Atvinnuleysistryggingar

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 21:56:33 (8271)

     Margrét Frímannsdóttir :

    Virðulegi forseti. Hv. þm. Finnur Ingólfsson hefur gert grein fyrir nál. og þeim brtt. sem minni hluti heilbr.- og trn. leggur fram og við í minni hlutanum stöndum öll að. En þingmenn Alþb. hafa áður lagt fram frv. til laga um réttindi þeirra sem ekki hafa atvinnu. Þar var eins og í frv. því sem hér er til umræðu byggt á gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar en einnig lagðar til breytingar á lögum um atvinnumiðlun og vinnumarkaðsmál. Helstu breytingar sem frv. okkar alþýðubandalagsmanna felur í sér eru í fyrsta lagi að allir hafi rétt á atvinnuleysisbótum enda hafi viðkomandi verið atvinnulaus í 4 vikur. Það frv. sem hér er verið að ræða, frv. hæstv. heilbrrh., opnar vissulega aðeins það kerfi sem við búum við en þó eru ákveðnir hópar þjóðfélagsþegna jafnréttlausir þar og áður, t.d. námsmenn. Minni hluti heilbr.- og trn. tekur hins vegar á því í þeim brtt. sem við leggjum fram og vonandi verða samþykktar hér.
    Frv. Alþb. gerði ráð fyrir að biðtími án bótagreiðslna milli bótatímabila félli niður. Minni hluti heilbr.- og trn. gerir einnig þá tillögu. Þar með eru ekki lengur tímamörk á því hversu lengi einstaklingurinn getur fengið atvinnuleysisbætur. Í ljósi þess atvinnuástands sem við búum nú við og erfiðrar fjárhagsstöðu margra fjölskyldna í landinu þykir okkur eðlilegt að biðtími án bóta verði felldur niður.
     Í frv. hæstv. heilbr.- og trmrh. er vissulega gert ráð fyrir að hægt sé að stytta þennan biðtíma með því að sækja námskeið sem atvinnulausum eiga að standa til boða en alls ekki er ljóst hver á að sjá um slík námskeið eða með hvaða hætti á að tryggja að þar sitji allir við sama borð, hvar sem þeir eru búsettir á landinu.
    Þá er í frv. Alþb. lagt til að Atvinnuleysistryggingasjóður verði sjálfstæð stofnun. Við teljum að í ljósi þess hve atvinnuleysið er orðið víðtækt þá sé nauðsynlegt að sjálfstæð stofnun fjalli um málið. Auk þess er í frv. okkar lagt til að atvinnuleysistryggingar verði fluttar frá trmrn. til félmrn. og sú tillaga er í raun tekin upp í tillögum meiri hluta heilbr.- og trn. en þar eru allar vísanir frv. á heilbr.- og trmrh. teknar burt.
    Eins og fram kom í ræðu hv. frsm. meiri hlutans áðan þá er þetta gert vegna þess að almennur vilji og samstaða er um að færa þennan málaflokk til hæstv. félmrh., jafnvel um næstu áramót. Því er sjálfsagt að styðja þessar orðalagsbreytingar meiri hluta nefndarinnar.
    Í frv. Alþb. er lagt til að bætur fyrir hvert barn á framfæri umsækjanda verði 12% af kauptaxta í stað 4% nú. Í tillögum okkar í minni hluta heilbr.- og trn. er lagt til að þetta hlutfall verði 8%.
    Í gildandi lögum missir hinn atvinnulausi rétt til bóta ef hann er veikur og kemst ekki til að skrá sig. Í tillögum Alþb. er miðað við að hann haldi bótarétti þar til hann kemst á bætur samkvæmt kjarasamningi eða öðrum lögum. Jafnframt er í þeim tillögum lagt til að það sé hlutverk stjórnar atvinnuleysistrygginga að tryggja að viðkomandi njóti réttar síns annars staðar áður en hann er strikaður út af atvinnuleysisskrá.
    Í brtt. minni hluta nefndarinnar er einnig lagt til að umsækjandi haldi bótarétti sínum þó hann komist ekki til skráningar sökum veikinda enda séu veikindi sönnuð með læknisvottorði. Um slíkt er ekki að ræða í frv. hæstv. heilbrrh. og ekki í brtt. meiri hluta nefndarinnar.
