinnuleysi um lengri og skemmri tíma sem kannski var mjög óvanalegt á árum áður og við þurfum reyndar ekki að fara mjög langt aftur í tímann. Við getum nefnt fólk sem vinnur við verslun, þjónustu og eins ungt fólk. Þessir hópar eru að missa vinnu í æ ríkari mæli og atvinnuleysið er farið að herja allverulega á þessa hópa en eins og við vitum þá hefur alltaf þekkst hér á landi tímabundið atvinnuleysi sérstaklega, þá ekki síst meðal fiskvinnslufólks. Það hefur þó, eins og ég segi, yfirleitt verið tímabundið atvinnuleysi og verið tengt sveiflum í sjávarútvegi og sveiflum í efnahagsmálum almennt. Fyrir utan það að þarna eru komnir nýir hópar inn í atvinnuleysið þá er atvinnuleysi líka farið að gera vart við sig hjá fólki sem hingað til hefur verið mjög ,,stabílt`` eins og maður segir á vinnumarkaði, skiptir ekki oft um vinnu og vinnur kannski lengi hjá sama atvinnurekanda. Þannig kemur fram samkvæmt könnun sem Félagsvísindastofnun Háskólans hefur gert fyrir félmrn. að um 21% þeirra, sem svara í því úrtaki sem var allstórt, höfðu verið lengur en sex ár hjá síðasta atvinnurekanda þannig að þetta er hópur sem er mjög ,,stabíll`` á vinnumarkaði og ég held að það sé í könnuninni, ég er ekki með hana fyrir framan mig, að það sé um 70% fólksins sem hefur verið hjá sama atvinnurekanda í meira en eitt ár.
    Þá er það líka nýtt í þessu máli að atvinnuleysið er orðið langvarandi en 22% þeirra sem svara í þessari könnun hafa verið atvinnulausir lengur en í sex mánuði, lengur en í hálft ár. Tæplega fjórðungur hefur verið atvinnulaus lengur en í sex mánuði. 9% sem svara hafa lent í þessu 16 vikna tímabili, þessu fjögurra mánaða tímabili þar sem fólk er algjörlega án bóta og á ekki annarra kosta völ en að leita til sveitarfélaganna, til félagsmálastofnana eins og í Reykjavík og félagsmálayfirvalda í sínu sveitarfélagi um framfærslu. Fólk sem er vant því að hafa vinnu og hafa næga vinnu og hefur ekki þurft að treysta á aðra en sjálft sig.
    Þeir sem lenda verst út úr þessu atvinnuleysi, kemur fram í þessari könnun, er almennt verkafólk fyrst og fremst, þ.e. fólk sem hefur litla menntun sem kemur verst út úr þessu, að auki er það ungt fólk, það eru konur, það eru öryrkjar og aldraðir. Þarna sjáum við að það er alveg sama munstrið að koma upp hér á landi eins og í öllum löndunum í kringum okkur, það er ungt fólk, konur, fólk með litla menntun, öryrkjar, aldraðir, hinir svokölluðu jaðarhópar sem standa ekki mjög sterkir á vinnumarkaði, eiga ekki mjög ríkan stuðning á vinnumarkaði, þeir detta fyrst út. Þeir sem detta hins vegar síðastir út eru kannski þeir sem eru einmitt í svo miklum fjölda inni á Alþingi, þ.e. kvæntir, vel menntaðir karlar á miðjum aldri. Þeir eru í minnstri hættu að verða atvinnulausir.
    Ég held við hljótum öll að vera sammála um það að atvinnuleysi í okkar samfélagi og auðvitað í öllum samfélögum er algjörlega óþolandi og kannski ekki síst hjá okkur vegna þess að hér á landi er mjög rík hefð fyrir því --- og ég ætla ekki að mæla henni bót í sjálfu sér --- að þú ert það sem þú starfar. Fólk fær ekki sjálfsmynd sína í krafti þess sem það segir eða hugsar eða finnst, heldur fær það sjálfsmynd sína frá starfinu. Það er alltaf spurt: Hvað gerir þú? Þegar síðan ákveðinn hópur fólks er dæmdur til hjásetu í þessu vinnusamfélagi sem hér hefur tíðkast þá eru það mjög grimm örlög og við getum kannski gripið til samanburðar til þess að sjá hversu óþolandi þetta er. Það er jafnóþolandi að vera atvinnulaus eins og það væri að vera húsnæðislaus þar sem aðrir hefðu mjög rúmt húsnæði, eins og það væri að vera allslaus þar sem aðrir búa við allsnægtir. Atvinnuleysi gengur gegn grundvallarsjónarmiðum um jöfnuð, jafnrétti og mannréttindi og hlýtur því, ef það verður viðvarandi eins og margt bendir til og ef það verður eins útbreitt og þegar er orðið og jafnvel enn útbreiddara --- ef við erum komin upp í rúmlega 5% atvinnuleysi --- að vega gegn grundvelli þessa samfélags. Þess vegna er það ekki bara mikilvægt að ræða um atvinnuleysisbætur og löggjöf um atvinnuleysisbætur, heldur er það auðvitað fyrst og fremst mikilvægt að skapa ný störf. Það þarf auðvitað að gera með sértækum aðgerðum en ekki bara með því að skapa atvinnulífinu ramma eins og ríkisstjórnin hefur alltaf hamrað á.
