Veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 10:52:29 (8313)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vænti þess að hv. þm. viti um flota Evrópubandalagsins, þann gífurlega flota sem er verkefnalítill eða verkefnalaus og er búinn að eyða eigin fiskimiðum og veiðislóð og Evrópubandalagið er einmitt að leggja sig í framkróka um það að komast inn í fiskveiðilögsögur hvarvetna um heiminn, ekki bara hér á Íslandi sem þeim hefur tekist með fyrirgreiðslu hv. þm. og EES-samningnum að komast inn í okkar lögsögu. Ég er að setja fram spurninguna um það hvort þetta á að vera okkar stefna. Er þetta skynsamlegt? Ég læt það óátalið að einkafyrirtæki séu að reyna að koma ár sinni fyrir borð í þessum efnum en til hvers leiðir það ef þessi gífurlega ónýtta fjárfesting sem liggur fyrir í veiðiflota á heimsmælikvarða og fyrst og fremst hjá hinum ríkari þjóðum, verður beitt á veiðislóðir þar sem eitthvað er eftir að hafa og menn komast þar inn hvort sem það eru vannýtt kolamið í Barentshafi, sem hér voru nefnd, eða hvar þetta er. Til hvers leiðir þetta? Menn vita í rauninni sáralítið um afleiðingarnar, þekkingin í þessum efnum er öll í molum varðandi lífríki hafsins og einstök fiskimið og er það auðvitað einnig hér hjá okkur eins og við ræddum af tilefni síðustu tillögu og þess vegna tel ég að íslensk stjórnvöld eigi ekki að fara inn á þessa braut sem hér er verið að tala um. Við eigum miklu frekar að einbeita okkur að okkar svæði,

halda þétt um það. Láta útgerðaraðila sem opnað er fyrir víða um heim um það að brjótast inn og komast inn í veiðar í lögsögu annarra ríkja, af því getum við auðvitað ekki haft opinber afskipti.