    Þá lögðum við alþýðubandalagsmenn til í frv. okkar að sá sem hefur nám eða tekur þátt í viðurkenndri starfsþjálfun á atvinnuleysistíma geti haldið bótum í allt að sex mánuði í stað sex vikna nú. Að sex mánuðum loknum væri stjórn sjóðsins heimilt að breyta stuðningnum í lán þannig að viðkomandi verði í svipaðri stöðu og þeir sem fá lán úr Lánasjóði ísl. námsmanna.
    Þá lögðum við til að heimilt yrði að breyta útreikningi, skráningu og útborgunarkerfi atvinnuleysistrygginga frá því sem er í dag. Núverandi kerfi er mjög þungt í vöfum og umsækjendum um bótagreiðslu fjandsamlegt og fráhrindandi.
    Þá er í frv. Alþb. um réttindi þeirra sem ekki hafa atvinnu lagðar til verulegar breytingar á gildandi lögum um vinnumiðlun og á lögum um vinnumálaskrifstofu félmrn. Þá gerðum við ráð fyrir að þegar í stað hæfist samræmd heildarendurskoðun á lögum um atvinnuleysistryggingar, vinnumiðlun og vinnumálaskrifstofu og að þeirri endurskoðun lyki fyrir árslok 1994. Þá teljum við nauðsynlegt að fara yfir allt sviðið varðandi réttarstöðu þeirra sem ekki hafa atvinnu t.d. hvað varðar sérstakar húsnæðis- og vaxtabætur. Húsnæðismál þessa hóps sem verður með degi hverjum fjölmennari, verður að taka til sérstakrar endurskoðunar. Það blasir við mörgum þeirra að missa húsnæði sitt vegna greiðsluerfiðleika.
    Það vakti vissulega vonir þessa fólks þegar tveir stjórnarliða á Alþingi, þeir hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson, formaður heilbr.- og trn., fluttu sérstakar tillögur til úrbóta fyrir þá sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Sú tillaga kemur þó líklega ekki til afgreiðslu á Alþingi þrátt fyrir að margir hv. þm. hafi kallað eftir þeirri umræðu og afgreiðslu. Ég er farin að efast um að einhver alvara hafi fylgt þessum tillöguflutningi þessara tveggja hv. jafnaðarmanna, líklega aðeins verið fyrir fjölmiðlana.
    Það frv. sem hæstv. heilbrh.- og trmrh. flytur og hér er rætt er ekki niðurstaða heildarendurskoðunar eins og þeirrar sem við alþýðubandalagsmenn lögðum til að færi fram. Frv. bætir þó úr nokkrum verstu göllum gildandi laga.
    Hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson sagði áðan að frv. fæli í sér gífurlegar réttarbætur fyrir þá atvinnulausu. Ég held að rétt sé að kalla hlutina sínum réttu nöfnum, þarna eru vissulega nokkrar úrbætur fyrir ákveðinn hóp þjóðfélagsþegna en ansi margir sem verða út undan. Það hefði mátt gera mun betur með því að tryggja rétt allra atvinnulausra til atvinnuleysisbóta. Sárast er þó að sjá að námsmenn eru enn úti og því vonast ég til að brtt. minni hluta heilbr.- og trn. þar sem námsmönnum sem hafa lokið námi eða hafa af

einhverjum ástæðum neyðst til að hætta námi verði tryggður réttur til atvinnuleysisbóta.
    Þá getum við í minni hluta nefndarinnar ekki fallist á þá breytingu sem 11. gr. frv. felur í sér, þar sem gert er ráð fyrir sérstakri skerðingu á bótagreiðslum til elli- og örorkulífeyrisþega og það breytist ekki með brtt. meiri hluta nefndarinnar. Eftir þeim upplýsingum sem við höfum geta þessi skerðingarákvæði 11. gr. haft í för með sér allt að 10 þús. kr. tekjutap þessara hópa á mánuði eins og fram kemur í umsögn Öryrkjabandalags Íslands sem það sendi heilbr.- og trn. um frv. en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í 11. gr. frv. er fjallað um greiðslur til bótaþega lífeyristrygginga. Þar er lagt til að ný málsgrein komi inn í lögin. ,,Nú nýtur bótaþegi bóta úr lífeyristryggingum almannatrygginga og skulu þá bætur hans dragast frá greiðslu atvinnuleysistrygginga þannig að samanlagðar greiðslur lífeyristrygginga almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga, nemi aldrei hærri fjárhæð en hámarksdagpeningum atvinnuleysistrygginga.``
    Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. kemur fram að gert er ráð fyrir að bætur til lífeyrisþega skerðist um 10 þús. kr. á mánuði og er það reiknað til beins sparnaðar í útgjöldum ríkisins. Samkvæmt ákvæðum 11. gr. frv., sem vitnað er til hér að framan, er gert ráð fyrir að bætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði skerðist sem nemi grunnlífeyri almannatrygginga. Með þeim hætti er í raun verið að hegna þeim öryrkjum sem stundað hafa atvinnu þar sem þeir fá í engu notið þeirra réttinda sem þeir hafa eðli málsins samkvæmt tryggt sér sem launþegar. Það hlýtur að teljast sanngjarnt að grunnlífeyrir almannatrygginga verði undanskilinn þeirri reikningsreglu sem fram kemur í frv.