    Virðulegur forseti. Ég vil nú segja það að ég sakna þess að hér skuli ekki sitja í salnum formaður heilbr.- og trn. Mér finnst það ekki vera ofverkið hans að sitja og hlusta á þegar minni hlutinn í nefndinni er að flytja sitt mál hér og vil ég nú bíða eftir því að hann verði kallaður í salinn.
    Eins og ég segi, það er mikilægast að skapa störf en við þurfum samt að tala um löggjöfina og þessi löggjöf sem við búum við í dag, þessi atvinnuleysislöggjöf, er auðvitað afurð samfélags þar sem var næg vinna, þar sem atvinnuleysi kom fyrst og fremst fram í tímabundnum verkefnaskorti, tímabundnu atvinnuleysi og það er kannski þess vegna sem þessi löggjöf okkar eins og hún er í dag er svo uppfull af refsingum, hún er svo refsiglöð. Það er fleira heldur en refsigleði sem einkennir hana. Hún er líka mjög takmörkuð og nær til mjög takmarkaðs hóps fólks, með öðrum orðum eingöngu til þeirra sem hafa haft hefðbundna stöðu launþega. Þess vegna er einmitt mjög mikilvægt að draga úr refsingunum, að taka fleiri hópa inn. Það þarf að taka tillit til aðstæðna fólks sem er mjög lítið gert hvort heldur er í löggjöfinni eða framkvæmd þessarar löggjafar, þá er ég ekki síst að tala um fjölskyldurnar, og það þarf að milda kröfur um skráningu fólks hjá vinnumiðlun og fella niður biðtímann, þennan 16 vikna biðtíma. En þegar ég tala um að milda kröfur um skráningu, þær eru mjög afgerandi í dag og ég bar fram fyrirspurn einmitt um túlkun á því ákvæði löggjafarinnar sem varðar skráningu, þá segir í löggjöfinni í dag, að atvinnulaus skuli skrá sig vikulega og það er túlkað þannig í dag af úthlutunarnefndum og stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs að ef einstaklingur kemur á þriðjudegi í fyrsta sinn og skráir sig atvinnulausan þá verður hann að koma í næstu viku eigi síðar en á þriðjudegi. Hann má ekki koma á miðvikudegi. Ef hann kemur á miðvikudegi þá missir hann bótaréttinn. Þetta eru auðvitað mjög stífar kröfur, ekki síst þegar þess er gætt að það skiptir afskaplega litlu máli fyrir hinn atvinnulausa, hvort það er mánudagur, þriðjudagur eða miðvikudagur. Nú eru allir dagar meira og minna eins og það skiptir kannski ekki svo miklu máli að fylgjast með þessu. Aðalatriðið er auðvitað að ef menn vilja halda fast í skráninguna að þeir komi einu sinni í hverri viku en ekki endilega vikulega, þ.e. á sama vikudegi og síðast. Þetta er gert til þess að ganga úr skugga um það og hafa það nú skýrt og skorinort að þessi tiltekni aðili sé í atvinnuleit vegna þess að hann á að koma á vinnumiðlunarskrifstofu og skrá sig í atvinnuleit. En þá veltir maður því fyrir sér hvaða tilgangi þjóna svo þessar vinnumiðlunarskrifstofur, þessi skráning. Fær fólk vinnu í gegnum þessa skráningu? Það kemur í ljós þegar þessi könnun er skoðuð sem ég var að vitna til hér til áðan að af þeim sem spurðir voru og voru komnir aftur í störf eftir atvinnuleysi höfðu aðeins 8,2% fengið vinnu í gegnum opinbera atvinnumiðlun. Og reyndar er rétt að taka líka til einkaatvinnumiðlanir vegna þess að aðeins 0,6% höfðu fengið vinnu í gegnum einkaatvinnumiðlun. Hinir höfðu annaðhvort komist aftur í sömu vinnu og þeir voru í og það á kannski ekki síst við um fiskverkunarfólk sem hefur þá verið í tímabundu atvinnuleysi eða menn höfðu orðið sér úti um vinnu í gegnum persónulegan kunningsskap, eftir auglýsingu í blaði eða farið sjálfir af stað og orðið sér úti um vinnu. Til hvers eru nú þessar stífu kröfur um að fólk mæti og skrái sig vikulega ef fólkið veit sjálft að það muni ekki fá neina vinnu í gegnum þessa miðlun, þá er þetta auðvitað eins og hver annar hégómi. (Gripið fram í.) Það er greinilega kominn föstudagur í þingflokksformann Alþfl. Það er vonandi að hann haldi nú út hérna aðeins lengur.

