Atvinnuleysistryggingar

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 22:41:26 (8276)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu að þriggja manna ráðherranefnd sé að störfum til að skoða þessi mál en það hafa þessir hv. þm. sem fluttu tillöguna greinilega ekki vitað. Ég tel engu að síður mikilvægt að Alþingi lýsi vilja sínum og ég mun fylgjast grannt með því hvort þingmennirnir fá leyfi til þess hjá Jafnaðarmannaflokki Íslands að styðja sína eigin brtt. þegar hún kemur til atkvæða hér á morgun.
    Varðandi námskeiðin þá vil ég bara segja það að hæstv. ráðherra segir nú og hæstv. heilbrrh. sagði það líka, ef námskeið eru ekki í boði þá halda menn bótum. Staðreyndin er hins vegar sú að það stendur ekki í frv. eins og það er. Það er alveg óhjákvæmilegt ef þetta er skilningur hæstv. ráðherra, sem ég dreg ekki í efa að er réttur, þetta er hennar skilningur og þetta var líka skilningur hæstv. heilbrrh. þegar hann mælti fyrir málinu og sömuleiðis hv. formanns nefndarinnar, ef ég man rétt, að þá bið ég þessa hv. þm. og hæstv. ráðherra í allri vinsemd um að velta því alvarlega fyrir sér hvort ekki er nauðsynlegt að skjóta hér inn einhverri lítilli breytingu á þessari málsgrein milli 2. og 3. umr.
    Varðandi það að hæstv. heilbrrh. hafi verið fylgjandi því að flytja málið til félmrn. þá þykir mér vænt um að heyra það, það er mjög skynsamleg tillaga. En ég verð að játa að viðbrögð mín stöfuðu kannski ekki síst af því að það kom mér mjög á óvart að hann skyldi vera þessarar skoðunar.