    Öryrkjabandalag Íslands hefur áður mótmælt þeirri tekjutengingu grunnlífeyris sem tekin var upp á sl. ári, þau mótmæli skulu enn ítrekuð.``
    Í umsögn fjárlagadeildar fjmrn. segir m.a.: ,,Ýmsar aðrar breytingar eru gerðar til að minnka útgjöld. Í fyrsta lagi má þar nefna að þeir sem eru 70 ára og eldri njóta ekki lengur bóta en fjöldi þeirra var 28 árið 1991, 48 árið 1992 og 47 í lok febrúar 1993. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands gæti árlegur sparnaður numið um 20 millj. kr. Í öðru lagi á að takmarka greiðslur bóta til þeirra sem fá greiðslur frá lífeyristryggingadeild. Ef miðað er við að fjöldi atvinnulausra á aldrinum 67--70 ára sé 230 og að bætur til hvers þeirra lækki um 10 þús. kr. á mánuði er heildarsparnaður um 30 millj. kr. á ári. Ekki eru til tölur um fjölda öryrkja en líklega er hann ekki mikill og sparnaður því óverulegur.``
    Það er ólíklegt að fjárlagadeild fjmrn. hafi haft þarna annað til hliðsjónar heldur en grunnlífeyri. Þessi brtt. sem meiri hluti nefndarinnar flytur hér breytir því engu um þessa niðurstöðu sem fjárlagadeild fjmrn. kynnir í umsögn sinni.
    Eins og fram kom í ræðu frsm. minni hlutans fá þeir sem hafa börn yngri en 18 ára á framfæri sínu eða greiða með þeim meðlag 4% af hámarksdagpeningum þ.e. 85 kr. á dag, rétt rúmlega fyrir einum lítra af mjólk. Hækkun sú sem við minni hlutinn leggjum til er ekki mikil, við leggjum til að þessi upphæð verði 170 kr. á dag eða fyrir um tveimur og hálfum lítra af mjólk. Ekki mikil hækkun en til bóta samt, sérstaklega með tilliti til þess að meðlagsgreiðslur voru hækkaðar verulega um áramót. Ekki hefði verið óeðlilegt að í frv. hæstv. ráðherra hefði verið tekið tillit til þess en svo er ekki og lengi höfðum við vonir um að meiri hluti nefndarinnar mundi e.t.v. gera það en það varð ekki heldur.
    Það er reyndar eins og allt annað. Þetta er skerðing á skerðingu ofan. Oftar en ekki bitnar það á þeim sem minnst hafa. Tillögur minni hluta nefndarinnar miða að því að draga úr eða afnema þau skerðingarákvæði sem þetta frv. felur í sér og snerta þennan hóp þjóðfélagsþegna.
    Þá leggjum við til að þeir sem hafa afplánað refsivist í 12 mánuði eða meira eigi að afplánun lokinni fullan rétt til atvinnuleysisbóta.