    Ég var að tala um að milda kröfur um skráningu. Það er annað sem er mjög mikilvægt og hefur reyndar verið gert að nokkru umtalsefni hér og það er að fella niður þennan biðtíma, 16 vikna biðtíma sem er auðvitað ekki annað en það að í stað þess að fólk fái bætur í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð, þá er verið að vísa því yfir á framfærslu sveitarfélaganna. Hvert leitar fólk sem er komið á 16 vikna biðtímann og fær ekki atvinnuleysistryggingabætur? Það leitar auðvitað til félagsmálastofnana og félagsmálayfirvalda og það má nefna athyglisverðar tölur í Reykjavík, bæði fyrir janúar, febrúar og mars, þar sem einmitt kemur fram að rúm 40% af þeim sem leituðu til Félagsmálastofnunar eftir fjárhagsaðstoð voru atvinnulausir, þannig að ekki getur fólk lifað á loftinu. Það þarf einhvers staðar að reyna að verða sér úti um framfærslu og það er í rauninni bara verið að flytja vandann frá Atvinnuleysistryggingasjóðnum og yfir til sveitarfélaganna.
    Ég talaði um að það þyrfti að taka fleiri hópa inn og þá komum við einmitt að 1. gr. þessa frv. þar sem gert er ráð fyrir að sjálfstætt starfandi sem hafa hætt eigin atvinnurekstri skuli fá bætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði og þá eftir tilteknum reglum. Þetta er nú mjög óljóst hvað átt er við varðandi þá sem eru hættir eigin atvinnurekstri og vantar í raun og veru algerlega skilgreiningu á því vegna þess að talsverður hópur fólks hefur verið í einhvers konar verktakastarfsemi hjá fyrirtækjum, unnið sem verktakar, skilar sjálft tryggingagjöldum og öðru slíku. Það leggur náttúrlega ekkert niður eða hættir ekki eigin atvinnurekstri þó að það lendi kannski í langvarandi verkefnaskorti og hafi ekki tekjur tímunum saman, þá getur það kannski illa sýnt að það sé hætt atvinnurekstri með formlegum hætti þannig að þetta þarf að skilgreina einhvern veginn og það þyrfti að skilgreina það í lögum þannig að fólk vissi þá út frá hverju það ætti að ganga.
