Íbúðaverð á landsbyggðinni

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 09:38:12 (8295)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ákvörðun um það hvenær eigi að sinna umsóknum um félagslegt íbúðakerfi hefur auðvitað sínar sjálfstæðu forsendur og forsendurnar eru auðvitað þær að ef þörf er á slíku húsnæði til þess að uppfylla þarfir þess fólks sem vill eignast húsnæði í gegnum það kerfi og uppfyllir þær kröfur sem til þess eru gerðar í reglum og lögum Húsnæðisstofnunar þá ber auðvitað að úthluta því hvert á land sem er með hliðsjón fyrst og fremst af þessum þörfum. Það er auðvitað augljóst mál og um það er enginn ágreiningur og það kom mjög rækilega fram við fyrri umræðu þessa máls að um þetta er enginn ágreiningur. Það eru allir sammála um þetta. Það breytir hins vegar ekki því að það sem er að verða mjög alvarlegt úti á landi er staða hinna almennu íbúðareigenda og ég veit að við hv. 5. þm. Vestf. erum sammála um það. Og það er ekki einkaskoðun mín eða einkaskoðun fjögurra flm. þessarar þáltill. að þetta sé mikið áhyggjuefni. Þvert á móti, eins og ég rakti m.a. í þeim umræðum, hafa einmitt mjög margir lýst áhyggjum sínum út af þessu máli og ég tel að þær jákvæðu umsagnir sem þetta mál fékk nánast undantekningarlaust m.a. frá kaupstöðunum vítt og breitt um landið, líka þeim kaupstöðum þar sem íbúum hefur fækkað og verið er að sækja um félagslegar íbúðir sanni það. Allir þessir aðilar voru afar jákvæðir, töldu nauðsynlegt að varpa betra ljósi á þetta, sýna stöðuna í heild sinni og ég held að menn megi ekki falla í þá gryfju að reyna að tala um þessi mál með þeim hætti að þegar við viljum skoða sérstaklega hlut þess fólks, þess mikla hóps úti á landi sem býr í sínu íbúðarhúsnæði, hefur ekki farið í gegnum félagslega íbúðakerfið, þá sé talað um það með einhverjum þeim hætti að það sé verið að vega með einhverjum hætti að grunni hins félagslega íbúðakerfisins því það er ekki verið að gera.