    Það var alveg rétt sem fram kom hjá hv. formanni heilbr.- og trn. og frsm. meiri hluta að í gildandi lögum er það svo að fangi getur geymt áunninn bótarétt í allt að 24 mánuði á meðan á refsivist stendur. Þetta hafa nokkrir einstaklingar vissulega getað nýtt sér. Hins vegar er það svo að margir afbrotamenn hafa lifað ákaflega rótlausu lífi --- og nú óska ég eftir að hv. formaður nefndarinnar hlusti og ég ætla að endurtaka þetta. Það er ljóst að mjög margir afbrotamenn hafa lifað ákaflega rótlausu lífi og haft stopula vinnu eða enga, áður en til refsivistar kemur. Uppsafnaður réttur þeirra til bóta er því enginn. Svo eru þeir sem fá lengri dóm en til tveggja ára. Þegar þeir hafa afplánað refsingu sína eiga þeir engan rétt til atvinnuleysisbóta. Það er oft og tíðum svo að erfitt reynist þeim sem afplánað hefur refsivist innan veggja fangelsis að fá vinnu þegar út kemur. Þetta þjóðfélag okkar er ekki sérlega vinsamlegt þessum hópi þegna sinn og oft og tíðum finnst mér að þó refsivist eða annarri refsingu sem ákveðin er af dómurum sé lokið og afbrotamaðurinn hafi tekið út þá refsingu sem honum var ákveðin fyrir þann verknað sem hann framdi, þá höldum við áfram að refsa viðkomandi með hegðun okkar, viðmóti og ákvörðunum. Þetta er slæmt og auðveldar ekki einstaklingum að hefja nýtt og betra líf án afbrota.
    Ég nefndi áðan að það er ekki auðvelt fyrir þann sem hefur afplánað refsivist um lengri eða skemmri tíma að fá vinnu og það má reikna með að á tímum vaxandi atvinnuleysis verði það enn erfiðara. Okkur ber að sjá til þess að sá sem situr í fangelsi hafi möguleika til vinnu eða náms. Því verður því miður ekki við komið í öllum fangelsum landsins en þó hefur ástandið batnað á síðustu árum. Margir refsivistarfangar stunda því vinnu innan veggja fangelsis á meðan á afplánun stendur en þessi vinna er ekki metin þegar ákveðinn er réttur til atvinnuleysisbóta. Þá gætu atvinnuleysisbætur hjálpað verulega þeim sem lokið hefur refsivist til að fóta sig aftur í samfélaginu og jafnvel forðað því að viðkomandi lendi aftur á braut afbrota.

    Ég beini því til hv. þm. að greiða atkvæði með brtt. minni hluta heilbr.- og trn. í þessum efnum.
    Frv. hæstv. ráðherra er á margan hátt meingallað. Það er merkilegt þegar hugsað er til allra þeirra stóru orða sem hann hafði um frv. okkar alþýðubandalagsmanna og væri vel þess virði að ræða það við hæstv. ráðherra sjálfan því það er ekki hægt að ætlast til þess að hv. fylgismenn hans hér beri ábyrgð á þeim hástemmdu yfirlýsingum sem hann lét frá sér fara en hann er því miður ekki staddur hér í kvöld. Eins og ég sagði áðan þá er ansi margt óljóst og ófrágengið í þessu frv. hans. Hver á m.a. að sjá um námskeiðahald sem boðað er í frv. fyrir þá sem eru án atvinnu? Hver er það sem ákveður og sér um úthlutun atvinnuleysisbóta til þeirra sem ekki eru í stéttarfélagi og þeirra sem eru sjálfstætt starfandi?
    Minni hlutinn telur nauðsynlegt að ráðherrann setji reglugerð um þessi atriði ekki síst í ljósi þess sem fram kemur í umsögn BHMR um þetta mál. Samband íslenskra sveitarfélaga varar við því í umsögn sinni að kostnaði við námskeiðahaldið sem boðað er verði velt yfir á sveitarfélögin. Það hefði þurft að leggja meiri vinnu í að laga frv. sem hér er til umræðu og einnig hefði verið æskilegt að lesa saman þau tvö frv. sem varða atvinnuleysistryggingar og lögð hafa verið fram ef þetta verk hefði átt að skila góðum árangri. Það var hins vegar ekki gert. Brtt. meiri hluta nefndarmanna eru til bóta en betur má gera. Þær umbætur felast í tillögum minni hluta heilbr. og trn. Ég ætla að síðustu aðeins að ítreka þá skoðun okkar alþýðubandalagsmanna að þrátt fyrir þær leiðréttingar sem felast í þessu frv. þá fari fram hið fyrsta samræmd heildarendurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar, vinnumiðlun og vinnumálaskrifstofu og að þessi málaflokkur verði hið fyrsta fluttur í félmrn.