Íbúðaverð á landsbyggðinni

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 09:30:01 (8292)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að það sé ekki rétt að kenna uppbyggingu félagslega kerfisins um það að verð á íbúðum á almennum markaði á landsbyggðinni sé lágt. Ég held að það eigi sér miklu fremur aðra skýringu, að íbúðafjárfestingar eru áhættusamari á landsbyggðinni og þar veldur þróun atvinnulífs og afkoma íbúanna er oft sveiflukennd. Ég tel því að áhrif þess séu mun meira afgerandi á fasteignaverð á landsbyggðinni en á þéttbýlisstöðum. Og ég er reyndar þeirrar skoðunar að ef ekki hefði komið til öflug uppbygging á félagslega kerfinu, þá hefði lítið orðið um nýbyggingar úti á landi á sl. árum. Hitt er svo annað mál að ég hef lagt áherslu á það og ég tel að húsnæðismálastjórn hafi einnig lagt áherslu á þá stefnu að þar sem framboð er nægjanlegt á íbúðum á hinum ýmsu stöðum úti á landinu, þá verði leitast við að í stað nýbygginga verði keyptar íbúðir inn í félagslega kerfið, þ.e. notaðar íbúðir í stað nýbygginga og ég tel að slíkt sé rétt stefna og reyndar hefur verið mörkuð sú stefna að leitast við að a.m.k. 20% íbúða sem úthlutað er gangi til notaðra íbúða og það held ég að leiði til þess að jafna það sem hér er um talað, þ.e. lágt verð á íbúðarhúsnæði sums staðar úti á landsbyggðinni.