Veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 11:18:06 (8318)

     Frsm. sjútvn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil segja að ég er sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Ég tel líka að hæstv. sjútvrh. hafi með sinni ræðu farið fram á að tillagan væri látin liggja. Rétt er að fram komi að þessi tillaga var lögð fram í fyrra og endurflutt aftur á þessu ári. Þá held ég að þetta hafi ekki legið fyrir. Þá vill nú svo til að ég hef e.t.v. gert tíðreistara til Sovétríkjanna heldur en hæstv. sjútvrh. og jafnvel varaformaður Alþb. Ég hef einmitt rætt þessi mál við yfirmenn til að mynda í einu sjávarútvegshéraði þ.e. í Kamtsjatka þar sem menn höfðu á þeim tíma þegar þessi tillaga var skrifuð áhuga á þessu. Ég vil líka að það komi fram að í greinargerð með tillögunni er ekki endilega talað um að kaupa aflahlutdeild. Það er líka alveg ljóst að eins og hæstv. sjútvrh. hefur bent hér á þá hafa Rússar sagt að þeir vilji á móti fá aflaheimildir hjá Íslandi. Þá þýðir það einfaldlega að sá möguleiki er þrautnýttur og útnýttur og er ekki lengur á dagskrá. En fyrst að hæstv. sjútvrh. fer fram á það, til að efla samstarf í þinginu og til að greiða fyrir þingstörfum, að þessi tillaga verði tekin út af dagskrá þá fer ég hér með fram á það, hæstv. forseti, að farið verði að ósk hæstv. sjútvrh.