Atvinnuleysistryggingar

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 22:38:57 (8275)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að það komi fram hér vegna orða sem féllu í garð hæstv. heilbrrh. á þá leið að við værum ekki að fjalla um tillögu um það að flytja atvinnuleysistryggingar yfir í félmrn. ef hann væri viðstaddur. Það er nauðsynlegt að fram komi að það var með fullum vilja hæstv. heilbrrh. að þessi tillaga var hér komin fram og raunar átti hann frumkvæðið að því. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að það komi hér fram.
    Mér finnst það líka ómaklegt sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni að hér sé um að ræða illa samið frv. og vísaði hann til nokkurra brtt. sem hafa verið til umræðu í kvöld. Þessar brtt. eru efnislegar breytingar sem verið er að gera á frv. sem komu til í meðferð nefndarinnar á málinu. Það er því ekki við þá embættismenn að sakast sem þetta frv. sömdu. Þeir embættismenn sem þetta frv. sömdu þekkja best til þessara mála, atvinnuleysistryggingamála og málefni Atvinnuleysistryggingasjóðs. Mér finnst hann þá líka vega að aðilum vinnumarkaðarins sem áttu þátt í því að semja þetta frv.
    Varðandi námskeiðin og bótalausa tímabilið og starfsþjálfunina sem hv. þm. nefndi þá er í undirbúningi á vegum heilbrrn. að skipulegga námskeið fyrir atvinnulausa og leggja fram tillögu um framboð á slíkum námskeiðum. Það er nefnd í gangi og hún á að skila fyrir 1. september.
    Ég vil einnig nefna að ef slík námskeið eru ekki í boði þá verður ekki gerð krafa sem hér kemur fram varðandi starfsþjálfun.
    Að lokum vil ég nefna það, virðulegi forseti, að varðandi starfsmenntun og skipuleg námskeið fyrir atvinnulausa þá hefur aldrei verið eins mikið af slíkum námskeiðum í boði og starfsmenntun og fjármagn til starfsmenntunarmála hefur aldrei verið eins mikið og á síðustu tveimur til þremur árum. Það hefur gert það að verkum að hægt hefur verið að skipuleggja námskeið á undanförnum tveimur til þremur árum fyrir um 6--10 þús. manns.
    Allra síðast vil ég segja, út af húsnæðismálunum sem blönduðust inn í umræðuna og tillögu sem hér liggur fyrir um greiðsluaðlögun, að þriggja manna ráðherranefnd er að skoða greiðsluerfiðleikamálin og hvernig hægt sé að mæta þeim og m.a. það sem hv. þm. nefndi um greiðsluaðlögun.