Afgreiðsla frumvarps um framleiðslu og sölu á búvörum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 09:12:55 (8284)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég sé nú ekki betur, þegar maður lítur yfir þann málalista sem liggur fyrir, en að þá þurfi hann ekki að taka langan tíma og þar með gefist tími til að taka fyrir og ræða 504. mál innan skamms ef við komum okkur að verki og þá held ég að það eigi ekki að þurfa að verða mjög langur frestur á því. Það eru að vísu þarna nokkur umræðumál sem ég veit um en þó ekki mörg. Ég held að það væri skynsamlegt að fresta 22. og 23. máli og að undanteknum þeim sé ég ekki að hér þurfi að vera um mjög tafsöm mál að ræða. Ég hvet mjög eindregið til þess að gengið verði til dagskrár sem allra fyrst og reynt að koma frá þessum málum og þá verða allir sáttir. Auðvitað kemur ekki annað til greina en að ræða 504. mál og taka ákvörðun um það, láta atkvæði ganga um það hvernig því skuli háttað. Hér er um ákaflega mikið stórmál að ræða og það verður því stærra eftir því sem maður sér lengra undir teppið hjá ríkisstjórninni og verður vitni að þeim áflogum sem þar fara fram.