Atvinnuleysistryggingar

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 21:51:33 (8267)

     Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Sigbjörn Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég vildi sérstaklega minnast á í ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.
    Það er í fyrsta lagi varðandi þau ákvæði í 10. gr. þar sem segir að gefa skuli atvinnulausum kost á að sækja endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeið. Ég hygg að það hafi komið fram við meðferð málsins í nefndinni að ekki léki á því vafi að þar sem segir ,,gefa skal`` að það er Atvinnuleysistryggingasjóður eða úthlutunarnefndirnar á hans vegum sem eiga að sjá til þess að námskeið séu haldin eða viðurkenna námskeið sem kunna að vera haldin í þessum efnum.
    Hvað varðar bandorminn títtnefnda þá er alsiða að erfitt er að átta sig á því þegar mál koma hingað til þings í hvaða röð þau munu verða að lögum en til þess hlýtur auðvitað að verða vitnað eftir þeim reglum sem alsiða er á þingi. Hins vegar vænti ég þess að bandormurinn komi til umræðu á morgun og þá verði tekið á því í þeirri tímaröð sem um ræðir.