Atvinnuleysistryggingar

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 22:12:26 (8272)

     Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Sigbjörn Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins út af ræðu hv. síðasta ræðumanns. Ég sagði hér áðan að um gífurlegar réttarbætur væri að ræða. Ég tel það gífurlegar réttarbætur þegar þúsundir manna sem hafa staðið utan atvinnuleysistrygginga komast að sjóðnum. Auk þess má benda á að útgjöld ríkissjóðs vegna þessa frv. munu aukast eftir því hversu atvinnuleysisstigið er hátt, frá 230 millj. miðað við 5,2% upp í 410 millj. eða þar um bil þó auðvitað verði erfitt að slá nákvæmri mælistiku þar á. Hvað varðar breytinguna þar sem felldur er niður réttur bóta úr 71 ári niður í 70 ár þá vil ég einungis geta þess að Ólafur Jónsson, formaður Landsambands aldraðra, tók undir þá breytingu og taldi hana eðlilega.