Afgreiðsla frumvarps um framleiðslu og sölu á búvörum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 09:08:55 (8281)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það með hv. 3. þm. Austurl. að það er mikilvægt að það liggi fyrir hvort og hvenær þetta mál verði tekið hér fyrir. Ég verð hins vegar að segja það að við fyrri hluta ræðu þingmannsins áðan þá hafði ég það eilitla stund á tilfinningunni að hann væri búinn að sætta sig við það að þeim væri ýtt út af dagskrá ef þau væru bara í réttri röð. En hv. þm. tók sig nú á í seinni hluta ræðunnar og áréttaði að það er mjög mikilvægt að þessi mál fái afgreiðslu í dag.
    Gagnvart þeim milliríkjasamningum sem við höfum verið að fást hér við hef ég haft þá pólitík að fylgja þar ákveðinni raunsæisstefnu og það væri skynsamlegra fyrir okkar hagsmuni að búa þannig um hnútana að ( Forseti: Forseti biður menn að fara ekki í efnislega umræðu hér.) það yrði unnið að því sem óhjákvæmilega yfir okkur kemur þannig að okkar hagsmunir yrðu sem best tryggðir. Virðulegur forseti. Ég er hér að ræða um þingsköp og rökstyðja við forseta nauðsyn þess að það mál sem hér er til umræðu verði sett á dagskrá og fái þinglega meðferð í dag.