    Þá tel ég mjög mikilvægt að taka námsmenn með vegna þess að fólk sem hefur lokið námi, menntað sig í tilteknum greinum jafnvel með starfsmenntun, þegar það kemur út úr skóla er það orðið þannig að það er mjög erfitt að fá vinnu og auðvitað þarf þetta fólk á framfærslu að halda eins og aðrir og engin ástæða til annars en að það öðlist þarna aðgang. Í því sambandi er rétt að benda á tryggingagjaldið. Hluti af tryggingagjaldi sem atvinnurekendur greiða er til Atvinnuleysistryggingasjóðs eða 0,15% af gjaldstofninum sem eru þá tekjurnar. Ef við tökum sjálfstætt starfandi einstakling sem reiknar sér endurgjald eins og gert er í dag, þá reiknar hann sér endurgjald kannski 80 þús. kr. á mánuði, það er launaliðurinn, 80 þús. kr. á mánuði. Af þessu borgar hann 0,15% til Atvinnuleysistryggingasjóðs eða kannski svona 1.200--1.500 kr. á ári. Í gegnum þessa greiðslu, 1.200--1.500 kr. greiðslu, öðlast hann svo tiltekinn rétt til atvinnuleysisbóta. Ég gæti nú vel ímyndað mér að ýmsir foreldrar eða námsmenn mundu greiða þetta til þess að fá þennan aðgang að sjóðnum af því að það eru ekki stórar upphæðir sem þarna er um að ræða sem þessir einstaklingar greiða og þetta kemur auðvitað fyrst og fremst úr ríkissjóði, framlagið í Atvinnuleysistryggingasjóð, að stærstum hluta til og engin ástæða til þess að vera að halda einhverjum tilteknum hópum utan þessa sjóðs. Auðvitað ætti 1. gr. að vera þannig að ef fólk er launþegar og hefur misst vinnuna og þá ætti það að koma strax inn á bætur en auðvitað ættu allir aðrir eftir tiltekinn tíma þar sem þeir eru sannanlega í atvinnuleit að komast þarna inn. Þetta held ég að sé m.a. mjög mikilvægt fyrir konur því að konur sem eru að koma út á vinnumarkað aftur eiga engan rétt á atvinnuleysisbótum jafnvel þó að þær séu atvinnulausar í raun, séu að leita sér að vinnu og fái hana ekki, þá eiga þær ekki innkomu þarna af því að þær hafa ekki greitt þetta tryggingagjald sem er eins og ég segi smáaurar í rauninni.
    Bændur eru hópur sem hlýtur að koma þarna líka til skoðunar, en það verður auðvitað að segjast alveg eins og er og viðurkennast að það er mjög erfitt mál í framkvæmd að taka á þeim hlutum. Nú hafa ýmsir bændur þurft að minnka verulega við sig, selja fullvirðisrétt og skera niður hjá sér, en þegar þeir hafa minnkað við sig, selt fullvirðisrétt, þá hefur verið ákveðinn launaliður inni í því og hann gildir kannski til ákveðinna ára þannig að í rauninni yrðu þeir búnir að skapa sér ákveðnar tekjur þar í gegn svo að það er flókið að taka á þessu máli. Þess vegna leggur minni hlutinn til að staða bænda verði sérstaklega skoðuð og bendum á það í sambandi við endurskoðunarákvæði sem við erum með þarna inni.
    Þá vil ég nefna læknisvottorð. Þannig hefur það verið að ef fólk fær vinnutilboð frá atvinnumiðlun og getur ekki heilsu sinnar vegna tekið þeirri vinnu sem til boða stendur og skilar um það læknisvottorði, þá hefur það verið tekið gilt. Nú á að fella þetta út og læknisvottorð eru sem sagt ekki tekin gild lengur. Þetta hlýtur auðvitað að vera eins og hver önnur vantraustsyfirlýsing á lækna landsins ef þeim er ekki treystandi til þess að gefa rétt vottorð. Ef þetta er ekki vantraustsyfirlýsing á lækna landsins, þá er þetta bara einfaldlega þannig að úthlutunarnefndir ætla að meta það sjálfar og ákveða það hvort tiltekinn einstaklingur sé heilsufarslega fær um að sinna tiltekinni vinnu eða ekki. Og það er þá bara geðþóttaákvörðun í hvert eitt sinn og getur kannski í litlum bæjarfélögum m.a. farið eftir því hversu vel mönnum nú líkar við hinn eða þennan aðilann sem fær vinnutilboðið.
    Þá vil ég benda á varðandi 10. gr. frv. þar sem lagt er til að ef atvinnulaus einstaklingur tekur námskeið í tiltekinn tíma, þá geti biðtíminn, þessi 16 vikna biðtími fallið niður, þ.e. ef hann tekur 8 vikna námskeið á hverju atvinnuleysistímabili. Þetta hljómar ekkert illa og virkar sem ákveðinn hvati á fólk að fara í endurmenntun og starfsmenntun, en hins vegar er þetta ýmsum annmörkum háð því að eins og segir hér í greininni: ,,Gefa skal atvinnulausum kost á að sækja endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeið eða taka þátt í átaksverkefnum í a.m.k. 8 vikur á hverju bótatímabili. Sinni hinn atvinnulausi ekki slíkum tilboðum fellur hann af bótum að loknu hverju bótatímabili í 16 vikur.`` Og þá vaknar auðvitað sú spurning, hver á að gefa honum kost á að sækja endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeið? Ef hann ekki finnur nú námskeið og enginn býður honum námskeið sem hann telur við hæfi, hvað þá? Hvað ef einungis bjóðast námskeið á daginn en það væri heppilegra fyrir þennan aðila að taka námskeið á kvöldin?
