Íbúðaverð á landsbyggðinni

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 09:36:25 (8294)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í framhaldi af ræðu hv. 3. þm. Vestf. spyrja hann að því hvað beri að gera á þeim stöðum þar sem íbúum fækkar. Á ekki að bæta við nýjum úthlutunum á þá staði á heimildum til að byggja eða kaupa í félagslega íbúðakerfinu? Ef það er svo að fækkun á fólki samhliða aukningu á félagslegu íbúðarhúsnæði hafi slæm áhrif á almenna íbúðamarkaðinn, þá hlýtur hin rökrétta niðurstaða að vera sú að þar sem fólki fækkar, þar eigi ekki að úthluta heimildum því að það vegi að almenna íbúðamarkaðnum því að það eru færri kaupendur og ef hluti af þeim, enn færri kaupendur, fer í félagslega íbúðakerfið, þá fækkar kaupendum enn á almenna íbúðamarkaðinum. Þannig skil ég þá röksemdir hv. 3. þm. Vestf. og minni hann á það í leiðinni að það liggja fyrir umsóknir um allmargar heimildir í félagslega íbúðakerfið frá kaupstöðunum tveimur á Vestfjörðum þar sem fólki hefur ekkert fjölgað undanfarin 10 ár eða svo heldur fremur fækkað. Er það þá niðurstaða hans að húsnæðismálastjórn og síðar hæstv. ráðherra þegar hann fær valdið eigi ekki að úthluta heimildum á það svæði?