Rannsóknir á botndýrum við Ísland

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 09:56:08 (8303)

     Frsm. sjútvn. (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. sjútvn. hefur fjallað um þrjár þáltill. sem allar varða rannsóknir eða nýtingu botndýra og hún hefur í framhaldi af því orðið sammála um að flytja svohljóðandi till. til þál. um rannsóknir á botndýrum við Ísland:
    ,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að láta Hafrannsóknastofnun vinna að áætlun um frekari rannsóknir á botndýrum við Ísland með megináherslu á tegundir sem vænlegar eru til nýtingar.

    Áætlunin skipi rannsóknarsvæðum í forgangsröð og áætli fjárþörf rannsóknanna. Meta skal hversu mikinn hluta rannsóknanna megi vinna í samvinnu við útgerðarmenn og fyrirtæki sem þegar nýta botndýr.
    Tilgangur rannsóknanna verði m.a. að leita nýrra miða og meta veiðiþol stofna. Jafnframt verði gerðar tillögur um hvernig best verði staðið að ráðgjöf og stuðningi við þróun og vinnslu á vannýttum botndýrum og markaðssetningu afurðanna.``
    Þessi tillaga, virðulegi forseti, er eins og ég sagði fyrr byggð á þremur þáltill. sem komu til umfjöllunar nefndarinnar. Þessar tillögur voru í fyrsta lagi tillaga um rannsóknir á botndýrum í Breiðafirði sem var 108. mál þingsins, jafnframt tillaga um könnun á nýtingu ígulkera sem er 358. mál þingsins og í þriðja lagi tillaga um stuðning við tilraunaveiðar og þróun veiðarfæra vegna veiða á ígulkerum sem var 393. mál þingsins.
    Við gerð tillögunnar var jafnframt höfð hliðsjón af upplýsingum sem nefndin heyjaði þegar hún heimsótti Hafrannsóknastofnun í mars sl. til þess m.a. að ræða rannsóknir af þessu tagi. Jafnframt komu forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar ásamt sérfræðingi sínum til ráðagerða við nefndina. Nefndarmenn eru sammála um að það sé mjög brýnt að leggja áherslu á rannsóknir á tegundum sem eru þegar nýttar, hörpudisk og ígulkerum og jafnframt að afla áreiðanlegrar vitneskju um útbreiðslusvæði og veiðiþol botndýrastofna.
    Nú er það svo, virðulegi forseti, að rannsóknir á botndýrum við Ísland eru komnar frekar skammt á veg en það er þó ljóst að frekari auðlindir eru á boti hafsins sem hægt er að nýta. Ég bendi sérstaklega á það að á þessum vetri hafa menn á tveimur stöðum á landinu hafið nýtingu ígulkera, en það hefur komið í ljós að menn vita lítt um útbreiðslu þeirra tveggja tegunda sem koma þar til álita þó einungis önnur sé nýtt og má minna á það að fyrir skömmu tók til starfa á Suðurnesjum fyrirtæki sem hefur 40--50 manns í vinnu og nýtir ígulker sem það lætur veiða fyrir sig í þremur fjórðungum. Og í samtölum við forsvarsmenn þess fyrirtækis kom það fram að það væri mjög brýnt að hægt væri að kortleggja hvar hægt er að fá ígulker til vinnslu. Sú tegund er þannig að hrygningartími hennar er breytilegur eftir hitastigi og reyndar líka daglengd og þess vegna er hrygningartími örlítið mismunandi eftir því hvar er við landið. Nú er til að mynda að fara sá tími í hönd í Breiðafirði þar sem aðaluppspretta tegundarinnar er að hrygning verður senn afstaðin. Þá er ekki hægt að fá þar ígulker til útflutnings fyrr en sennilega í ágúst aftur. Þannig er brýnt að fá vitneskju um það, virðulegi forseti, með hvaða hætti er hægt að nýta mismunandi stofna við landið til þess að hafa sem jafnast framboð á hrognum.
    Þess er líka að geta að þingmenn hafa áður sýnt þessu máli drjúgan áhuga og má þar sérstaklega minna á þáltill. sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson flutti fyrir einhverjum árum, fyrir mína tíð, og var raunar samþykkt og öllum ber saman um að hafi verið hið þarfasta mál, enda hefur þingmaðurinn löngum sýnt þessum málum mikinn áhuga. Mér er jafnframt tjáð það að í kjölfar þessarar þáltill. hafi ekki verið nægileg áhersla af hálfu þingsins né framkvæmdarvaldsins að hrinda henni í framkvæmd. Það er rétt að fram komi að í umræðum í sjútvn. var einmitt drepið á þessa tillögu og ég vænti þess að með samþykkt þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir þá megi ýta með nægilega röskum hætti við framkvæmdarvaldinu til að menn loksins vindi sér í þessar mjög svo brýnu rannsóknir.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að þessari tillögu verði vísað til síðari umræðu.