    Nú ætla ég að koma inn á fjölskylduaðstæðurnar og börnin vegna þess að mér finnst það mjög grimmilegt að túlka lögin þannig að ef kona, og ég segi kona vegna þess að það er staðreyndin að það eru konurnar sem hugsa um börnin, sem hefur verið í vinnu og haft barnið sitt t.d. í daggæslu hjá dagmóður missir vinnuna og til þess að komast nú af og spara tugi þúsunda, þá hættir hún að vera með barnið sitt hjá dagmóður. Þá er það túlkað þannig í ákveðnum tilvikum, ef úthlutunarnefndin kemst að því, annaðhvort í gegnum vinnutilboð eða vegna þess að hún getur ekki farið á námskeið, að hún standi ekki til reiðu á vinnumarkaðinum vegna þess að hún sé heima yfir börnunum, hún sé bundin yfir börnunum og hún standi ekki til reiðu á vinnumarkað að það varðar missi bóta. Þessar túlkanir hafa komið upp og það gæti mjög vel komið upp einmitt í kringum þessi námskeið. Það gæti verið heppilegra fyrir slíka konu að sækja námskeið á kvöldin og þó að hún sé ekki með dagmóður, þá gæti hún vel haft það einhvers staðar í bakhöndinni, að hún gæti fljótlega fengið pláss hjá þessari sömu dagmóður aftur eða þá hún getur haft einhverja ættingja í bakhöndinni sem hún getur þá leitað til ef vinna býðst. Og þetta er mjög grimmileg túlkun, finnst mér, gagnvart fólki, sérstaklega í okkar samfélagi í dag vegna þess að ódýr dagvistarpláss bjóðast einfaldlega ekki nema tiltölulega takmörkuðum hópi fólks. Það liggur nánast í augum uppi að ef foreldrar eru með barn í dagvistun, einkadagvistun hjá dagmóður og borga fyrir það kannski upp undir 30 þús. kr. á mánuði, þá liggur það nánast í augum uppi að þeir láta verða sitt fyrsta verk að spara þann kostnað fyrst þeir eru heima og atvinnulausir. En þetta held ég að geti eftir sem áður unnið mjög gegn konum, þetta með námskeiðin, ef þessi námskeið bjóðast ekki á tímum sem þeim henta.
    Þá vil ég benda á eitt tiltekið atriði sem er inni í 12. gr. frv. þar sem er kveðið á um það að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs skuli ákveða með hvaða hætti skuli úthluta til bótaþega sem ekki eru í stéttarfélagi og sjálfstætt starfandi. Nú er það þannig að í hverju stéttarfélagi er yfirleitt úthlutunarnefnd sem úthlutar til félagsmanna í þessu tiltekna félagi eða félagssvæði og stéttarfélögin eiga aðild að þessum úthlutunarnefndum og eru meira að segja með meiri hluta í þessum úthlutunarnefndum. En varðandi hina sjálfstætt starfandi, þá er ekkert um það í þessu frv. hvernig með þá skuli fara, hvernig úthlutunarnefndir skulu starfa og hvort þeir eigi einhverja aðild og þá með hvaða hætti að slíkum úthlutunarnefndum. En ég held að það sé mjög mikilvægt að koma því a.m.k. þannig fyrir að það sé ekki stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs sem úthluti þessu fólki. Það má ekki verða stjórn sjóðsins vegna þess að ef það er stjórn sjóðsins, þá er eini áfrýjunaraðilinn sem þetta fólk getur leitað til ráðherra og þá er ráðherra í rauninni kominn með einstaklingsmál inn á sitt borð, hvort einn eigi að fá atvinnuleysisbætur en ekki annar og það má ekki gerast að það fari þannig.
