Íbúðaverð á landsbyggðinni

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 09:42:17 (8297)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé ekki rétt að þetta mál snúist um það hvort félagslega íbúðakerfið hafi verið misnotað eða ekki. Það er ekki kjarni þessa máls. Ég hef ekkert farið ofan í þau mál. Ég hef enga sérstaka ástæðu til þess að ætla að það hafi verið misnotað. Ég hef ekkert kynnt mér það og ég hef enga ástæðu til að ætla að það hafi verið misnotað og það er ekki það sem þetta mál snýst um að einu eða öðru leyti. Það sem þetta mál snýst um er ósköp einfaldlega að það er þannig úti á landi eins og menn vita og m.a. hv. 5. þm. Vestf. jafn vel og ég a.m.k., þá er sú staða uppi eins og hér kemur fram í greinargerð þáltill. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þar sem fólk á einhverja völ í því efni kýs það frekar að kaupa íbúðir í félagslega íbúðakerfinu á landsbyggðinni. Ástæðan er einföld. Á sveitarfélögunum hvílir sú kvöð að leysa til sín slíkar íbúðir á verðbættu stofnverði. Fólk sem á þann kost að eignast þannig húsnæði býr því við öryggi sem eigendur almenns íbúðarhúsnæðis geta ekki einu sinni látið sig dreyma um. Við þær aðstæður sem nú ríkja á landsbyggðinni er það því ofur skiljanlegt að fólk kjósi fremur öryggi hins félagslega íbúðakerfis en hið fullkomna öryggisleysi almenna íbúðamarkaðarins.``
    Þetta eru ábendingar sem ég hef komið hér fram með í greinargerðinni og ég tel að séu fullkomlega réttmætar. Og ég hef orðið mjög var við það að þetta er ekki einkaskoðun mín. Þetta er skoðun ekki síst þess fólks sem úti á landi býr og býr við þessar aðstæður sem við hv. 5. þm. Vestf. þekkjum afskaplega vel og þess vegna vil ég vara mjög eindregið við því að menn séu að reyna að stilla þessu upp einhvern veginn þannig að allar athugasemdir sem falla að því að skoða sérstaklega hlut og hag þess fólks sem býr við hið almenna íbúðalánakerfi, það sé á einhvern hátt eitthvert tilræði við félagslega íbúðakerfið. Því fer svo víðs fjarri, það er svo fráleitt og það er ekki hugsunin eins og margoft hefur komið fram. Og hér er verið að fara fram á athugun, skoðun á þessu máli og ég trúi ekki öðru en menn séu sammála um það og geti sammælst um það að það sé nauðsynlegt að fá niðurstöðu í þetta mál til þess að menn geti rætt þetta út frá fullkomnum staðreyndum en ekki vangaveltum.