    Um elli- og örorkulífeyrisþega hefur verið rætt hérna af frsm. minni hlutans og það óréttlæti sem felst í 11. gr. frv. þar sem atvinnuleysisbætur eiga að skerðast ef einstaklingur fær ellilífeyri eða örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Frsm. og formaður heilbr.- og trn. hélt því fram að brtt. sem meiri hlutinn gerði væri til þess að fullnægja réttlæti og mundi bæta þessi mál verulega. Hún breytir þó ekki því, virðulegi formaður, að ef öryrki sem hefur örorkustyrk, missir vinnuna og fer á atvinnuleysisbætur, þá skerðast atvinnuleysisbætur hans um hverja einustu krónu sem hann fær í örorkustyrk og það var bent á það, að þegar örorkustyrkurinn er svona 8--10 þús. kr. sem þýðir þá það að atvinnuleysisbæturnar skerðast um þessa upphæð, krónu fyrir krónu, og það er auðvitað ekkert réttlæti í því vegna þess að örorkustyrkur á fyrst og fremst að vera vegna aukins kostnaðar hins fatlaða. Hann hefur aukinn kostnað af því að vera öryrki, vera fatlaður rétt eins og fólk hefur aukinn kostnað af því að eiga börn og það fær barnabætur og barnabótaauka og það skerðir ekki atvinnuleysisbæturnar t.d. eða barnalífeyrinn.
    Þessi hópur er líka sérstaklega útmetinn vegna þess að það er hlutfallslega meira atvinnuleysi hjá þessum hópi en mörgum öðrum og þessi hópur á líka erfiðara með að fá vinnu heldur en ýmsir aðrir og það þekkja þeir kannski best sem hafa starfað á vinnumiðlunarskrifstofum hve erfitt er að fá vinnu fyrir þetta fólk.
    Ég reikna með og hef svo sem heyrt þau rök að þetta sé eitthvert réttlætissjónarmið, að það sé ekki réttlátt að einhverjir fái meira úr opinberum sjóðum en aðrir, en ég fæ ekki séð hvernig það getur verið réttlátt að atvinnuleysisbætur eigi að hafa meiri áhrif á elli- og örorkulífeyri en atvinnutekjur. Af hverju eiga atvinnuleysisbætur að hafa meiri áhrif til skerðingar en atvinnutekjur? Reyndar er það gert öfugt, þ.e. örorkulífeyririnn og ellilífeyririnn eru látnir skerða atvinnuleysisbæturnar. En þetta frv., vil ég segja, er til bóta þó að það séu miklum annmörkum háð og auðvitað viljum við reyna að bæta úr því og flytjum því þessar brtt. sem hér hafa verið kynntar rækilega.
    Áður en ég fer héðan úr pontu vil ég hins vegar benda á eitt tiltekið atriði og spyrja reyndar út í það af því að mér láðist það í nefnd, en eins og þingmenn sjá kannski, þá er 39. mál á dagskránni í dag breytingar á ýmsu lögum í heilbrigðis- og tryggingamálum sem varða EES og m.a. er ein af þeim breytingum sem þar eru lagðar til breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 96/1990, með síðari breytingum. Inni í þessu frv., þessum bandormi sem menn kalla sem svo, í heilbrigðis- og tryggingamálum, er verið að gera tillögu til breytinga á þeim lögum sem við erum líka að tala um hér núna og erum að fjalla um breytingar á þannig að við erum í raun og veru á dagskránni hér í kvöld tvö aðskilin frumvörp sem

breyta lögunum um atvinnuleysistryggingar. Og það sem meira er, að í þessu frv. sem er inni í þessum bandormi vegna EES, er gert ráð fyrir því að 2. tölul. 1. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar orðist svo að þeir skuli öðlast bætur sem dvelja hér á landi eða eru í atvinnuleit í EES-landi. Þ.e. Íslendingur sem er atvinnulaus á rétt á því samkvæmt EES-samningnum að fara út til Danmerkur, Portúgals eða Austurríkis eða hvert sem hann vill fara og fá greiddar bætur þar og síðan á skrifstofan í viðkomandi landi að rukka Atvinnuleysistryggingasjóð hér. Þetta er réttur hans, þetta er grundvallarréttur samkvæmt EES-samningnum. Ég sé ekki að þetta sé neitt tengt saman, þessi tvö frv. Þá er líka sagt í þessum bandormi að Atvinnuleysistryggingasjóði sé heimilt fyrir hönd þar til bærrar stofnunar í EES-landi að greiða ríkisborgara í EES-ríki, sem kemur hingað í atvinnuleit, atvinnuleysisbætur enda endurgreiðir sú stofnun sjóðnum þær fjárhæðir sem þannig eru reiddar af hendi. Ef t.d. atvinnulaus Dani kemur hingað til lands þá á hann að geta fengið atvinnuleysisbæturnar sínar greiddar út hjá Atvinnuleysistryggingasjóði hér og Atvinnuleysistryggingasjóður hér á síðan að rukka þann danska. Þetta er líka grundvallarréttur samkvæmt EES og ég vil fá að vita hvernig þetta tvennt á að tengjast saman.